c

Pistlar:

16. september 2016 kl. 8:38

K Svava (ksvava.blog.is)

Fyrsta hindrunin yfirstígin...

Já, það var ekki auðveldur morgun í morgun en fyrsta hindrunin eftir þessa tvo daga í ræktinni með Lilju í Lífstílsbreytingunni hjá Smartland & Sporthúsinu, var að komast fram úr í morgun.  Þetta var alveg leikfimi útaf fyrir sig!  Fyrst reyndi maður að setjast upp, það var alveg gífurlega erfitt og nánast ómögulegt, þá reyndi maður að hossa sér aðeins, virkaði álíka vel og að setjast upp.. þá var bara eitt í stöðunni, að rúlla sér fram úr, kettirnir skildu lítið í þessum brösugangi í mér en þegar ég stóð upp, þá var það bara svakalegur sigur og ég brosti útaf eyrunum. 

Hugsaði með mér, þetta verður góður dagur, mér líður virkilega vel, svaf vel, komst fram úr og já, verður góður dagur.  Svo kom næsta hindrun.. hver kannast ekki við að vera með harðsperrur í lærunum og þurfa svo að setjast á klósettið.  Ég var mikið að spá í að vekja unglinginn og biðja hana um að láta mig síga varlega niður en þar sem að hún sefur á efri hæðinni og það eru stigar þangað upp, þá ákvað ég að takast á við þetta verkefni alveg sjálf, með ýmsum leiðum og aðferðum, að lokum hafðist þetta.  Brosti aðeins yfir þessum sigri, ekki alveg eins mikið og hinum enda aðeins þreyttari eftir tvö svona átök en maður má svo sem alveg eiga von á svona áskorunum þegar maður er að nota vöðva sem hafa ekki sést í fleiri mánuði.

Annars ætlaði ég bara að vera jákvæð og taka þessum degi fagnandi eða svo hélt ég en svo mundi ég skyndilega eftir því að ég átti eftir að klæða mig í buxurnar og SOKKANA!!!

Jæja elskurnar, eigið góðan dag.

K Svava

K Svava

Létt geggjuð háskólamær í fullri vinnu sem ætlar að taka nýjan lífstíl í nefið! Meira