Garðyrkja er listgrein eins og myndlist, fatahönnun, grafísk hönnun, skrautskrift, nútímadans og skrautfiskarækt. Ef þú ætlar að verða góður ræktandi þarftu að setja kraft í garðræktina líkt og þú værir að læra fyrir próf eða reyna að vinna þig upp á vinnustaðnum. Þú þarft að setja allan kraftinn í það; hlúa að, sýna þolinmæði og reyna að hafa svolítið gaman á leiðinni. Fæstir fæðast fullskapaðir meistarar en með æfingu og þrautseigju er allt hægt.
Þegar minnst er á metnað er vert að nefna hjónin Andreu og Hall sem búa á Akureyri. Þau ákváðu að nota peningana sem færu í að kaupa sumarbústað og gera garðinn sinn upp í staðinn. Til þess að fullkomna líf sitt ákváðu þau að steypa heitan pott sem smíðaður og hannaður var á staðnum. Til að fá algert næði steyptu þau veggi í kringum pottinn og settu hitalögn í pallinn sjálfan svo þau geti notað pottinn allan ársins hring. Í stað þess að kaupa tilbúinn pott eiga þau núna algerlega einstakt útisvæði við heimili sitt og geta notið lífsins sama hvað.
Talið berst að garðhönnun.
Vilmundur Hansen, einn helsti garðyrkjusérfræðingur landsins, bendir á að það sé slæm þróun að byggingarvöruverslanir eða steypustöðvar bjóði upp á fría garðhönnun gegn því að efnið sé keypt hjá þeim. Þetta geri það að verkum að fría garðhönnunin framkalli oft og tíðum verönd á borð við flugmóðurskip og lítið sé spáð í gróður.
Talandi um góða stemningu þá finnst mér skipta máli að heimilið og nærumhverfið sé þannig að fólk langi varla út fyrir hússins dyr nema kannski út í garð. Að heimilið og útisvæðið sé þannig hannað að fólk þurfi ekkert meir. Það sé bara sátt við sitt.
Svo er þetta með smekklegheitin. Síðasta sumar dvaldi ég á hóteli í Kaupmannahöfn, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að í portinu við hótelið var búið að búa til hellulagðan „garð“. Þar var borðum og stólum raðað upp en inn á milli voru settar stórar plöntur í myndarlega trépotta. Þessi samsetning heillaði mig. Það eru margir sem eru með stór hellulögð útisvæði sem eru alveg dauð. Ekkert lifandi fyrirfinnst á þessum hellulögðu útisvæðum nema kannski íbúar hússins sem eru við það að missa lífviljann vegna þess að þeir komust ekki í sína árlegu Spánarferð.
Í gróðrarstöðvum landsins vinna sérfræðingar sem vita nákvæmlega hvaða tré lifa í hvaða trépotti eða blómabeði. Ef þú ert einn af þeim sem eru með fýlusvip sem lekur niður á nafla yfir ástandinu gæti tré í potti og heimsókn á gróðrarstöð hresst þig við. Svo gætirðu bætt við hengirúmi, heilsársjólaseríu, keypt þér eldstæði, grillað sykurpúða, keypt þér kúrekahatt og ponsjó og boðið vinum í heimsókn á mánudaginn. Maður er alltaf manns gaman, sama hvernig ástandið er í heiminum. Þú þarft bara að passa að talan fari ekki yfir 200. Þá gæti löggan eyðilagt partíið!