c

Pistlar:

13. desember 2023 kl. 10:38

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Gjafir myrkursins

Sól, sól! Komdu aftur sól! Þriggja ára dóttursonur minn sat í aftursætinu og fannst myrkrið vera allt of snemma á ferðinni. Og því var ekki hægt að neita. Það væri svo sannarlega vel þegið að fá lengri daga á þessum dimmasta tíma ársins. Svo ræddum við um það hvað myrkrið er líka mikilvægt og að nóttin færir okkur svefninn sem er svo sætur þegar við verðum þreytt.

Þessir stuttu dagar geta reynt á. Margir finna fyrir þreytu og skort á bjartsýni í skammdeginu. En myrkrið hefur líka sína kosti. Á þessum dimmasta tíma ársins færist það sem venjulega hvílir í undirvitundinni, nær yfirborðinu. Það er sagt að skilin á milli heima verði gegnsærri og að við getum betur nálgast það sem annars liggur í dvala í undirvitundinni. Á þessum árstíma höfum við eðlislæga tilhneigingu til að leita inn á við. Ef við hlustum á hana og látum ekki heiminn fyrir utan dáleiða okkur um of, þá getum við nýtt þennan tíma til að tengja við uppsprettuna innra með okkur og til að endurnærast. Við getum treyst því að ljósið kemur alltaf aftur. Þangað til getum við boðið ljósinu innra með okkur að lýsa okkur leiðina.

Í annríkinu sem ríkir í ytri heiminum, ekki síst þessa dagana, getur það gleymst að taka stund til að vera með okkur sjálfum. En sá tími skilar sér fljótt til baka. Við verðum einbeittari og eigum auðveldara með að hvíla í andartakinu sem er að líða. Hvað gerir þú til að næra þig?

Eftir áramótin verður í boði námskeiðið „Stærri en streitan“ hjá okkur í Andartaki, þar sem við ætlum að skoða hvernig við getum betur lifað með álagi og verið í góðu sambandi okkur sjálf.  

Guðrún Arnalds, jógakennari, hómópati og leiðbeinandi í Fókusing, aðferð til að husta a lifið innra með okkur

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira