c

Pistlar:

6. apríl 2020 kl. 17:33

Hrefna Óskarsdóttir (hrefnaoskars.blog.is)

Ósambúðarhæfa kynslóðin

Því hefur verið fleygt fram í gamni – þó glöggt megi skynja beiskan og grámyglaðan undirtón – að tíðni skilnaða muni ná hámarki eftir Covid-19 ævintýri heimilanna. Ég er ein af þessum „heppnu“ sem þarf ekki að spá í þessu.

Heppnu - innan gæsalappa -  því ég gjóa oft með öfundaraugum á þá sem eru í samböndum.

Heppnu – án gæsalappa – því ég vil frekar vera ein heldur en að taka þátt í allri þessari gremju og fýlu og þögnum og öllum þessum ljótu athugasemdum sem ég sé svo oft fljúga á milli para.

Við leitum í sambönd af því að þau eiga að gera lífið betra. Þau eiga að láta okkur líða betur. Í það minnsta ættu sambönd að draga úr einmanaleika okkar en ekki auka á hann. Að auka lífsgæðin en ekki að draga úr þeim. Já, veistu, ég hef þá skoðun að sambönd ættu að einfalda lífið en ekki flækja það!

En við þarna sem erum í kringum fertugt virðumst vera kynslóðinn sem er ósambúðarhæf. Við erum kynslóðin sem leitar að tímabundnum hoppfélögum á Tinder af því að við nennum ekki einu sinni orðið að hafa fyrir því að fara á ball til að pikka upp eitthvað korter-í-þrjú dæmi.

Af því að það er frumþörf mannfólksins að tilheyra, vera elskuð og að elska, þá leitum við alltaf í einhverskonar sambönd. En af því að við erum orðin svo hrikalega slök í samskiptum og illa brennd þá viljum við þau samt ekki.

Við viljum nándina og innileikann, allt knúsið og hoppið og alla gleðina en við nennum ekki veseninu.

Og ég skil það vel því margt af því sem fólk er að upplifa er afskaplega raunverulegt og sársaukafullt vesen.

Það er fólk í kringum mig sem fær ekki að hitta börnin sín út af veseni við fyrrverandi maka.

Það er fólk í kringum mig sem þarf að velja á milli þess að hafa núverandi maka góðan eða að eiga í góðu sambandi við börn af fyrra sambandi.

það er fólk í kringum mig sem þarf að velja á milli þess að eiga í góðu sambandi við maka sinn eða fylgja draumunum sínum.

Það er fólk í kringum mig sem hefur verið sært svo djúpu hjartasári að það er aldrei nokkurn tímann að taka sénsinn á að hleypa nokkrum nógu nálægt sér aftur.

Kannski er ég barnalega einföld að halda að þetta þurfi ekki að vera svona. Að við þurfum ekki að vera í einhverjum haltu mér-slepptu mér leikjum eða láta eins og okkur sé alveg sama. Kannski er ég barnalega einföld að trúa enn á eitthvað happily-ever-after dæmi og láta ekki segjast þrátt fyrir að hafa verið brennd nokkrum sinnum á sömu bévítans hellunni.

Ég held nefnilega að rót vanda hinnar ósambúðarhæfu kynslóðar megi finna í þeirri löngun okkar að vilja hafa lífið vesenislaust en kannski umfram allt að lifa í þeirri barnslegu trú að það sé yfirhöfuð mögulegt.  Ég held að það hafi hreinlega gleymst að kenna kynslóðinni minni að takast á við vandamál og vesen svo við einfaldlega höfum náð að meistra vesenisforðum með stórglæstum hætti.  

Ég er sjálf með doktorsgráðu í að forðast vesen. Í gegnum tíðina þá hef ég flogið öfganna á milli; að vita ekki hvernig ég á að höndla tilfinningar þannig að ég  annað hvort lokað á fólk og hneykslast yfir enn einu dramakastinu eða dottið sjálf í tuð, óöryggi og að finnast ég þurfa að hafa alla góða í kringum mig. Við erum kynslóðin sem kann ekki að feta þennan margumtalaða gullna meðalveg.

En nú skal þessari gráðu hent í ruslið í eitt skipti fyrir öll. Ég er alltaf að sjá betur og betur hvernig það að forðast vesen hefur ekki hjálpað mér fyrir fimmeyring í neinum samböndum sem ég hef átt í hingað til. Gott ef það hefur bara ekki dregið mig lengra niður í skítinn og gert hlutina enn verri en áður.

Það sem ég hef líka séð er að öllum samböndum fylgir eitthvað vesen. Það skiptir ekki máli hvort það eru sambönd við maka eða mömmu eða systur eða börnin eða vini. Það fylgir öllum eitthvað vesen. Það virðist eitthvað tengjast því að fæðast sem manneskja.  

En veistu, vesenið snýst ekki um fólkið sjálft. Vesenið kemur eingöngu útfrá því að forðast eins og heitan eldinn að taka nauðsynleg vesenis-samtöl. Erfiðu samtölin. Leiðinlegu og óþægilegu samtölin. Að segja frá því sem skiptir mann máli. Hvar mörkin liggja. Hvað maður hræðist og hvað gerir mann óöruggann. Hvað særir, meiðir og móðgar. Hvað gleður og hvar viðkvæmir draumar liggja. Að taka nauðsynlegar umræður um peninga, börnin og fyrrverandi maka; um ósigra, mistök og vonbrigði lífsins. Þú veist. Venjuleg vesenis-samtöl.

Mig langar að segja þér sögu. Hetjusögu. Og ég er með leyfi til að segja hana, svo því sé haldið til haga. Fyrir þremur árum átti ég unglingakrútt sem var í kvíða og sjálfsskaða. Það var vesen. Veistu, það var bara drullu-djöfuls fokk vesen ef ég á að vera alveg heiðarleg. Ekki af því að hann var svona erfiður. Af því að ég þurfti að gera svo margt sem ég hafði aldrei gert áður. Ég þurfti að taka margar vesenis ákvarðanir og mörg vesenis samtöl. Ég þurfti að læra að hlusta á hans forsendum, ég þurfti að læra að standa með honum, ég þurfti að læra að setja mörk og ég þurfti að læra að tjá mig í allri þeirri mestu einlægni sem ég átti til, til að geta náð til hans. Þetta er það allra, allra erfiðasta verkefni sem ég hef nokkurn tíma tekist á við. En við komumst nokkuð heil í gegn – og lærðum á átakalega sársaukafullan hátt hversu skaðlegt það er að forðast vesen og erfið samtöl.

Þessi sami sonur segir svo oft við mig, segðu mér það bara, ég les ekki hugsanir! Svo nú ætla ég að taka hann til fyrirmyndar og segja mínum  nánustu hvað þau skipta mig miklu máli. Af því að enginn hefur lofað mér morgundeginum og lífið hefur svo sannarlega kennt mér að taka fólki ekki sem sjálfsögðum hlut.

Ég vona innilega að þú nennir smá veseni og gerir það sama fyrir þitt fólk â¤ï¸ 

Hrefna Óskarsdóttir

Hrefna Óskarsdóttir

Fædd á því gæðaári 1975. Iðjuþjálfi, dáleiðslutæknir og nemi í geðheilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri þessa dagana. Með óendanlegan áhuga á mannlegu eðli, sérstaklega því sem eykur vellíðan, hamingju og lífsgleði og því sem dregur úr hausarusli og tilfinningadrasli. Finnst fátt betra en að lesa, skrifa, hlusta á góða tónlist og eiga góða stund með fjölskyldu og vinum (en ekki endilega í þessari röð).

Meira