c

Pistlar:

28. ágúst 2016 kl. 20:47

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Húsvörðurinn

Haustið fer að skella á og þess vegna er mikilvægt að taka örlítið til í fataskápnum, setja sumarfötin til hliðar og draga fram dimmari liti. Þetta á ekki bara við um kvenpeninginn heldur líka um karlpeninginn.

Þetta á líka innilega við um ástmann smáhestsins, sem við skulum kalla húsvörðinn. Til þess að hann yrði ekki úti á sumarjakkanum sínum var farið með hann í leiðangur. Leiðangur til að gera hann upp fyrir haustið. Því skal haldið til haga að hann hafði takmarkaðan áhuga á að láta gera sig upp enda hefur hann lungann úr ævinni pródúserað sitt eigið lúkk sem gengur undir nafninu „húsvarðarstíllinn“.

Húsvarðarstíllinn samanstendur af hljómsveitabol, gallabuxum og stundum úlpu. Mest töff virðist vera að vera helst bara á bolnum – hvernig sem viðrar. Enda er hann náttúrlega heljarmenni eins og þeir vita sem hann þekkja.

Í fataskápnum má finna undarlegt safn af fötum sem erfitt er að átta sig á.

Þess má geta að hann leggur mest upp úr því að fötin séu hrein og að sjálfsögðu straufrí. Allar alvöru húsmæður (og smáhestar) vita að fólk með metnað fyrir lífinu er ekki í straufríu – aldrei nokkurn tímann.

Húsvarðarstíllinn kallar á töluverða aukahluti og punkturinn yfir i-ið er að hafa aðgangskortið sitt á vísum stað, helst í buxnastrengnum eða um hálsinn (hann vill hafa þetta kort til sýnis, ekki spyrja smáhestinn hvers vegna). Ef hann mætti ráða væri hann líka með lyklakippu í beltinu og jafnvel farsímann. Og svona þegar rýnt er betur í húsvarðarstílinn þá fíla þessar týpur líka svona belti með sylgju (eins og þóttu töff 1991).

Þegar ástmaðurinn stundaði lögfræðinám voru engir kúrsar í fatasamsetningum eða hvaða snið færi hverjum best. Það gerir það að verkum að hann hefur ekki sérlega góða tilfinningu fyrir klæðaburði almennt. Smáhesturinn hefur því reynt að útskýra vel hvað passar með hverju, hvaða litir geta ekki mæst og hvernig er best að byggja upp heildarmyndina. Ástmaðurinn missir smám saman meðvitund þegar reynt er að mennta hann á þessu sviði.

Það eina sem hann veit er að hann ætlar sko ekki að líta út eins og eitthvert aumt tískufórnarlamb. Verst finnst honum líka ef hann neyðist til að klæðast jakkafötum. Þá líður honum eins og hann sé búinn að missa tökin á lífinu í eitt skipti fyrir öll. Smáhesturinn hefur ítrekað reynt að útskýra fyrir honum að venjulegir borgarar eins og hann þurfi stundum að klæðast jakkafötum. Hjá því sé ekki komist. Hann lætur til leiðast til að þóknast smáhestinum, en það skal tekið fram að hann er alls ekki sammála. Í hans huga passar Dimmu-bolur við öll tækifæri.

Þótt smáhesturinn reyni að passa upp á að þessir hlutir séu í lagi þá gerast tískuslysin oft í viku. Í stað þess að vera með hárblásarann á lofti þá reynir smáhesturinn að anda inn og anda út. Fólk á þessum aldri á víst að velja sér orrustur og þessi er ekki þess virði. Það merkilega er samt að miðað við hvað smáhestinum er oft illt í augunum yfir klæðaburði húsvarðarins, þá hverfur augnverkurinn í hvert skipti sem hann opnar munninn og byrjar að tala.

Fín föt geta nefnilega ekki búið til X-Factor, sama hvað reynt er. Fín föt geta þó hjálpað þeim sem eru óöruggir og hjálpað fólki að líða betur. Og þetta er keðjuverkandi. Fólki sem líður vel á auðveldara með að koma hugsunum sínum í orð.

Í stóra samhenginu skiptir náttúrlega alltaf mestu máli hvað fólk segir og hvað það gerir, hvernig það lifir og hvernig það kemur fram við náunga sinn – ekki hvernig það klæðir sig.