c

Pistlar:

2. febrúar 2016 kl. 8:05

Kristín Linda (kristinlinda.blog.is)

Breyttu þér

Það er spennandi og skemmtilegt að hafa þá lífssýn að vegferð okkar hér á þessari jörð sé til þess ætluð að við BÆTUM OKKUR ævina á enda. Að tilgangur lífsgöngunnar sé að þroskast og eflast og verða sífellt betri manneskja. Þetta snýst ekki um að við ætlum að breyta okkur fyrir aðra heldur að við SJÁLF KJÓSUM að þróast og breytast til betri vegar sem sjálfkrafa verður svo til góðs fyrir aðra. Sérstaklega þá sem við elskum mest, okkar nánasta fólk, en líka þá sem ganga með okkur gegnum hversdaginn.

Hvernig vilt þú breyta þér núna fram að páskum?

Dettur þér fyrst í hug að þú viljir verða í betra formi eða með flottara hár? Þannig hugmyndir um breytingar eru uppi á pallborði umræðunnar í samfélaginu öllum stundum. Núna ætlum við ekki að pæla í þeim. Við ætlum að skoða okkur sem einstaklinga, persónuleika á leiksviði lífsins. Hvernig persóna ert þú? Hvernig líður þér? Hvernig áhrif hefur þú á líðan annarra og í samfélaginu?

Langar þig að halda áfram að vera nákvæmlega eins og þú ert eða má hugsanlega breyta einhverju til betri vegar?

Það er virkilega skemmtileg og heillandi vegferð að breytast og batna. Á hverju viltu byrja? Er eitthvað varðandi þína eigin HUGSUN, HEGÐUN, VIÐHORF og LÍFSSTÍL sem mætti bæta? Eitthvað sem birtist í fasi þínu, framkomu, orðum eða verkum og hefur áhrif á þig, líðan þína, líf og lífsgæði, annað fólk, umhverfið og tilveruna almennt.

Hér er ALLT undir.

Hvernig við njótum TÍMANS og nýtum hann einmitt í dag. Hvernig við nýtum okkar eigin ATHYGLI, hvert beinum við henni, hvað grípur augað, hugann, nær til okkar tilfinningalega? Hvernig beitum við ORKUNNI okkar, hvað veljum við að framkvæma og hverju er sleppt. Hvaða STYRKLEIKA nýtum við og hverja ekki? Hvernig viðhorf temjum við okkur á hinum fjölbreyttu sviðum lífsins, hvernig siði, VENJUR og hegðun? Hvernig FORGANGSRÖÐUM við, hvað setjum við fremst á gátlistann og hverju er sífellt slegið á frest? Hvernig fas temjum við okkur, VIÐMÓT og framkomu. Hvort virðum við og ræktum EIGINLEIKA eins og skipulag og marksækni eða flæði, núvitund, innsæi og listfengi? Hvernig veljum við að KOMA FRAM við okkur sjálf og aðra? Hvernig talar þú til þín, rífur þú þig niður eða hvetur og hlúir að þér? Ætlar þú þér af eða gengur sífellt fram af þér? Hvernig komum við fram við þá sem við elskum mest, ástvinina sem næst standa? Hvernig veljum við að vera á vinnustað, í hópi og almennt á velli samfélagsins? Erum við hvetjandi, bjartur og hlýr sólargeisli eða hryssingslegt haglél, leiðinda rok eða villandi þoka? Einkennist ORÐRÆÐA okkar af sleggju dómum svart hvíts hugsunarháttar, þröngri rörsýn eða niðurlægjandi rykslætti? Erum við föst í ákveðnu fari, upptekin af að tala og hugsa um sömu málefnin og áhugasviðin út í eitt eða einkennist hugsun okkar og framkoma af fjölbreytileika og víðsýni? Styður hegðun okkar og hugsun við góða HEILSU sálræna, félagslega og líkamlega?

Já, það er að mörgu að hyggja en við getum öll nýtt vikurnar fram að páskum til að bæta eitthvað í eigin fari. Hverju vilt þú breyta? Það er snjallt að taka viku í að pæla í þessu og skrá niður þau atriði sem þú velur að vinna með, til dæmis þrjú til níu atriði. Þá er stefnan tekin. Svo er galdurinn að virða hana á hverjum degi og vertu viss, með vikunum mun árangur nást, þú breytist og batnar.

Þegar þú bætir sjálfan þig verður þú og lífið allt meira heillandi, byrjaðu strax!

Kristín Linda

Kristín Linda

Kristín Linda er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á eigin sálfræðistofu Huglind á Höfðabakka 9 í Reykjavík - www.huglind.is. Hún er einnig ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar sem er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Kristínu Lindu finnst heillandi að hjálpa fólki að bæta líf sitt, líðan og heilsu og nýtir til þess sálfræðilega þekkingu sína, reynslu og jákvæða lífssýn.

Meira