Í Frakklandi hefur Hermés þótt með því fínasta sem hægt er að eiga. Það þykir álíka fínt og Svenskt Tenn þykir í Svíþjóð enda ekki ósvipað að labba inn í þessar tvær verslanir. Það hefur lengi verið vitað að það toppar ekkert alvöru Birkin-tösku og svo gerði drottningin Grace Kelly líka mikið fyrir Hermés enda heitir ein söluhæsta taska fyrirtækisins Kelly, í höfuðið á henni. Þess má geta að Birkin-taskan heitir eftir hinni kynþokkafullu Jane Birkin og kom á markað í kringum 1980.
Á 17 rue de Sévres í Saint German-hverfinu í París er svo Hermés-flaggskipið sjálft til húsa. Verslunin er risastór og er hægt að fá allt frá slæðum upp í hnakka á hestinn í versluninni. Ég þakkaði bara pent fyrir að vera ekki í hrossunum því þá ég hefði ég líklega labbað út með hnakk eða eitthvað... (alveg í ruglinu).
Það gefur augaleið að eðlileg fjárráð kalla seint á alklæðnað frá Hermés og heldur ekki hnakk á hestinn sinn, en það er ósköp gaman að heimsækja verslanir eins og Hermés, klappa öllu fínerínu og strjúka þótt maður fari tómhentur heim. Svo er líka mikil upplifun að fylgjast með fólki í svona fínum búðum því fólk verður einhvern veginn vandaðra og sýnir fágaðri hegðun þegar það er innan um svona mikið góss. Fólk verður beint í baki og sýnir á sér sparihliðina. Svo má ekki gleyma því að það notar enginn útiröddina inni í Hermés-verslun – það er óskrifuð regla.
Fólk mætti svona almennt í lífinu hafa þá hugsun í forgrunni – að vera vandað. Þá er ég ekki bara að tala um að klæða sig huggulega heldur að hafa fas sitt og samtal við annað fólk í stíl við fötin. Sjoppuleg hegðun getur brotist fram á mismunandi hátt. Það hefur ekkert með fatastíl eða fjárráð að gera. Hjá sumum er bara alltaf svolítið stutt í sjoppuna þrátt fyrir fínan fatasmekk og þykkt veski.
Á dögunum var ég stödd á veitingastað með fallegu litlu syni mína þegar ég heyrði tvenn hjón á næsta borði býsnast yfir því að sturtan hefði nú ekki virkað á einhverju agalega fínu skíðahóteli í útlöndum sem þau hefðu verið gestir á. Ég hugsaði með mér hvort það væri ekkert að frétta hjá þessu fólki fyrst það eyddi sínum dýrmæta tíma í að tala um þetta á veitingahúsi við vini sína. En svo skánaði samtalið bara ekki neitt og fólkið fór að tala um afmælisveislu sem það var gestir í nýlega. Það var ekki ætlunin að sitja á hleri en þar sem ég sat á næsta borði komst ég ekki hjá því að heyra hvert orð. Allt í einu áttaði ég mig á því að afmælisboðið sem verið var að ræða var hjá stelpu sem ég hef þekkt síðan ég var barn. Lýsingin á afmælisbarninu var ekki upp á marga fiska og var ég rasandi bit yfir því að afmælisbarnið skyldi bjóða svona fólki í afmælið sitt og flokka það sem vini sína.
Ef fólkið á næsta borði hefði haft vit á því að tala um eitthvað annað hefði ég ósjálfrátt sett það í Hermés-flokkinn, en því miður sendi samtalið það beint í sjoppuflokkinn... Vondu fréttirnir eru þær að þetta á pottþétt ekki bara við um þessi tvenn hjón – heimurinn er fullur af svona fólki.