c

Pistlar:

23. maí 2018 kl. 10:12

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ertu alveg goslaus á Insta?

Það er hægt að finna óþægilega fyrir því að vera pre-miðaldra (goslaus) þegar maður hangir of mikið á Instagram (sem þéttbókaðar 41 árs gamlar kerlingar eiga náttúrlega ekki að gera. Þær eiga að vera að gera eitthvað gáfulegt við líf sitt, ekki haga sér eins og unglingar).

Það var dálitið lágskýjað hjá mér um daginn. Ég hafði sofið of lítið og var nokkrum númerum of krumpuð þegar ég hringdi í móður mína og játaði eitt hræðilegt fyrir henni. Ég sagði henni að ég hefði farið svo seint að sofa því ég hefði fest í Candy Crush fram á nótt. Móðir mín brást við á sinn einstaka hátt:

„Veistu það, Marta María, þetta er frábært. Þú hefur aldrei leikið þér, bara verið föst í vinnunni síðan þú varst unglingur.“

Móðir mín er sem sagt búin að leggja blessun sína yfir það að ég spili tölvuleiki fram á nætur og sofi lítið.

En ég geri fleira í símanum en að spila Candy Crush. Ég hangi óþægilega mikið á Instagram, sem er forgarður himnaríkis fyrir forvitið fólk.

Á Instagram er heldur ekkert dregið undan sem máli kann að skipta. Svo flæðir fegurðin yfir skjáinn hjá manni, mynd eftir mynd eftir mynd. Þetta er allt svo lekkert að maður veit ekki fyrr en maður er mættur í einhverja verslun því einhver póstaði einhverju á Insta.

Því miður valda þessir Instagram-leiðangrar oft mjög miklum vonbrigðum. Það er nefnilega hægt að láta öll föt líta þokkalega út á mynd ef þú snýrð bara rétt upp á líkamann og finnur réttan tökustað fyrir myndatökuna. Okkar bestu Instagram-skvísur eru sko snillingar í þessu. En þegar flíkin er komin á nokkuð eðlilega manneskju þá virkar hún oft ekki, sniðið slæmt eða efnið það slakt að það myndi aldrei þola þvott. En alltaf guðdómlegt á filteraðri ljósmynd!

En það eru ekki bara Instagram-föt sem eru að trenda núna. Svokölluð Instagram-förðun er ákaflega vinsæl. Þessi förðun svínvirkar þegar skrollað er niður skjáinn í símanum sínum en ef þú rekst á sömu manneskju í matvöruverslun sama dag er ekki ólíklegt að þú annaðhvort þekkir hana ekki eða haldir að hún sé að koma af leiksviði.

Þessi hefðbundna Instagram-förðun lítur yfirleitt betur út á mynd eða á sviði. Lýsingin í Bónus kallar fram allt aðra litatóna og skyggingar.

Það hættulega við þennan heim er að venjulegu fólki getur liðið eins og það sé alveg á grafarbakkanum og goslaust því það er ekki með réttu taktana á hreinu. Það kann ekki að mála sig og snúa rétt upp á líkamann og allt það.

Ef þú ert að tengja skaltu reyna að aftengja meira, vera minna í símanum og meira með raunverufólki sem liggur eitthvað á hjarta. Þegar við erum umvafin þeim sem gefa okkur lífsfyllingu verður líf okkar oftast innihaldsríkara og svo er það bara þannig að þegar það er raunverulega gaman þá gleymum við að taka mynd.