c

Pistlar:

4. janúar 2018 kl. 14:15

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Láttu vindinn dansa fyrir aftan þig

dreamstime_m_42811315Nýtt ár markar nýtt upphaf. Ljósið hefur fæðst á ný í myrkrinu,sólin byrjar að hækka á himninum og daginn tekur að lengja smátt og smátt. Nýtt ár býður okkur að horfa á lífið í nýju ljósi og sá nýjum fræjum.

Ef við skoðum árið 2018 út frá talnaspeki þá færir árið okkur þörf fyrir stærri sýn á lífið. Við verðum ekki lengur ánægð með að hafa hlutina eins og þeir hafa alltaf verið á neinu sviði lífsins. Þetta nýja ár snertir líka streng í okkur sem kallar á andlega rækt og þörf fyrir samhljóm. Samhljóm milli hugar og hjarta, þess sem við hugsum og gerum. Að stilla saman hina ýmsu þætti hversdagsins.

Í jógafræðunum er hægt að skoða líf sitt út frá tímabilum. Með því að skoða þau getum við horft á hvernig við höfum vaxið og þroskast í gegnum ævina. 7 ára tímabilið segir okkur hvernig meðvitundin hefur þroskast og 11 ára tímabilið segir okkur hvernig hugsun okkar hefur þróast. 18 ára tímabilið er tímabil lífsorkunnar. Á 18 ára fresti er okkur boðið að byrja á nýjum lífshring. Fyrstu 18 árin sækjum við lífsorkuna okkar að mestu í næringu, hormón og í taugakerfið. Seinna þurfum við að læra að sækja orkuna líka í gegnum hugann og lífsorkuna í andardrættinum og eftir 54 ára aldur þurfum við líka að geta sótt orkuna okkar inn á fínlegri sviðum sálarinnar. Þess vegna er svo gagnlegt að læra í gegnum lífið að nærast á því andlega og tengja við óendanleikann. Ekki bara sjálfið og veraldlega hluti.

Nú er að ljúka 18 ára tímabili sem hófst um aldamótin fyrir okkur sem samfélag. Þessi hringur sem er að lokast kallar á okkur að tileinka okkur loksins ákveðna hluti. Við þurfum að spyrja okkur; erum við búin að læra? Annars þurfum við að velkjast með þá amk næstu níu árin. Það er átak að koma sér upp úr gömlu fari. Hugleiðsla er eitt besta tækið sem ég þekki til að styðja við mig á þeirri leið. Að gefa mér tíma til að hlusta inn á við og heyra hvað sálin mín vill. Helst daglega.

Einn mikilvægasti lærdómurinn sem við erum að tileinka okkur sem samfélag snýst um kvenorkuna og það fínlega og óséða. Við sem konur þurfum að læra að finna kraftinn okkar í samskiptum, að læra að gera hlutina á okkar forsendum sem konur, að tileinka okkur sjálfstraust, finna að við eigum val, læra af reynslu annarra og hætta að endurtaka sama mynstrið.

Tala ársins 2018 er 11. Ellefu stendur fyrir sambönd – þar með talið samband okkar við Guð eða okkar æðra sjálf. Tengingin við uppsprettuna innra með okkur. Hún stendur fyrir hring sem lokast og um leið nýtt upphaf, nýtt fræ sem við sáum. Talan ellefu er líka hljómur óendanleikans eða uppsprettunnar. Við getum tengt við hann í gegnum möntrur. Möntrur eru öflug tæki til að hreinsa og breyta mynstrum sem liggja föst í undirvitundinni. Það getur verið mjög gefandi að vera með möntrutónlist á heimilinu, í vinnunni og á ferðinni í bílnum. Og að hugleiða á möntrur. Við getum sótt styrk og innri samhljóm í möntrum þegar álagið eykst.

Nýtt ár býður okkur að breyta gömlum mynstrum og koma okkur upp úr gömlu fari. “Andaðu inn og segðu í huganum orðið “sigur” og andaðu svo frá. Þú munt finna styrk frá hundrað englum fyrir aftan þig. Megi nýja árið og lífið vera eins gleðilegt og það getur orðið. Láttu vindinn dansa fyrir aftan þig, englana dansa með þér og vitund þína leiða þig til sigurs” Yogi Bhajan um áramót 1992

Guðrún Darshan, jógakennari, hómópati og markþjálfi

Guðrún Darshan kennir jóga í Bústaðakirkju. Hægt er að skoða námskeiðin á heimasíðu Andartaks: Andartak jóga og heilsustöð

gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira