Að breyta lífsstílnum er langt frá því að vera auðvelt, það koma holur sem maður dettur ofan í en þegar það gerist verður maður bara að koma sér upp úr þeim aftur. Síðustu dagar hafa verið svolítið þannig og þá sérstaklega helgarnar. Það krefst skipulags að breyta lífstílnum og á virkum dögum gengur það fínt enda er rútína þá. Helgarnar hins vegar geta sett allt úr skorðum, þá er ekki vinna eða tími með stelpunum í ræktinni. Það er því nauðsynlegt að skipuleggja helgarnar vel varðandi mat og hreyfingu svo að allir dagar vikunnar séu góðir.
En þetta er samt ekki spretthlaup heldur langhlaup og tekur allt tíma. Ég er ekki að þessu til þess að losna við fullt af kílóum á stuttum tíma, alls ekki. Heldur til þess að læra á nýjar venjur og tileinka mér lífsstíl sem mun gefa mér meiri orku og betri líðan.
Við fengum aftur að hitta Anítu Sig á miðvikudagskvöldið, það var alveg dásamlegt og kom hún alveg á réttum tíma. Hún er svo fær í að efla mann og peppa mann upp í að halda áfram á þessum vegi sem liggur til betri lífsstíls.
Annars er komin helgi svo það er spurning um að fara skipuleggja mat og hreyfingu svo að holurnar verði ekki á vegi mínum um helgina.