c

Pistlar:

30. ágúst 2019 kl. 4:02

Lára Guðrún Sigurðardóttir (laragsigurdardottir.blog.is)

Hin sanna fegurð

Hefurðu einhvern tíma fengið athugasemd um útlit þitt? Sjálf hef ég í gegnum tíðina fengið meira en ég kæri mig um. Nefið ku vera stórt, ennið hátt og handleggir stuttir eins og á mörgæs. Verandi með miðlungs sjálfstraust ferðaðist ég lengi með þá tilhugsun að láta minnka á mér nefið - aðeins erfiðara að eiga við handleggina og ennið! Ég prófaði þó að klippa á mig topp en hann varð svo grisjóttur og langur á himinháu enninu að það var eins og ég hefði reynt að fela ennið bakvið léleg gegnsæ strimlagluggatjöld. 

Það er víst ekkert nýtt af nálinni að fólk sé að skipta sér af útliti annarra og gefa illa ígrundaðar athugasemdir. Ég hef samt smá áhyggjur af þróuninni. Starfs míns vegna fylgist ég talsvert með fegrunariðnaðinum og verð að segja að ég set stórt spurningarmerki við þá stefnu sem hann er að taka. Risar innan fegrunariðnaðarins keppast við að selja okkur eina uppskrift að fegurð. Andlitið þarf að vera í ákveðnum hlutföllum. Ef þú ert með litla höku þá er sett fylliefni til að hakan myndi ákveðna horngráðu við nefið. Ef kjálkalínan er ekki nógu áberandi þá er hún dregin út og skerpt. Ef nefið er of stórt þá er það minnkað í ákjósanlega stærð og ef það er of lítið þá eru sett fylliefni til að stækka það. Ef lengdin frá nefrót að efri vör er of mikil þá er hún stytt. Ef kinnbeinin eru ekki nógu stór þá er bætt í þau og ef það er of mikil barnafita í kinnunum þá er hún fjarlægð. Útkoman: við verðum öll eins! 

Þetta er bara andlitið. Ég ætla ekki að fara út í líkamann!

Fegrunariðnaðurinn er búinn að færa fegurðarstaðlana langt út fyrir hin svokölluðu fullkomnu hlutföll líkamans sem Leonardo DaVinci teiknaði kringum 1490 sem Vitruvian Man eftir skýringum Rómverska arkitektsins Vitruvius. 

Markhópur fegrunariðnaðarins eru gjarnan stúlkur sem eiga eftir að taka út fullan líkamlegan þroska. Og framheilinn - sem er framkvæmdastjóri skynsamlegra ákvarðana - nær heldur ekki fullum þroska fyrr en við nálgumst þrítugt. Þannig að þegar maður er ungur þá er maður líklegri til að fylgja skyndihvötum sem verða til í frumstæðari svæðum heilans. 

En hver er hin sanna fegurð?

Þó lengi hafi verið vitað að við löðumst ósjálfrátt að andlitum sem eru samhverf þá kemst maður að því þegar maður kynnist manneskju að raunveruleg fegurð snýst um eitthvað allt annað. Fyrir mér er sönn fegurð eitthvað allt annað en andlitshlutföll. Þú getur horft á manneskju sem er með fullkomin andlitshlutföll en gefur ekkert af sér og er sjálfhverf. Þú getur einnig horft á manneskju sem er með stórt nef og litla höku sem er gullfalleg og geislandi - því hún fær þig til að brosa og lífgar upp á tilveruna. 

Fegurð er allskonar. 

Ég sé til dæmis fegurð þegar manneskja leggur sig fram um að vera til staðar fyrir aðra manneskju. Ég sé fegurð þegar hjón eru búin elska hvort annað meirihluta ævinnar. Ég sé fegurð þegar einstaklingur ber erfiða lífsreynslu sína með reisn. Ég sé fegurð þegar vinkonur hittast eftir fjarveru til að heyra hvernig hin hefur það. Ég sé fegurð þegar vinir hittast til að spila saman eða horfa á leik. Ég sé fegurð þegar maðurinn minn eða synir gefa mér herðanudd þegar ég er að bugast af vöðvabólgu. Ég sé fegurð þegar mamma eldar handa mér uppáhaldsmatinn. Ég sé fegurð þegar ég sé fólk syrgja náinn ættingja eða vin. Ég sé fegurð þegar fólk fylgir eigin sannfæringu og stendur fyrir því sem það trúir. Ég sé fegurð þegar nýtt líf kviknar. Ég sé fegurð þegar ég verð vitni að hamingju annarra. Ég sé fegurð þegar fólk býr sér til fallegt umhverfi og nýtur lífsins. Ég sé fegurð þegar manneskja er umburðarlynd gagnvart annarri manneskju. 

Þetta er hin sanna fegurð fyrir mér. 

Sönn fegurð getur verið eitthvað allt annað fyrir þér. 

Nú er ég alls ekki á móti fegrunarmeðferðum - ekki misskilja mig - og finnst sjálfsagt að hugsa vel um húðina, líkt og við gætum þess að hreyfa okkur, fá góðan svefn og borða helena-lopes-e3OUQGT9bWU-unsplashnæringarríkan mat. En það er eitt að gangast undir meðferðir til að viðhalda hraustlegu útliti eða fríska upp á sig - og annað að breyta útlitinu til að falla undir ákveðna staðalímynd fegrunarriðnaðarins, sem ég er ekki viss hvaðan kemur. Með þessum hugleiðingum er ég heldur ekki að áfellast einn né neinn fyrir að vilja breyta útliti sínu því það er að sjálfsögðu val hvers og eins - hvorki mitt né annarra að dæma. Það er aftur á móti mikilvægt að gera sér grein fyrir þessum staðli sem fegrunariðnaðurinn er að koma á fót. Því þegar við sjáum þessa tilbúnu staðalímynd er hætt við því að við hugsum með okkur - ég fell ekki undir þennan staðal, ég þarf að breyta mér!

Móðir mín elskuleg þreyttist aldrei á að benda á eitthvað jákvætt þegar athugsemdirnar um útlitið skutu upp kollinum - hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það! Það dugði fyrir mér. Stundum þarf bara að heyra orð einnar mannsekju um að þú sért í lagi eins og þú komst í heiminn. 

Er fegurð ekki einmitt eitthvað sem hittir í hjartastað og vekur upp vellíðunartilfinningu? Í dag þykist ég viss um að minna nef og lægra enni hefði ekki haft slík áhrif. 

Lára G. Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Lára Guðrún Sigurðardóttir

Læknir og doktor í lýðheilsuvísindum með áhuga á líffræði líkama og huga. Meðhöfundur Húðbókarinnar (2022) og meðeigandi húðmeðferðarstöðvarinnar HÚÐIN skin clinic.

Meira