Ég kynnti mér nýlega hugmyndina um “Meistaramánuð" og komst að því að hún snýst um að hvetja okkur til að taka höndum saman um að víkka út þægindarammann og setja okkur markmið. Það er auðveldara að gera hlutina saman en hvert í sínu horni. Við í Andartaki ákváðum að nota tækifærið og hvetja jógaiðkendur og aðra sem vilja vera með – að koma sér upp daglegri hugleiðsluiðkun í Meistaramánuði. Í jóga tölum við um að það taki 40 daga að koma sér upp nýjum venjum.
Ef við ætlum að tileinka okkur nýjan lífsstíl er gott að muna að það gerist ekki á einum degi. Það getur verið ágætt vegarnesti að hafa næga þolinmæði gagnvart sjálfum sér og færast ekki í fang meira en við teljum okkur geta staðið við.
Til þess að taka upp nýja siði þurfum við að sleppa gömlum og oft rótgrónum venjum og taka upp nýjar venjur sem þjóna okkur betur. En gömlu venjurnar urðu ekki til á einum degi.
Venjumynstrum okkar mætti líkja við árfarveg sem myndast við flæði vatns eftir sama farvegi ár eftir ár. Þessi mynstur eru til í undirvitund okkar og mynduðust á löngum tíma. Við endurtökum þessi hegðunarmynstur sjálfkrafa og vegna þess hve þau eru rótgróin í okkur er erfitt að sleppa þeim. Til þess er í raun nauðsynlegt að búa okkur fyrst til nýjar venjur. Það er líka mun skemmtilegra að einbeita sér að þvi að koma sér upp nýjum, jákvæðum og uppbyggjandi venjum en að því að losa sig við “slæma” og eða niðurrífandi ávana.
Það er mjög mikilvægt að gera hlutina á eigin forsendum – að finnast við vera við stjórnvölinn. Þetta er í grunninn spurning um viðhorf. Það verður allt miklu auðveldara ef við tökum sjálf ábyrgð á eigin lífi.
Jóga kennir okkur að hlusta á okkur sjálf og að takast á við hugann. Ef við erum ekki meðvituð um spennuna innra með okkur eða það hvernig okkur líður getur lífið orðið svo innantómt og flatneskjulegt. Jóga hjálpar okkur að nálgast dýptina innra með okkur. Flestir anda til dæmis allt of grunnt. Of grunn öndun veldur streitu, gerir okkur einbeitingarlaus og óöguð. Við hættum að upplifa og njóta og förum að gera hlutina ómeðvitað og án gleði.
Jógaiðkun getur hjálpað okkur að taka upp nýjar venjur. Þegar við lærum að takast á við hugann og förum að slaka meira á fylgir því löngun til að gera fleira sem er gott fyrir okkur. Fyrir hverja nýja og upplyftandi venju sem við tileinkum okkur fylgja yfirleitt margar í kjölfarið.
Dagleg hugleiðsla gefur okkur aukna einbeitingu, dregur úr streitu og kvíða, bætir ónæmiskerfið og eykur sjálfstraustið. Við förum að sjá betur hvert við stefnum og hvað við viljum í lífinu og öðlumst aukið þol fyrir breytingum og erfiðleikum.
Þeir sem vilja taka þátt í áskoruninni geta sent okkur póst á andartak@andartak.is eða bara komið og verið með í fyrstu hugleiðslunni miðvikudaginn 1. okt. kl 16.30 í Andartaki, Skipholti 29A. Hægt er að fræðast meira á Andartak.is
Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð / gudrun@andartak.is