Þrátt fyrir það þá breytist stemningin alltaf aðeins þegar hausta tekur. Þessi árstími kallar á nýjar hugmyndir og örlítið nýtt tvist þótt við séum alls ekki að fara að taka neina U-beygju með klæðaburð eða stíl.
Það sem er einna mest áberandi hjá stóru tískuhúsunum eru þunnir munstraðir silkikjólar með áberandi mittislínu. Silkikjólarnir eru gjarnan með blómamunstri eða slöngumunstri. Til þess að fara alla leið með þetta er smart að vera með belti í mittið og svo að dressið sé ennþá meira sjarmerandi er farið í há leðurstígvél við. Þótt silkikjólarnir séu klæðskerasniðnir fyrir alla hefðarketti og keyri á sama tíma upp allan elegans þá má að sjálfsögðu fara í samskonar kjóla úr öðrum efnum. Munstruð teygjuefni eru einnig að stimpla sig rækilega inn sem er kannski ekkert skrýtið. Það er varla hægt að finna neitt þægilegra til að klæðast. Svolítið eins og að vera í jogging daginn út og inn.
Þrátt fyrir að ökklaskór hafi einhvern veginn verið á toppi vinsældalistans síðustu misseri hef ég aldrei misst trúna á há leðurstígvél. Ég held alltaf með þeim sama hvað á dynur. En það er nú bara vegna þess að svona smáhestar eins og undirrituð ræður ekkert við ökklaskó á meðan há leðurstígvél lengja fótlegginn og gera hann ennþá lögulegri. Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að ég sé eins og Cindy Crawford þegar ég er komin í stígvélin...en samt...
Nú og svo eru það stóru kápurnar sem verða svo vinsælar í haust. Smartast þykir að fara ekki alveg í þær heldur láta þær hanga á herðablöðunum nú eða fara í þær og vefja þeim utan um sig og setja belti í mittið. Það að hafa kápuna á herðablöðunum lítur ógurlega vel út þegar Victoria Becham gerir þetta á meðan hún skoppar á milli „næturfunda“ um stræti Lundúnaborgar. Þetta er ekki alveg eins góð hugmynd fyrir mömmurnar sem druslast út á morgana með töskuna í annarri hendi, íþróttatöskuna í hinni og tölvuna og morgunmatinn í fanginu. Það að vefja kápunni utan um sig og setja á sig belti er líklega heppilegra við íslenskar aðstæður... Bara svo kápan fjúki ekki upp á Akranes meðan þú gengur út í daginn drekkhlaðin af bráðnauðsynlegum óþarfa...