c

Pistlar:

29. janúar 2018 kl. 0:57

MUNUM (munum.blog.is)

Ert þú búin/nn að klikka á áramótaheitinu?

Margir nýta áramótin til þess að setja sér markmið fyrir komandi ár og sumir kannast jafnvel við það að setja sér sama markmiðið endurtekið mörg ár í röð en ná einhverra hluta vegna ekki að fylgja því eftir. Í raun er stór nmeirihluti fólks búið að klikka á áramótaheitinu sínu fyrir miðjan janúar! Ef þú tilheyrir þeim hópi er afar mikilvægt að gefast ekki upp heldur að endurskoða markmiðið og setja það í nýjan búning. Megin ástæður þess að fólk klikkar á markmiðum sínum eru þær að ekki er farið nógu markvisst í gegnum þau skref sem liggja að baki farsællar markmiðasetningar.

Ef þú hefur ekki náð að fylgja markmiðum þínum eftir skaltu fara í gegnum skrefin hér að neðan, spyrja þig þessara spurning og sjá hvort þú getir sett markmiðið þitt í nýjan búning sem eykur líkur á að þú náir að fylgja því eftir. Það er aldrei of seint að byrja að setja sér markmið og það mikilvægasta að öllu er að gefast ekki upp þótt eitthvað klikki því mistökin eru til þess að læra af þeim.

 

Er markmiðið þitt raunhæft?

Mikilvægt er að velja sér markmið sem er krefjandi en jafnframt raunhæft. Til dæmis er ekki sniðugt að ákveða að hlaupa maraþon eftir mánuð ef þú hefur aldrei hlaupið meira en 5 kílómetra.

Er markmiðið þitt sértækt?

Forðast skal að hafa markmið of almenn, t.d. er markmiðið “ég ætla að verða betri manneskja” mjög almennt og erfitt er að mæla árangur í að nálgast markmiðið. Betra er að ákveða að hvaða leyti þú villt bæta þig, t.d. “ég ætla að hafa meira samband við vini mína”. Hér er markmiðið orðið aðeins mælanlegra en þó er enn hægt að gera það skilvirkara.

Er markmiðið þitt mælanlegt?

 Sem dæmi er markmiðið ,,ég ætla að hitta vini mína a.m.k. tvisvar í viku” mun sértækara og vænlegra til árangurs. Þegar markmið eru vel skilgreind og auðvelt er að mæla árangur þeirra er mun líklegra að við fylgjum þeim eftir.

Þarftu ef til vill að búta markmiðið niður í minni skref?

Ef markmiðið er stórt, getur verið gott að skipta því niður í nokkra litla hluta sem eru viðráðanlegri. Með þessu móti er mun líklegra að þú gefist ekki upp. Ekki hugsa of mikið um lokamarkmiðið, einbeittu þér frekar að einum hluta í einu.  Settu upp aðgerðaáætlun að markmiðunum og fylgdu henni. Því nákvæmari sem áætlunin er, því betra.

Ertu með einhvern tímaramma á markmiðinu þínu?

Mikilvægt er að ákveða hvenær þú ætlar að ná markmiðinu og setja þér tímaáætlun. Gott er að setja sér bæði skammtíma- og langtímamarkmið.

MUNUM

MUNUM

Á bak við MUNUM stendur Þóra Hrund Guðbrandsdóttir markaðsfræðingur og Erla Björnsdóttir sálfræðingur. Síðustu ár hafa þær stöllur gefið út MUNUM dagbókina sem miðar að því að auðvelda markmiðasetningu, tímastjórnun og efla jákvæða hugsun.

Meira