c

Pistlar:

13. febrúar 2025 kl. 19:40

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Að forðast lífið

Stundum held ég að öryggisþörf okkar sé þess valdandi að við missum af öllu því sem gæti gefið okkur ævintýri lífsins og gleðina sem því fylgir.

Í lífinu er hreinlega ekkert til sem heitir öryggi því að allt er hverfult í lífi hér á jörðu. Við búum við allskonar aðstæður á mismunandi tímum sögunnar og við hér á Íslandi búum stöðuglega við ógnir eins og þær sem Grindvíkingar gengu í gegnum fyrir rúmu ári síðan. Ég man daginn þegar gosið hófst í Eyjum og allir þurftu að yfirgefa heimili sín og Eyjuna sjálfa með lítið annað en fötin sem þeir stóðu í og kannski einstaka myndaalbúm sem þeir gripu með sér. 

Í Grindavík átti enginn von á því að það skjálftarnir sem þeir upplifðu hefðu grafið bæinn í sundur undir því sem sést á yfirborðinu og ekki datt þeim líklega í hug að þeir þyrftu að taka sig upp og þvælast hingað og þangað eða finna sér nýjan samastað til framtíðar, samfélagið og allt sem því fylgir farið veg allrar veraldar. 

Snjóflóð og aurskriður hafa svo sannarlega sett mark sitt á okkar þjóðfélag og breytt þeim talsvert og mínar æskuslóðir fóru hreinlega veg allrar veraldar í aurskriðu á Seyðisfirði fyrir stuttu síðan. Húsið sem ég bjó í, vinnustaðurinn hans pabba og fjárhúsin þar sem ég varð vitni að sauðburði þegar ég var lítil stúlka. Hús fjárbóndans sem vakti mig upp til að sjá lamb fæðast fór einnig í skriðunni og litla búðin þar sem ég elskaði að skoða þegar ég var yngri fór einnig.

Fjármálahrunið er nú ekki langt frá okkur í tíma og rúmi og hrun af því tagi eru þekkt í gegnum söguna. Aflabrestur og atvinnuleysið því tengt er heldur ekki svo fjarlægt okkur og ófáir þurft að flytja sig frá bæjum sínum vegna þess.

Covid breytti heimi okkar nú heldur betur og jafnvel Eyjafjallajökull með sínu eldgosi lokaði veröldinni um tíma. 

Vinkona mín ein sem hugsaði mikið um fjárhagslegt öryggi sitt og flestar hennar ákvarðanir teknar til tillits þess að hún ætlaði að hafa það gott á efri árum sínum dó áður en hún gat notið þess að sjá árangur öryggissöfnunar sinnar,og svona gæti ég líklega haldið áfram en ég held að þið áttið ykkur á því sem ég er að reyna að koma á framfæri. 

Við ættum að gefa okkur þá gjöf að læra að dansa í óörygginu í þessu stutta og brothætta lífi okkar og aðlaga okkur að því að lífið geti breyst á einu augnabliki því að það einfaldlega þannig að það eina sem er öruggt í þessu lífi er að það er ekki til neitt sem heitir öryggi og það eina sem við eigum víst er að við deyjum!

Draumar þínar rætast með þeim skrefum sem þú tekur í núinu og núið er allt sem við höfum þegar allt kemur til alls, svo nýtum það til hins ýtrasta elskurnar.

Ekki missa af lífinu sem ólgar og flæðir endalaust, náðu í kjarkinn þinn, gleðstu,njóttu, leiktu þér og leyfðu þér að flæða með lífinu mitt í öllu óörygginu - því það gefur lífi þínu líf.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir 

Lífsmarkþjálfi og Samskiptaráðgjafi 

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira