Líklega er fátt sem leggur traustari grunn að lífsgæðum fólks hér á Íslandi en heita vatnið okkar og nýting þess. Þetta eru orðin svo sjálfsögð gæði að við áttum okkur líklega ekki lengur á mikilvægi þess. Við þekkjum sögur af kolareyk í bæjum og borgum Evrópu en færri vita að hann var einnig hér á landi áður en hitaveitan kom til sögunnar. Heita vatnið leggur til milljarðatugi á hverju ári í gjaldeyrissparnað fyrir þjóðarbúið þar sem við þurfum ekki að kynda hús okkar með jarðefnaeldsneyti eins og flestar þjóðir. Þá telst jarðhiti til grænnar orku, þar sem hún hefur mun minni kolefnisfótspor en jarðefnaeldsneyti. Notkun jarðhita dregur þar af leiðandi úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem skiptir máli fyrir vernd loftslagsins.
Talið er að um 90% íbúa Íslands njóti ávaxtanna af jarðhitavinnslu. Öll þekkjum við fréttir um að það hafi fundist hiti og vatn í virkjanlegum mæli. Gerist það á svæðum þar sem slíkra gæða naut ekki áður, markar það alger kaflaskil. Það er hins vegar svo að jarðhitaleit krefst úthalds og seiglu, jafnhliða hyggjuviti, reynslu og þekkingu. „En þegar vel gengur eru viðbrögðin stundum lík því að í sjávarpláss sé kominn nýr togari eða happdrættisvinningur sé í hendi,“ sagði Árni Magnússon, forstjóri Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR), í viðtali við Morgunblaðið fyrir stuttu. Um hina einstöku nýtingu jarðhitans hér hefur verið fjallað áður hér í pistlum.
Heitt gull á Ísafirði
Í viðtalinu kom fram að mörg stór verkefni séu fram undan hjá ÍSOR en með starfi sínu í áratugi hafa vísindamenn stofnunarinnar kortlagt landið með tilliti til þess hvar jarðhita sé helst að finna. Út frá þeirri þekkingu sem þar liggur fyrir er borað eftir vatni sem oftar en ekki skilar góðum árangri og verður sem vítamínsprauta fyrir byggð og samfélag á viðkomandi stað. Um það þekkjum við mörg dæmi.
Orkubú Vestfjarða hafði um langt skeið leitað að heitu vatni á Vestfjörðum, meðal annars í von um að finna vinnsluholu á Ísafirði. Þannig væri hægt að skipta út rafkyndingu í hitaveitu á Ísafirði og hægt að nýta rafmagnið í annað sem skiptir máli í þeim raforkuskorti sem er fyrir vestan. Síðasta vor fannst svo heitt vatn í Tungudal á Ísafirði sem ætti að duga til upphitunar húsa þar í bæ. Skiljanlega líkti bæjarstjórinn þessu við gullfund. Hafa verður í huga að Ísafjarðarbær er næststærsta bæjarfélag landsins án jarðvarmaveitu, en jarðhitaleit hefur staðið yfir með löngum hléum í Skutulsfirði allt frá árinu 1963. Því er ljóst að fundurinn getur haft mikla þýðingu fyrir alla Vestfirði.
Jarðhiti á bökkum Ölfusár
Jarðhitarannsóknir eru dýrar en bera sem betur fer oft árangur. Á Selfossi var orðið þröngt um heitt vatn og skömmtun á vetrum. Þar var borað á bakka Ölfusár inni í miðjum bænum. Við borun fannst heitt vatn eins og rannsóknir ÍSOR gáfu vísbendingar um. Fréttastofur líktu þessu við það að detta í lukkupottinn en um 30 sekúndulítra af 85 gráðu heitu vatni fundust á níu hundruð metra dýpi. Þetta gerbreytti stöðu mála á Selfossi.
Þá hefur leit á Suðurnesjum skilað sínu í vinnu sem hófst eftir að æð hitaveitunnar frá Svartsengi fór í sundur í eldgosi í febrúar í fyrra. Meðal annars fannst nærri 80 gráðu heitt vatn á Miðnesheiði í magni sem dugað gæti öllum Suðurnesjabæ; það er Sandgerði og Garði þar sem búa samtals um 4.000 manns. Það er lykilþáttur þess að við getum tekist á við ógnir jarðeldanna.
Jarðhiti á Höfn í Hornafirði
Breytingar í atvinnulífi kalla á nýjar þarfir í jarðhitaleit og vinnslu. Það á við um aukin umsvif í ferðaþjónustu en nú er að hefjast að nýju leit að jarðhita við Kirkjubæjarklaustur. Sá staður er fjölsóttur og heitt vatn þar, með gæðum sem slíku fylgir, gæti eflt ferðaþjónustuna þar. Nýlega lagði Orkusjóður til nokkra fjármuni í leit á Klaustri sem vænta má mikils af. Þar og víðar í grennd ætti eflaust að finnast heitt vatn en eins og flesta rekur minni til fannst heitt vatn á Nesjum við Hornafjörð fyrir nokkrum árum. Hitaveita hefur breytt mörgu á Höfn en þar hafði verið rekin kyndistöð og dreifikerfi fyrir rafkynta hitaveitu og voru 75% húsa í bænum tengd veitunni sem notaði ótryggða raforku en olíu til vara til að hita upp vatn sem nýtt var í dreifikerfi veitunnar. Síðustu árin áður en heitt vatn fannst hafði verð á ótryggðri raforku hækkað verulega og framboð á henni verið mikilli óvissu háð. Því var forsenda fyrir óbreyttum rekstri fjarvarmaveitunnar ekki lengur fyrir hendi.
Krefjandi svæði en ekki köld
Það var athyglisvert að lesa lýsingar Árna á jarðhitaleit. Hann benti á að í eina tíð hafi verið talað var um köld svæði. Það eru staðir þar sem talin var borin von um að finna heitt vatn í nýtanlegum mæli. Þetta segir Árni vera úrelta nálgun, svo mikið hefur þekkingu og verkgetu í orkuöflun fleygt fram. Fremur sé talað um að svæði séu krefjandi þegar kemur að jarðhitaleit. Áður hafi gjarnan verið litið svo á að vatn undir 70 gráðum væri vart nýtanlegt en allt annað sé uppi á teningnum í dag.
Þó sé áfram og eðlilega alltaf mikið horft til háhitasvæða svo sem á Hellisheiði, Hengilssvæðinu og Þeistareykjum þar sem eru ríkir möguleikar til rafmagnsframleiðslu. ÍSOR starfar mikið með stóru orkufyrirtækjunum en svo líka í samvinnu á vegum utanríkisráðuneytisins, fóstruð hjá ÍSOR. Erlend verkefni og tengsl eru mikilvæg hér, meðal annars svo viðhalda megi og þróa tækni og þekkingu.
Byggja á þjónustutekjum
Það er athyglisvert að ríkisstofnunin ÍSOR byggir á þjónustutekjum fyrir útselda vísindavinnu. Áherslubreytingar voru gerðar í starfseminni fyrir nokkrum árum og Árni fullyrðir í samtalinu að rekstur stofnunarinnar sé í góðri stöðu. Starfsemi ÍSOR veltir um 1,4 milljörðum króna á ári. Flest verkefna stofnunarinnar snúa að jarðhitaleit og tengdum verkefnum hér innanlands. Hjá stofnuninni vinna alls um 50 manns, fólk með menntun á breiðu sviði jarðvísinda og með góða sérþekkingu sem erlendir aðilar leita oft í.