Mars hefur verið mjög öflugur mánuður með almyrkva á Tungli þann 14. mars, Jafndægrum á vori þann 20. mars og svo deildarmyrkva á Sólu þann 29. mars. Neptúnus toppar þetta svo allt með því að halda inn í Hrútinn þann 30. Mars, en inn í það stjörnumerki hélt hann síðast árið 1861.
Það tekur Neptúnus um 165 ár að fara einn hring um sporbaug sinn, svo líkur eru á að Neptúnusi fylgi miklar breytingar en hann verður í Hrútnum næstu 14 árin. Daginn áður en að hann fór inn í Hrútinn árið 1861 braust út borgarastyrjöld í Bandaríkjunum á milli norður- og suðurríkjanna, vegna þrælahalds suðurríkjanna.
UMBREYTING
Mikil umbreyting fylgir alltaf almyrkva á Tungli, því þegar skuggi jarðar fer yfir Tunglið og birtir svo er eins og við blasi ný „leikmynd“. Það að Jafndægrin skuli hafa verð nánast mitt á milli myrkvanna eykur enn á umbreytingarorkuna sem fylgir þessum afstöðum. Ekki síst vegna þess að margar plánetur sem eru eða hafa verið aftast í Fiskamerkinu eru nú á næstu dögum, vikum og mánuðum að fara inn í Hrútinn.
Fiskarnir eru síðasta merkið í stjörnumerkjahringnum og Hrúturinn það fyrsta, svo þetta ferli gefur til kynna endalok og upphaf einhvers nýs, einkum þar sem 0 gráðan í Hrút, Vog, Krabba og Steingeit myndar Öxul Alheimsins og það sem gerist á honum verður áberandi á heimsvísu.
NEPTÚNUS AFTAST Í FISKUNUM
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvar í stjörnukortum okkar síðasta gráðan í Fiskum lendir, sérstaklega í hvaða húsi kortanna, til að við getum séð hvar upplausnin sem fylgir síðustu gráðunni kemur fram og hvað það er sem þjónar okkur ekki lengur og við þurfum að sleppa tökum á.
Neptúnus snýr reyndar aftur inn í Fiskana þann 22. október á þessu ári og heldur sig í Fiskunum á anoretísku eða síðustu gráðunni til 27. janúar 2026, en þá fer hann að fullu inn í Hrútinn og verður þar til ársins 2038. Fólki gæti fundist það vera í tómarúmi á þessu tímabili og að undirstöður lífsins séu ekki traustar, en það er eðlilegt, því gömlu kerfin á heimsvísu eru að hrynja og samhliða því er verið að gera tilraun til að byggja upp eitthvað nýtt.
Í Neptúnusi í Hrút býr draumurinn og við erum að læra að móta hann og taka ákvörðun um hver við viljum í raun og veru verða og í hvernig heimi við viljum búa.
MERKÚR OG VENUS Á FERÐ AFTUR Á BAK
Persónulegu pláneturnar Merkúr og Venus hafa verið á ferð afturábak. Sjá nánar um Venus í grein minni VENUS Á FERÐA AFTURÁBAK, en þar kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að við finnum drauminn okkar, það sem okkur langar til að vera eða gera. Merkúr á ferð afturábak styður það ferli, því hann fær okkur til að hugsa um og meta það sem hefur verið að gerast í lífi okkar, hvernig vináttu- og ástarsamböndin eru og hvort þau séu búin að renna sitt skeið. Plánetan Venus er alltaf tengd peningum, svo við getum átt von á einhverjum breytingum á peningamörkuðum í kringum mánaðarmótin.
Merkúr er á síðustu gráðunni í Fiskunum, svo allt tilfinningalegt getur verið að koma upp á yfirborðið. Allt sem við höfum falið, geymt og gleymt í líkama okkar og kann að vera að valda ójafnvægi þar, þarf nú að koma upp á yfirborðið. Merkúr og Venus eru nánast samhliða í þessu afturábak ferli sínu, svo það er mikið endurmat í gangi.
ÚRANUS NÁNAST KYRRSTÆÐUR
Gott er að vera meðvitaður um að Úranus hefur í raun verið nánast kyrrstæður á 23 gráðum í Nauti síðan 19. desember 2024. Hann hefur því haft veruleg áhrif á allar plánetur í hinum föstu merkjunum, sem eru Ljón, Sporðdreki og Vatnsberi.
Þú getur skoðað áhrif hans með því að skoða hvort þú sért með plánetur á bilinu frá 22-24 gráðu í einhverju af stjörnumerkjunum og hver afstaðan er við Úranus. Áhrifin frá Úranusi geta leitt til óróleika og eirðarleysis, löngunar í eitthvað nýtt og eitthvað sem brýtur upp gamla mynstrið.
Úranus byrjaði hins vegar að færa sig fram á við nú í mars, en það tekur Úranus um 84 ár að fara einn hring um sporbaug sinn. Við megum vætna verulegra umskipta þegar hann fer inn í Tvíburana, sem hann gerir þann 7. Júlí næstkomandi. Þar fer hann strax í samstöðu við dvergplánetuna Sedna sem er á núll gráðunni í Tvíburum, en Sedna tengist andlegri umbreytingu og uppgjöri við svik feðraveldisins.
Meðan Úranus er ennþá í Nauti, tengist hann bæði jarðskjálftum og eldgosum, ýmis konar óvæntum atburðum, ofsafengnu veðri og Neptúnus á síðustu gráðunni í Fiskum tengist miklli rigningu og flóðum.
Þegar Sólin myrkvast bara að hluta kallast það deildarmyrkvi, en Sólmyrkvi virkar eins og stórt nýtt Tungl. Þetta er síðasti myrkvinn í röð myrkva í Hrúti / Vog, því það sem eftir lifir árs og fram í febrúar árið 2026 verða myrkvarnir í Meyju / Fiskum. Sól og Tungl eru alltaf í samstöðu á nýju Tungli og eru á nákvæmlega 9 gráðum í Hrútnum.
Við megum vænta þess að mikil orkubylgja streymi til Jarðar frá 29. mars og fram til 7. apríl. Mikil gos hafa verið á Sólinni síðustu daga og vindhraðinn þar fór í yfir þúsund km þann 27. mars, en er alla jafnan um 300 km. Allar líkur eru á að þessari orkubylgju frá Sólinni fylgi mikið stökk í meðvitund okkar, þar sem við erum nú þegar komin inn í tímabil Vitundarvakningarinnar miklu.
MERKÚR, NEPTÚNUS OG VENUS
Merkúr, Neptúnus og Venus eru í samstöðu aftast í Fiskunum, við það að renna inn á fyrstu gráðuna í Hrút. Samstaða Venusar og Neptúnusar í Fiskunum getur tengst fegurð, fagurfræði og sköpunargáfu á hinu stóra sviði alheimsins. Neptúnus getur líka aukið skilyrðislausan kærleika okkar, svo og Salacia, sem er æðri birting kærleikans og er í samstöðu við Sól og Tungl á 10 gráðum í Hrút.
ENDIR OG NÝTT UPPHAF
Þar sem Fiskarnir eru síðasta merki stjörnumerkjahringsins og Hrúturinn það fyrsta, eru allar þessar plánetur sem eru á leið inn í Hrútinn að boða nýtt upphaf og breytingar. Þess vegna er mikilvægt að skoða eigin fæðingarkort og sjá hvort þar séu einhverjar plánetur á síðustu gráðunum í Fiskum eða fyrstu gráðunum í Hrútnum.
Það ræðst af því hvar þessar plánetur lenda, það er að segja í hvaða húsi fæðingarkortsins, hvaða áhrif þær gætu verið að hafa á líf okkar og hvaða breytinga við megum vænta.
MARGAR PLÁNETUR Á FYRSTU GRÁÐUNUM
Það eru margar plánetur á fyrstu gráðunum í stjörnumerkjunum núna og þær boða allar breytingar. Plútó er á 3 gráðum í Vatnsbera, með sitt niðurbrot og uppbyggingu. Neptúnus verður á núll gráðu í Hrútnum á morgun í 60 gráðu samhljóma afstöðu við Plútó.
Dvergplánetan Sedna sem tengist höfunum og umbreytingu eða öllu frekar myndbreytingu okkar, er á 0 gráðu í Tvíburum í 120 gráðu afstöðu við Plútó og 60 gráðu afstöðu við Neptúnus. Fremst í Sporðdrekanum er svo dvergplánetan Haumea, með sín endurnýjandi og enduruppbyggjandi áhrif í 90 gráðu spennuafstöðu við Plútó og 120 gráðu samhljóma afstöðu við GongGong í Fiskunum, en GongGong fylgir aukin andlega orka.
Allar þessar plánetur sem eru á fremst gráðunum í þessum merkjum hafa áhrif inn á plánetur sem eru á fremstu gráðunum í persónulegum stjörnukortum fólks.
MUNIÐ AÐ SETJA MARKMIÐ
Almennt er litið svo á að nýtt Tungl sé góður tími til að setja fram ásetning sinn eða markmið. Því er þetta frábært tími til þess og gott að nýta helgina í það. Best er að setja markmiðin fram í fyrstu persónu eintölu eins og þau hafi þegar náðst eins og til dæmis. „Ég er nú þegar keyrandi um á nýjum bíl.“
ATH! Ef þú átt ekki stjörnukort geturðu pantað þér stjörnukort sem er bæði með dvergplánetunum og plánetunum í „transit“ eða eins og þær eru á ferð um himinhvolfin núna. Kortin er með 20% afslætti í tilefni af tilfærslu Neptúnusar inn í Hrútinn – til loka dags 30. mars. SMELLTU HÉR til að panta þér kort!
www.gudrunbergmann.is