c

Pistlar:

12. apríl 2025 kl. 9:59

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Mikilvægi lifrar

shutterstock_2261181955-liverEftirfarandi grein byggist á hluta úr kafla í bók minni HREINN LÍFSSTÍLL sem kom út árið 2017. Kaflinn var skrifaður af Matthildi Þorláksdóttur náttúrulækni. Bókin er uppseld, en þar sem ástand lifur er alltaf mikilvægt ákvað ég að birta hér hluta kaflans:

STARFSEMI LIFRAR OG MIKILVÆGI

Lifrin er eitt af lífsnauðsynlegustu líffærum líkamans, því án hennar getum við ekki lifað. Í náttúrulækningum er heilbrigð lifur því gjarnan álitin lykill að góðri heilsu. Sé hún vanvirk má í reynd segja að allur líkaminn líði fyrir það. Það er þó bót í máli að sé eitthvað að býr lifrin yfir ótrúlegri hæfni til að endurnýja sig. Sé helmingur hennar fjarlægður býr hún yfir þeim eiginleika að geta vaxið aftur í fulla stærð, jafnvel á nokkrum vikum. Forsenda þess er þó sú að sá hluti sem eftir er sé heilbrigður. Þessa góðu eiginleika lifrarinnar ættum við frekar að læra að meta en ögra þeim.

Með mikilvægi lifrarinn í huga er athyglisvert að sjá að í tungumáli okkar er orðið lifur af sama stofni og sögnin að lifa og það á ekki bara við í íslensku heldur fleiri tungumálum. Í ensku er það sögnin to live og nafnorðið liver og í þýsku sögnin leben og nafnorðið Leber.

STÆRSTI KIRTILL LÍKAMANS

Lifrin er stærsti kirtill líkamans og vegur um 1,4 kg í fullorðnum einstaklingi. Hún liggur hægra megin í kviðarholi undir þindinni og fyrir neðan hægri lungnavæng, að stórum hluta á bak við rifbeinin.

Heilbrigð lifur er rauðbrún á litinn. Þessi brúni litur stafar af miklu og góðu súrefnisflæði í æðum sem flytja súrefnisríkt blóð um lifrina. Á neðri hlið hennar liggur gallblaðran sem geymir gallvökvann, sem lifrin framleiðir.

Lifrin skiptist í tvo vængi, sem báðir eru hjúpaðir hylki eða poka, sem aðskilur hana frá öðrum líffærum. Pokinn sem umlykur lifrina er með taugar, sem gera það að verkum að bólgni lifrin kemur þrýstingur á pokann og það veldur óþægilegum þrýstingi hægra megin í kviðarholi. Í lifrarvefjunum sjálfum liggja þó engar taugar. Þess vegna sendir lifrin ekki frá sér boð um verk, þótt hún sé undir miklu álagi. Þau boð koma frekar fram sem almenn þreyta í líkamanum.

LIFRIN BER ÁBYRGÐ Á HUNDRUÐUM EFNASKIPTA

Lifrarvefirnir innihalda fjöldann allan af lifrarfrumum sem eru með hátt hlutfall af hvatberum vegna hinnar orkuríku starfsemi sem fram fer í lifur. Einnig er gnótt af ónæmisfrumum í lifrinni, enda er varnarstarf hennar mikilvægt.

Lifrin er ábyrg fyrir mörg hundruðum efnaskipta, auk þess sem hún framleiðir gallvökva og er mikilvægasta afeitrunarlíffæri líkamans. Hún síar um einn og hálfan lítra f blóði á mínútu og framleiðir meira en einn lítra af galli á dag. Því betra sem gallflæðið er, þeim mun betur nær lifrin að rækja hreinsunarstarf sitt, því í lifur eru efni ýmist unnin eða úrgangsefni brotin niður.

Gallvökfinn er með ph-gildi 9,3. Hann þjónar þeim tilgangi að brjóta niður fitu í smáþörmum og hjálpa til við að gera súrt næringarmauk frá maga basískt í smáþörmunum. Gallið hefur líka það hlutverk að hjálpa til við upptöku á fituleysanlegu vítamínunum A, E, D og K.

VERKEFNI LIFRAR ERU MÖRG

Verkefni lifrar eru mörg en þau eru meðal annars:

  • Hún geymir glúkósa og fitu, sem nýtt eru sem orkugjafar fyrir líffærin og frumurnar.
  • Hún tekur þátt í að viðhalda eðlilegu sykurmagni blóðsins.
  • Hún geymir blóð.
  • Í lifrinni eru prótein mynduð, svo og efni sem heitir fíbrínogen, sem er mikilvægt fyrir blóðstorknun.
  • Lifrarfrumur sjá um að mynda flest prótein í blóðvökva auk þess sem lifrarensím geta líka breytt sumum amínósýrum í aðrar.
  • Albúmín er eitt af þessum mikilvægu próteinum sem lifrin framleiðir. Það gegnir mikilvægu hlutverki sem burðarprótein í blóði, auk þess sem það viðheldur réttum þrýstingi í vefjum og viðheldur vökvajafnvægi í æðum.
  • Lifrin framleiðir gallvökva.
  • Hún brýtur niður skaðleg efni og örvar úthreinsun á þeim.
  • Hún brýtur niður gömul rauð blóðkorn
  • Lifrin afeitrar líffæri, sem eru undir álagi vegna lyfja, hormóna eða annarra íþyngjandi efna.
  • Hún tekur þátt í ónæmisvörnum með því að vinna á örverum sem koma m.a. frá meltingarvegi og geta valdið sýkingum.
  • Lifrin geymir vítamín eins og A-, D-, K-, B-12-, og E-vítamín, ásamt járni og kopar.
  • Hún tekur þátt í blóðmyndun fósturs fram á sjöunda mánuð meðgöngu.

Hér lýkur tilvitnun í kaflann sem Matthildur skrifaði, en hann er allt of langur í eina grein. Fleiri kunna að fylgja á næstunni.


Ég vil hins vegar vekja athygli lesenda á stuðningsnámskeiði við LIFRARHREINSUN sem ég verð með frá 3.-11. maí næstkomandi. SMELLTU HÉR til að lesa meira um það.

www.gudrunbergmann.is 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún ruddi brautina þegar hún hóf að halda sjálfsræktarnámskeið árið 1990. Síðan þá hefur hún haldið fjölda námskeiða tengt heilsu og sjálfseflingu, aðallega kvenna, þótt karlmenn hafi líka slæðst með. Að auki hefur hún haldið fyrirlestra, bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur einnig skrifað tuttugu bækur og fjölda greina, bæði á eigin vefsíðu - gudrunbergmann.is - og í blöð og tímarit. Nokkrar bóka hennar hafa verið gefnar út erlendis, bæði í Bandaríkjunum, Noregi, Austurríki og Þýskalandi. Þú finnur hana líka á YouTube og á Instagram.

Meira