Sprungurnar byrjuðu að birtast þegar ég var 18 ára. Alveg upp úr þurru. Ég áttaði mig ekki á því hvað hafði breyst, afhverju þetta var að gerast og bar það undir mömmu. Mamma horfði á mig með augnaráði fullu af stolti og móðurlegri ást og sagði: “Ástin mín, þú hefur erft fæturna hans pabba þíns” eins og ég hefði unnið í genahappdrættinu!
Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að ég hef frá 18 ára aldri verið með hæla eins og 100 ára gamalmenni. Það er til dæmis ekki til í dæminu að ég strúki fætinum á mér eftir fæti eiginmannsins með daðurlegum hætti. Onei. Það myndi skilja hann eftir með rispur og sár eins og hann hefði lent í hrammi björns. Ekkert sexí við það get ég sagt ykkur. Ég hef eytt hundruðum þúsunda í leit að lausn vandans, keypt öll töfrakrem sem finnast á markaðnum og þjalir og græjur til að reyna að slípa þetta upp í mannsæmandi hæla sem geta farið út á meðal fólks. Ekkert af þessum meintu töfralausnum virka, bara svo það sé á hreinu. Það eina sem virkar er að fara mjög reglulega í fótsnyrtingu og reyna að halda þessu við þess á milli. Með því móti er þetta næstum því boðlegt.
Ég er því tíður gestur á snyrtistofunum hér í nágrenninu enda kostar kúk og kanil að fá sér maní peddí og hælarnir kvarta minna en nokkru sinni fyrr. Að fara á stofurnar sem sérhæfa sig í þessu hér er eins og að stíga inn í annan heim. Raunar eins og að skreppa til Víetnam því stofurnar virðast allar mannaðar víetnömskum konum.
Ég á stundum svolítið bágt með mig þegar ég skelli mér. Í fyrsta lagi er erfitt að líða ekki eins og nýlenduherra þegar að maður er umkringdur hvítum konum í snyrtingu hjá víetnömskum konum. Sumir kúnnarnir fara með þetta alla leið sem þýðir að þær eru ekki bara að fá maní pedí heldur bæta við allskonar nuddi og plokki og guð má vita hvað. Eitt skipti sá ég 4 konur hamast á einum kúnna. Ein sá um fæturna, önnur um tærnar, sú þriðja var að nudda á henni axlirnar og sú fjórða hamaðist á yfirvaraskegginu hennar með einhverjum snærisspotta sem hún mundaði með einni hendi á einum enda og tennurnar á hinum endanum. Ég gæti ekki skáldað þetta upp þó ég svo gjarnan vildi. Til viðbótar við þetta bætast tungumálörðugleikar byrjandans. Sjáið til. Enska er ekki mitt móðurmál en ég tala hana alveg ljómandi vel eins og flestir Íslendingar. En þegar að ofan á bætast erlendir hreimar og af þeim er nóg í suðupottinum L.A. þá getur málið vandast. Ég er nefninlega ekki læs á hreimana og lendi því oft í vandræðum. Þegar þær garga æstar á mig “you want callus removal too, 5 dollars more” eða “you want longer massage, 5 dollars more” þá má ég hafa mig alla við að skilja um hvað ræðir.
Til viðbótar við það hef ég á tilfinningunni að þær séu alltaf að gera grín að mér eða öllu fremur hælunum sem ég erfði frá pabba. Allavegana gjóa þær yfirleitt augunum yfir axlirnar á konunni sem er að aðstoða mig og upphefst þá mikið samtal sem endar oftar en ekki á hláturskasti þeirra.
Ég hef því bætt við á verkefnalistann: Læra víetnömsku. Svo ætla ég að mæta á svæðið og útskýra fyrir þeim að ég get ekkert gert að því þó hælarnir á mér séu alltaf eins og ég sé nýkomin úr pílagrímagöngu án skóbúnaðar. Þetta snúist um erfðir og genamengi og allt það.