c

Pistlar:

30. ágúst 2015 kl. 22:41

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Óhreyfður smáhestur á inniskóm

grænmetiSmáhesturinn er búinn að komast að því að það að vera tábrotinn er afar fín leið til þess að einfalda lífið en fá á sama tíma mjög mikið fyrir peninginn. Tábrot er augljóslega ákveðin kyrrsetning og fólk virðist átta sig á því að tábrotinn smáhestur getur bara ekki gert það sama og hinir. Það að vera tábrotinn er svolítið eins og að vera í endalausum frímínútum.

Það nennir til dæmis enginn að vera með þessum tábrotna í fússballliði í vinnustaðahópeflinu, hann er ekki beðinn um að passa smábörn eða hjálpa til við flutninga. Partívaktin er líka alveg hætt að hringja og biðja hann um að koma með sér út að dansa. Það breytir því hinsvegar ekki að smáhesturinn hefur alls ekki fundið til einmanaleika í þessum öldugangi. Á síðkvöldum hefur hann horft á alla Sex and the city þættina frá upphafi – þökk sé SkjáEinum, lesið hrottalegar glæpasögur og skrifað langar færslur í þakklætisdagbókina. Þetta hefði nefnilega getað verið svo miklu verra.

Það er kannski skrýtið að segja það en smáhesturinn finnur á sama tíma fyrir miklu frelsi. Smáhross í þessu ástandi er ekki beðið um að gera neitt sem það nennir ekki að gera. Ef sá grunur myndi læðast að smáhestinum að hann ætti að vera að gera eitthvað sem hann nennir ekki að gera þá er hann fljótur að ýta hugsununum út af hugsanabrautinni. Til dæmis þegar smáhesturinn horfir út í blómabeð og sér mittisháan arfann gægjast upp úr beðunum hugsar hann með sér að hann sé ekki í líkamlegu ástandi til að takast á við þetta núna. Arfinn gæti líka mögulega slitnað upp sjálfur í næstu haustlægð – hver veit.

Smáhesturinn er samt langt frá því að bugast því hann er búinn að komast að því að inni á hans eigin heimili er sko aldeilis hægt að djamma. Að hluta til hefur heimilið verið eins og skemmtistaður þar sem heimsóknartímar hafa verið vel sóttir. Gestir hafa séð til þess að tábrotna smáhestinum líði sem best og ef þeir hafa ekki borið í hann mat þá hafa þeir skúrað undan honum skítinn. Það sem er best við þessa heimsóknartíma er að ekkert „dresscode“ er inn í hið eiginlega Smartland og því hafa gestir verið ansi frjálslegir í heimsóknartímunum likt og húsráðandinn.

Hello Kitty náttsloppur, sem keyptur var fyrir hrun í sænska móðurskipinu H&M, er nánast að verða gróinn inn í húðina en á milli þvotta hafa aðrir sloppar líka verið vinsælir. Reyndar hefur smáhesturinn neyðst til að pakka lærunum inn í 80 den svona rétt á meðan hann skreppur í vinnuna en fyrsta verk við heimkomu hefur alltaf verið að tæta sig úr öllu til þess að komast í mestu ógeðsföt veraldar – skærbleikar hotpants og teygðan bol (og slopp yfir).

Nánustu aðstandendur smáhestsins myndu líklega hafa áhyggjur af þessu ástandi, þessum klæðaburði og þessum lífsstíl ef hann væri ekki búinn að gefa það út að hann þráði heitast af öllu að komast aftur í háhælaða skó og í ræktina. Það að ferðast um bæinn algerlega óhreyfður í inniskóm er bara ekki að gera neitt fyrir neinn.