c

Pistlar:

10. júní 2021 kl. 10:28

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Takk fyrir að velja mig fyrir mömmu

Að eiga langveikt barn er erfitt en líka afar lærdómsríkt og á hverjum degi læri ég eitthvað. Það er sárt en veitir manni einnig á góðan hátt algerlega nýja sýn á lífið sem er ótrúlega dýrmæt gjöf. Ægir er líklega minn helsti kennari í lífinu og vegna hans hef ég gengið í gegnum mínar erfiðustu stundir en einnig þær stórkostlegustu þar sem ég hef uppgötvað minn innri styrk og hvað lífið er í raun yndislegt. Börn sem þurfa að kljást við erfið veikindi og fatlanir eru gjarnan mjög þroskuð og ég held að þeim sé gefið eitthvað alveg sérstakt sem við hin getum lært svo mikið af. Því vil ég tileinka Ægi hugleiðinguna mína í dag og öllum börnum sem þjást af einhverjum veikindum eða fötlunum en finna samt alltaf brosið sitt og eru endalaust jákvæð sama hvað. 

Vegna þín

Vegna þín hef ég lært auðmýkt

Vegna þín er ég að verða betrí í þolinmæði

Vegna þín hef ég öðlast þrautseigju 

Vegna þín hef ég lært að njóta lífsins og litlu hlutanna betur

Vena þín hef ég séð að það er alltaf eitthvað til að gleðjast yfir þó erfiðleikar steðji að

Vegna þín hef ég lært þakklæti

Vegna þín veit ég hvað það er sem skiptir máli í lífinu

Vegna þín hef ég öðlast skilning

Vegna þín fann ég drifkraftinn minn

Vegna þín hef ég lært að taka engu sem sjálfsögðum hlut

Vegna þín er ég hugrökk

Vegna þín áttaði ég mig á tilganginum mínum

Vegna þín vil ég gera enn betur 

Vegna þín hef ég fundið ástríðuna mína

Vegna þín kviknaði í mér baráttuneistinn

Vegna þín lifi ég meira í núinu

Vegna þín veit ég að það er alltaf ljós í myrkrinu

Vegna þín sé ég allt skýrar

Vegna þín er ég betri mamma og betri manneskja

Vegna þín veit ég að ég get allt sem ég ætla mér

Vegna þín hef ég séð hvers ég er megnug

vegna þín lifi ég til fulls 

vegna þín mun ég aldrei gefast upp

Vegna þín er lífið betra

Takk fyrir velja mig fyrir mömmu Ægir minn,takk fyrir að hjálpa mér að læra að verða betri og þroskaðari manneskja. Ég átti greinilega margt eftir ólært fyrst þú lagðir allt þetta á þig sem þú þarft að ganga í gegnum og koma til mín og kenna mér alla þessa hluti elsku drengurinn minn. 

Ást og kærleikur til ykkar allra

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira