c

Pistlar:

13. júní 2023 kl. 12:14

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Krónos og Kairos: Tvö andlit tímans

Við vöknum á morgnana og segjum, „ég svaf ekki nóg“ og við leggjumst á koddann og segjum, „ég kom ekki nógu í verk“, segir Brené Brown

Við eyðum miklu af okkar daglega lífi í línulegum tíma, sem gefur okkur tilfinningu fyrir skorti, og þessa nagandi hugsun að sama hvað við reynum þá séum við aldrei nóg og gerum ekki nóg. Þessi upplifun okkar á tíma sem stefnir í eina átt, fylgir vinstra heilahvelinu og verður til þess að við erum sífellt að keppast við að sanna að við séum einhvers virði, að sýna að við höfum gert eitthvað sem skiptir máli. 

Náttúran og árstíðirnar sýna okkur aðra leið til að upplifa tíma. Við getum kallað það flæði. Forn Grikkir voru með tvö orð yfir tíma, Krónos og Kairos. Krónos, er línulegur, mælanlegur tími, mínútur, klukkutímar, ár. Krónos mælir magn. Kairos mælir gæði. Gæðastundir, ferska upplifun. Hjá Grikkjum snérist hann um „rétta“ andartakið, hið fullkomna andartak. Heimurinn andar inn og í kyrrðinni sem fylgir, áður en hann andar frá, getur allt breyst. Krónos er klukkur, áfangar, dagatöl, áætlun, vekjarar. Kairos er dýpt, óendanleiki, lotning, ástríða, kærleikur, helgi. „Við lifum í Krónos og við þráum Kairos. Þar liggur okkar togstreita“, segir rithöfundurinn Sara Ban Breathnach sem skrifaði mjög áhugaverða bók um að njóta þess sem lífið gefur.

Það er mismunandi hvernig aðstæður vekja þessa tilfinningu fyrir flæði innra með okkur. Þegar við leikum okkur, förum í langa gönguferð, lesum bók, eldum góðan mat, dönsum, spilum á hljóðfæri, tökum þátt í djúpum samræðum, þegar við hugleiðum. Krónos er allt það sem fær þig til að gleyma þér og heiminum, af því þú ert inni í honum af lífi og sál. 

Þegar við finnum kyrrð innra með okkur eigum við auðveldara með að sjá fegurð stundarinnar og njóta þess sem lífið býður hverju sinni. Að taka á móti af heilum hug. Þegar ég hugleiði þá fæ ég stund til að stíga út úr hringekjunni um stund, á meðvitaðan hátt. Ég get hlustað og melt og komið svo fersk aftur inn í daginn. Hugurinn verður viðráðanlegri og ánægjulegri félagi. Ekki lengur eins og stjórnlaus hestur sem rýkur í allar áttir með mig. Hann verður léttari og rúmar jákvæðari heimssýn og viðhorf. Og hefur meiri visku að færa mér.

Dagleg hugleiðsla gefur okkur færi á að hlaða batteríin, að finna friðsæld og koma heim til okkar sjálfra aftur og aftur. Í okkar háværa heimi er það bæði erfiðara en líka nauðsynlegra en nokkru sinni að eiga aðgang að djúpri alltumlykjandi þögn.


Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að hlusta á visku líkamans. 

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira