c

Pistlar:

18. janúar 2016 kl. 17:00

Kristín Linda (kristinlinda.blog.is)

Settu gleðistundir á dagskrá

Einmitt núna í janúar þegar allt árið er framundan vil ég hvetja þig til að auka markvisst og skipulega ánægju, gleði, sælu og hamingju í þínu eigin lífi. Vittu til, ef þú gerir það af skynsemi og góðmennsku mun það ekki aðeins bæta þitt eigið líf heldur líka þeirra sem þú umgengst og verða þannig til góðs fyrir þig, fólkið þitt, vini, kunningja og samfélagið allt.

Já, gleði þín, jákvæðni, sæla og hamingja skiptir máli bæði fyrir þig og alla hina.

Ánægjulegar athafnir eru alveg NAUÐSYNLEGAR fyrir geðheilsuna og til að létta og bæta lífið. Það er snjallt að gera SKRÁ fyrir athafnir og upplifanir sem þér finnast gefandi og skemmtilegar taka svo frá tíma fyrir þær og virkilega setja þær á dagskrá! Það færir okkur hamingju og betri andlega, líkamlega og félagslega heilsu að eiga smærri og stærri ánægjulegar gefandi stundir á hverjum degi, í hverri viku, hverjum mánuði og á hverju ári, alveg satt! Þú veist ekki hve mörg tækifæri þú hefur, settu ánægjulegar og gefandi upplifanir og athafnir á dagskrána þína NÚNA fyrir árið 2016!

Þetta er alveg dauðans alvara, margar rannsóknir hafa sýnt að ánægjulegar og gefandi athafnir eru virkilega mikilvægar og að þær hafa forvarnargildi gegn leiða, depurð, framtaksleysi, vonleysi og þunglyndiseinkennum. Ánægjulegar og gefandi athafnir og upplifanir byggja þig upp og gefa þér orku, framtak, gleði, bjartsýni, jákvæðni og sælu í sál. Slítandi og erfiðar athafnir taka af þér toll og ef þær einar fylla dagskrána þína þreyta þær þig og draga niður. Það er frábært að ákveða í upphafi árs að hlúa að líkamlegri heilsu með heilsusamlegri hreyfingu, útivist og hollri næringu en við þurfum líka, og ekki síður, að rækta og hlúa að GEÐHEILSUNNI.

Þess vegna hvet ég þig til að gera, núna í JANÚAR, lista yfir ákjósanleg viðfangsefni, athafnir, upplifanir sem þú veist að veita þér ánægju, gleði og hlýju í sál. Best er að á listanum séu bæði atriði sem þú getur gert heima og að heiman, einn og með öðrum, sem sagt ákveðin fjölbreytni. Veldu það sem þú veist að lyftir lund þinni og miðaðu við sjálfan þig eins og þú ert núna einmitt í dag á því æviskeiði sem þú ert á núna. Svo hvet ég þig til að sýna þér og þínum þá virðingu að setja þessar stundir á dagskrá því að það mun bæta líf þitt og þeirra sem þú elskar mest!

Kristín Linda

Kristín Linda

Kristín Linda er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á eigin sálfræðistofu Huglind á Höfðabakka 9 í Reykjavík - www.huglind.is. Hún er einnig ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar sem er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Kristínu Lindu finnst heillandi að hjálpa fólki að bæta líf sitt, líðan og heilsu og nýtir til þess sálfræðilega þekkingu sína, reynslu og jákvæða lífssýn.

Meira