Síðastliðna nótt klukkan 22 mínútur eftir miðnætti varð Tunglið fullt. Tunglið var þá á 24 gráðum í Vog, í 180 gráðu spennuafstöðu við Sólina. Í samstöðu (við hliðina á) Sólinni var dvergplánetan Eris, nefnd eftir einu gyðjunni sem ekki var boðið í brúðkaup á Ólympusfjalli – og á sömu gráðu og Sólin var plánetan Chiron, hinn særði heilari.
Núna er því frábær tími til að gera upp gömul sár, sleppa tökum á þeim og stíga út úr fórnarlambshlutverkinu – og taka fulla ábyrgð á eigin lífi. Við þurfum að læra að gera greinarmun á því hvað er okkar karma og hvað er karma annarra sem við höfum tekið yfir á okkar herðar – og erum þess vegna alltaf að drepast úr verkjum í öxlunum.
Að mínu mati er Vogin eitt meðvirkasta stjörnumerkið, alltaf að reyna að gera öllum til hæfis og hafa alla góða. Reyndar er það ekki okkar hlutverk að reyna að blíðka aðra og passa okkur á að styggja engan. Okkar er að hugsa um eigin hamingju og smita henni svo út til annarra sem eru mótttækilegir fyrir henni – en ekki yfirfæra orku okkar á aðra til að “reyna” að gera þá glaða eða hamingjusama. Hver er sinnar gæfu smiður í þessu sem og í öðru.
VENUS KOMIN Á SKRIÐ ÁFRAM
Venus breytti í gær um stefnu og lauk þar sem 40 daga köfun sinni inn á við. Við getum því byrjað að koma okkur út úr þessu endurmatstímabili okkar, þar sem við höfum verið að meta “hver við viljum verða þegar við verðum stór” eða hver draumur okkar er og hvernig við viljum láta hann rætast.
Hjá mörgum hafa undanfarnir 40 dagar snúist um að losa sig við gömul hegðunar- og hugsanamynstur, gamla ávana og prófa sig áfram í einhverju nýju. Nú þegar við förum að láta drauma okkar og umskipti frá hinu innra, til hins ytra verða að veruleika gildir að sýna sjálfum sér umhyggju.
MARS OG NORÐURNÓÐAN
Mars er í 90 gráðu spennuafstöðu við Norðurnóðuna, en hún er táknræn fyrir stefnu okkar og örlög inn í framtíðina. Fyrir það sem við komum hingað til Jarðar til að gera. Við höfum kannski verið að vinna úr gömlu karma – eða verið að forðast að gera það, en framundan býðst okkur tækifæri til að mynda nýtt karma og virkilega vinna að því sem við komum hingað til að gera. Í mínum huga er það að læra að vera meira í hjartaorkunni og tengja okkur betur við innsæisvitund okkar.
MARS OG MAKEMAKE
Mars er líka í fimmtungs afstöðu (72 gráður) við dvergplánetuna MakeMake, sem er pláneta kerfisvitundar okkar og er á 10 gráðum í Vog. MakeMake er táknræn fyrir skilninginn sem við höfum verið að þróa í gegnum lífið á því hver við erum og hvernig heimurinn virkar. Fimmtungurinn segir okkur að þessi heimssýn getur uppljómað, á mjög djúpan hátt, þær aðgerðir sem við setjum í framkvæmd til að uppfylla örlög okkar. En við verðum að grípa til aðgerða, fimmtungarnir gerast ekki bara af sjálfu sér.
Líta má á MakeMake sem hærri áttund Úranusar, sem í nútíma stjörnuspeki er hærri áttund Merkúrs. Hugmyndir og samskipti hins vængjaða boðbera eru innsæi sem eflist af orku Úranusar og skapar ríkari innsæis skilning á MakeMake stiginu. Allar þrjár pláneturnar eru bragðarefir og MakeMake er andlegur bragðarefur, sem gerir okkur kleift að gera tilraunir með það svæði lífsins sem er táknað með stöðu hans í fæðingarkortinu okkar. Því glaðari sem við getum verið, því nær hinu guðlega munum við verða.
MAKEMAKE
Þegar við þróum MakeMake orkuna með okkur skiljum við brotaeðli þessarar heimsmyndar, þar sem hver hluti heildarinnar vísar til allra annarra hluta. Á andlega stiginu þróum við skilning á hinu ríkulega veggteppi lífs okkar á hverju augnabliki. Í gegnum brotaeðli MakeMake sjáum við líka Alheiminn á hverju augnabliki, en Alheimurinn er stærsta kerfið sem við erum hluti af. Á þessu stigi verður kerfisvitund okkar að kosmískri vitund og við skiljum betur heildina sem við erum hluti af.
Heimildir: Þessi grein er unnin upp úr pósti frá Alan Clay skólastjóra og aðalkennara við The Dwarf Planet University í Ástralíu.
Athugið! Ef þú átt ekki persónulegt stjörnukort með dvergplánetunum, geturðu SMELLT HÉR til að panta þér kort.
www.gudrunbergmann.is