c

Pistlar:

15. nóvember 2019 kl. 11:24

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Aldrei að sleppa tökunum og treysta!

Síðustu ár hefur undirrituð tekið miklum framförum í að pakka létt, lesist ferðast heimsálfa á milli aðeins með handfarangur. Þetta trix hefur sparað ógurlegan tíma og aukið ánægju á ferðalögum svo um munar sérstaklega ef undirrituð hefur þurft að skipta um flugvél á miðri leið. Það að ferðast með handfarangurstösku gerir það að verkum að fólk þarf að vera búið að hanna atburðarás frísins og taka aðeins það allra nauðsynlegasta með sér.

Dag einn kom að því að handfarangurstaskan sem var búin að þjóna sínum harða húsbónda vel og lengi gaf upp öndina og þá þurfti að kaupa nýja. Undirrituð fór því í verslun á höfuðborgarsvæðinu sem sérhæfir sig í sölu á bókum og ritföngum og keypti þar ferðatösku. Þegar undirrituð var að velja „handfarangurstösku“ leitaði hún ráða hjá starfsfólkinu og spurði þau hvort taskan sem mér leist best á væri ekki örugglega handfarangurstaska og fékk þau svör að þau „héldu“ það.

Afskiptasemi undirritaðrar og stjórnsemi fer stundum fyrir brjóstið á fólkinu í kringum hana og því ákvað hún einu sinni að sleppa tökunum og treysta. Fyrir „handfarangurstöskuna“ reiddi undirrituð fram dágóða upphæð og var nokkuð ánægð með kaupin. Þegar heim var komið gekk ógurlega vel að pakka í töskuna og lífið virtist leika við undirritaða þangað til skellurinn kom.

Skellurinn var dálítið óþægilegur því einhvern veginn komst undirrituð með töskuna í gegnum gegnumlýsingartæki Leifsstöðvar án athugasemda. Það var ekki fyrr en sú sem hér skrifar var mætt um borð í flugvélina sem ógæfan dundi yfir. Þar var henni tjáð að taskan færi aldrei inn í farþegarýmið heldur yrði sett í farangursgeymslu með hinum ekki-handfarangurstöskunum.

Í geðshræringu kippti sú sem hér skrifar tölvunni upp úr töskunni en var lítið að spá í öðru eins og snyrtidóti eða hleðslu fyrir símann.

Þegar á áfangastað kom rann það upp fyrir undirritaðri að hún kæmi nákvæmlega til dyranna eins og hún væri klædd. Taskan skilað sér nefnilega ekki á áfangastað en í henni voru föt fyrir næstu daga, snyrtidót, krullujárn og allt það helsta sem hefðbundin nútímakona þarf á að halda til að geta dregið andann á áreynslulítinn hátt.

Það var hægt að hugga sig við að taskan væri týnd en ekki veskið, síminn eða tölvan en þrátt fyrir að kunna nánast öll trix í bókinni til að hugga sig þá runnu niður tvö tár í leigubílnum á hótelið. Undirrituð gerir sér alveg grein fyrir að týnd ferðataska er eins mikið lúxusvandamál og hugsast getur en þegar konum er annt um eigur sínar vandast málið. Og líka þegar þær eru einar úti í hinum stóra heimi og enginn mjúkur faðmur til að halla sér að.

Svo litið sé á björtu hliðarnar þá voru verslanir á Ítalíu þetta volga októberkvöld opnar til 21.00 og því var hægt að kaupa svitalyktareyði, undirföt, farða og maskara til að geta haldið áfram með lífið í allavega einn dag í viðbót.

Taskan skilaði sér rúmum sólarhring síðar en á heimleiðinni týndist hún aftur og komst ekki í hendur eiganda fyrr en á þriðja degi.

Hvort um óhappatösku sé að ræða eða ekki er ekki hægt að svara hér. Þetta kenndi undirritaðri bara að halda sig við handfarangurinn og voga sér ekki að treysta ókunnugum upp úr þurru.