Það snýst allt svo mikið um að vera hamingjusamur alla daga í dag. Allstaðar les maður greinar um hvernig maður finnur hamingjuna og það er eins og hamingjan sé ástand sem maður á alltaf að vera í nú til dags. Það getur verið erfitt að vera hamingjusamur þegar maður á langveikt barn og lifir í tilfinningalegum rússibana alla daga. Auðvitað er nauðsynlegt að finna hamingju í lífinu sama hvernig aðstæður manns eru en það er óraunhæft að maður sé hamingjusamur alltaf. Þannig virkar lífið bara ekki. Ég tel mig vera nokkuð hamingjusama manneskju þrátt fyrir ýmislegt mótlæti í mínu lífi en ég á mína slæmu daga eins og aðrir.
Ég hef mikið spáð í þetta allt saman og er búin að fara í mikla sjálfsvinnu til að reyna að líða sem best og geta verið sterk fyrir fjölskylduna mína, reyna að vera ,,hamingjusöm" Það sem ég hef komist að er að það er í lagi að vera ekki alltaf hamingjusamur og meira að segja er í lagi að líða illa stundum, það getur enginn verið alltaf hamingjusamur held ég. Maður verður að leyfa sér að líða eins og manni líður, það er alls ekkert rangt við tilfinningarnar sem maður finnur fyrir og það er ömurlegt ef fólk upplifir það. Að maður sé einhvern veginn ekki að reyna nógu mikið ef maður er ekki bara alltaf hamingjusamur. Maður þarf að leyfa tilfinningunum að koma þó erfiðar séu og vinna sig í gegnum þær. Það er allavega mikið af erfiðum tilfinningum sem fylgja því að eiga langveikt barn og maður verður einfaldlega að horfast í augu við þær því ef maður ætlar að fara í gegnum þetta á hnefanum og láta sem allt sé í lagi þá mun fara illa fyrir manni held ég.
Auðvitað vinn ég að því að vera hamingjusöm og njóta lífsins eins og hægt er með langveikt barn og almennt gengur það ágætlega. Ég ætla samt ekki að þykjast út á við og láta sem ég sé alltaf hamingjusöm og þetta sé allt svo auðvelt og að ég sé bara svo sterk því það væri helber lygi. Ég á oft erfitt, er óþolinmóð, pirruð, grátgjörn og viðkvæm. Mér finnst ég oft alveg ömurleg og ætti bara að hætta allri þessari vitundarvakningu og öllu þessu sem ég er að reyna að gera, ég sé ömurleg mamma þegar ég á erfiðan dag og fleira í þessum dúr. Ég er víst bara mannleg og breysk en ég reyni allavega að hugga mig við það að ég er að reyna mitt besta og það verður að duga. Sem betur fer líður mér ekki oft svona en það gerist og þegar það gerist þá leyfi ég mér að fara í gegnum þessar tilfinningar og líða illa því það má. Ég passa mig hinsvegar að festast ekki í þeirri líðan of lengi. Ég hef sem betur fer með góðri hjálp fundið verkfæri sem hjálpa mér og er því fljótari núorðið að vinna mig út úr þessum tilfinningum. Þetta finnst mér vera algert lykilatriði í þessu ferli til að hjálpa manni á þessum erfiðu dögum þegar tilfinningarnar bera mann ofurliði og að fá hjálp ef maður þarf.
Maður má ekki gleyma að lífið er allskonar og það er í lagi að líða allskonar. Ef við værum aldrei leið eða liði aldrei illa myndum við ekki vita hvenær við erum glöð né kunna að vera þakklát þegar gleðin og hamingjan koma til okkar. Ef það er eitthvað sem ég hef lært á þessu ferðalagi þá er það að að hamingjan og gleðin eru alls ekki sjálfgefin í lífinu og því kann ég enn betur að meta það þegar mér líður vel og er svo innilega þakklát fyrir það. Ég ætla því að leyfa mér að líða allskonar, leyfa sorginni að koma í heimsókn ef hún bankar á dyr en líka að vera hamingjusöm eins oft og ég get. Einhvers staðar las ég að sorg og gleði væru systur og það er öruggt að þær kenna okkur báðar ýmislegt um lífið og tilveruna. Leyfum okkur því bara að vera leið og glöð og allskonar því þannig er lífið og það er í lagi.
Hvernig sem mér kann að líða
þá reyni mig á að minna
Hamingjan handan við hornið mun bíða
Sorginni um síðir mun linna
Ást og kærleikur til ykkar