Það er frekar skemmtilegt að fylgjast með því sem er að gerast í hönnunarheiminum í dag og hvernig það endurspeglar tíðarandann.
Ungt fólk leggur mikinn metnað í að gera fallegt í kringum sig (og auðvitað miðaldra fólk líka – það er bara ekki eins duglegt að deila afrekum sínum á Instagram og Snapchat). Skandinavísk áhrif eru áberandi í bland við hinn heillandi evrópska stíl þar sem hvítar litlar háglansandi flísar eru áberandi ásamt svörtum innréttingum með fulningahurðum, brassi, fiskibeinaparketi og string hillum.
Fyrir tíu árum var fólk að spá í allt aðra hluti. Þá voru allir svo miklir greifar að útlitið á heimilinu þurfti að endurspegla það. Allir voru að gera það svo gott! Þá völdu nánast allir sem skiptu um innréttingar í eldhúsi hvíta höldulausa fronta og svartar granít-borðplötur. Það átti helst ekki að vera neitt uppi á borðum, fjárfest var í rándýrum háf úr burstuðu stáli sem var svo aldrei notaður og það var ekkert uppi á borðum nema kannski ávextir í „hönnunarskál“. Allt var líka hvítmálað nema kannski einn veggur. Díóðulýsing kom í stað listaverka og allt var „clean“ eins og eigandinn!
Í dag er þetta ekki svona. Í dag vill fólk hlýleika og meira dót (nema náttúrlega þeir sem eru mínimalistar) og plöntur. Plönturnar duttu nefnilega alveg út þarna fyrir tíu árum. Fólk á einkaþotum hefur náttúrlega engan tíma til að vera heima hjá sér endalaust að umpotta og vökva.
Í dag reynir fólk að vera umhverfisvænna í hugsun, er með moltu í garðinum og flokkar ruslið sitt. Og heimilið tekur mið af því. Fólk er líka farið að vera hrifnara af lituðum veggjum og heilmálar jafnvel íbúðir sínar í mjúkum sandlit. Þeir allra villtustu fara í dekkri „hönnunarlegri tóna“. Veggfóður með blómum eða pálmatrjám þykir svalt. Svo svalt að fólk er jafnvel farið að láta þekkta hönnuði hanna veggfóður í stíl við húsgögnin líkt og Björk Guðmundsdóttir lét gera fyrir sumarhús sitt við Þingvallavatn.
Svo eru það stóru motturnar sem eru að trenda ásamt flauelssófum og skrautlegum marokkóskum munum. Heimilið þarf að endurspegla að einhver búi þar og það færist líka í vöxt að glamúrinn sé skrúfaður upp með brassi, speglum og marmara.
Í dag er fólk orðið meðvitaðra um að leggja meira í innbúið í stað þess að setja allt púður í innréttingar. Fólk á það nefnilega til að flytja og ef fólk á fallegt innbú getur það alltaf gert fallegt í kringum sig. Ef við horfum framhjá stíl og efnisvali hefur ein mesta bylting samtímans átt sér stað á tíu árum. Fyrir tíu árum voru allir greifar með „hreindýr“ en í dag erum við aumingjar ef við kunnum ekki að þrífa undan okkur skítinn. Mestu greifarnir í dag búa til sínar eigin ediksblöndur og sýna það í beinni útsendingu úr símanum sínum. Er hægt að toppa það?