Ef marka má spunakarla úr röðum stjórnarliða virðist ein röksemd fyrir því að hækka beri auðlindagjald vera sú að eigendur fyrirtækja í sjávarútvegi hafi grætt svo mikið og séu fyrir vikið orðnir auðmenn á íslenskan mælikvarða. Gefið er í skyn að auðsöfnun þeirra sé vegna þess að það sé rangt gefið, eitthvað í útfærslu fiskveiðistjórnunarkerfisins geri það að verkum að þeir efnist óeðlilega mikið og hratt. Þetta er eins og oft áður ekki stutt neinum rökum, huglægar forsendur liggja til grundvallar þessu mati en það er engin tilviljun að menn sögðu til sveita hér einu sinni, aumur er öfundlaus maður!
Öfund er sterk tilfinning, svo sterk að öfund (eða afbrýðisemi) er talin ein af hinum sjö dauðasyndunum í kristinni hefð. Öfund felst í því að óska sér þess sem aðrir hafa, oft með gremju eða illsku. Í Njálu kemur orðið öfund sex sinnum fyrir, þar af fjórum sinnum í garð Gunnars á Hlíðarenda, hinnar kristnu hetju sögunnar eins og Pétur Gunnarsson rithöfundur hefur bent á. Njáll sagði Gunnar vera hinn mesta afreksmann: „og ert þú mjög reyndur en þó munt þú meir síðar því að margur mun þig öfunda.“ Í þennan tíma bjó Mörður Valgarðsson að Hofi á Rangárvöllum. Hann var slægur og illgjarn og öfundaði mjög Gunnar frá Hlíðarenda enda óvinsæll sjálfur. Öll vitum við hvernig sú saga endaði.
Kyrrstaða eða auðsöfnun
Á öllum tímum Íslandssögunnar hafa átt sér stað breytingar sem hafa haft í för með sér framfarir og auðsöfnun tiltekinna einstaklinga. Strax eftir að Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd breyttist ýmislegt í samfélagsgerðinni. Til dæmis varð ímynd stórbóndans virðingarmeiri en goðans sem áður réði öllu og markaði þannig ákveðna kyrrstöðu. Staða goðans snérist um völd en stórbóndinn vildi efla jarðnæði sitt og efnast. Í kjölfar þessara breytinga máttu menn auðgast með söfnun jarðeigna og leigu á þeim sem var raunar nauðsynleg forsenda til að komast í áhrifastöðu hjá konungi. Um leið tóku vöruviðskipti og kaupmennska líka að breytast. Nú tók að birtast krafa um að verð á innfluttri vöru væri ekki bundið en áður mátti ekki leggja á hana. Nú átti verð að mótast af samkomulagi kaupenda og seljenda. En breyting hugarfarsins gerðist seint og það að efnast vegna verslunarágóða kallaði á fyrirlitningu samfélagsins, sú leið gat varla freistað margra fyrr en nokkrum öldum seinna. Á öllum tímum hefur fyrirlitning beinst að þeim sem efnast á breytingum því aflvaki þeirra er mörgum hulinn.
Atvinnulífsbylting og auður Hákarla-Jörundar
Ef við förum nokkrar aldir fram í tímann má rifja upp að um daga Hákarla-Jörundar varð atvinnulífsbylting á Eyjafjarðarsvæðinu. Það varð í kjölfar fjármagnsmyndunar vegna stóraukinnar framleiðslu hákarlalýsis til sölu á erlendum mörkuðum og sauðasölu til Bretlands eins og áður hefur verið fjallað um hér í pistlum. Þessar breytingar juku auðsæld margra en þær ráku samfélagið úr kyrrstöðu sjálfsþurftarbúskapar í átt til hagvaxtar og markaðsbúskapar. Hákarla-Jörundi tókst að brjótast úr hlekkjum fátæktar og vinnumennsku og verða sjálfstæður útvegsbóndi. Hann efnaðist og árið 1862 settist hann að á Syðstabæ í Hrísey með fjölskyldu sinni. Þar hélt velgengni hans áfram og Jörundur gat sér orð fyrir að vera einn fengsælasti hákarlaveiðimaður landsins, áræðinn og farsæll skipstjóri. Viðurnefni hans, Hákarla-Jörundur, segir meira en mörg orð. Flestir halda að hann hafi fyrst og fremst verið útgerðarmaður en færri vita að á árunum 1865 til 1888 rak hann eitt af stærstu sauðfjárbúum í Eyjafirði. Af rekstri sínum til sjós og lands komst hann í hóp efnuðustu manna í landinu um sína daga en hann lést árið 1888, þá rétt að verða 62 ára.
Bjartsýni leiðir til ríkidæmis
Afstaðan til auðs hefur verið mótuð af mörgum þáttum í gegnum söguna en hugarfarið skiptir öllu. Árið 1976 var Aðalsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Eskifirði, í viðtali í Frjálsri verslun, undir fyrirsögninni, „Bjartsýnin verður aldrei frá mér tekin“. Lokaspurning blaðamanns snéri að viðurnefninu „Alli ríki“. Aðalsteinn svarar á sinn einstaka hátt: „Þegar ég heyrði þetta nafn fyrst, vissi ég að fólk sagði það í háði. En það var blaðamaður á Þjóðviljanum sem sá um að opinbera nafnið „Alli ríki“ fyrir landsmönnum, og ég hefi ekki tapað á því að hafa fengið þessa nafngift, en menn geta verið ríkir á ýmsan hátt. Ég held, að maður sem er bjartsýnn og ólatur verði aldrei fátækur.“ Þessi orð gætu verið bundin við kynslóðir frá þeim tíma þegar menn skilgreindu sig út frá vinnu sinni og töldu sér allar leiðir færar svo framarlega sem heilsa og styrkur dygði til.
Það er ekkert nýtt að menn séu kenndir við ríkidæmi á Íslandi, nánast öll Íslandssagan og reyndar bókmenntasagan ber með sér þetta heiti og deilir því nokkuð samviskusamlega út í gegnum aldirnar. Þar getum við séð hvernig frá einum tíma til annars vont kerfi eða óáran dregur úr mönnum bjartsýni. Hugsanlega eru hin manngerðu hagstjórnarmistök verri en það sem náttúran hefur lagt á okkur.
Fórnarlömb eigin velgengni
Nú reyna talsmenn hærri auðlindaskatts að gera tortryggilegan auð þeirra einstaklinga sem hafa starfað í greininni. Þannig má segja að þeir hafi orðið fórnarlömb eigin velgengni. Ef þessi bráðum 40 ára tilraun til að láta sjávarútveginn reka sig sjálfan hefði farið á annan veg og sjávarútvegurinn ekki orðið sjálfbær hefði staðan verið öðruvísi. Þá væri umræðan um sjávarútveg á pari við það sem á við um landbúnaðinn sem er rækilega fastur í kerfi ríkisstuðnings og ríkisafskipta. Þá er það heldur undarlegt að gera veður úr því að menn efnist en rifja má upp eftirfarandi hugleiðingu Rómverjans Sallust sem hann skrifaði um 40 árum fyrir Krists burð:
„Það virðist náttúrulögmál að í öllum ríkjum öfunda hinir auralausu þá auðugu, lofsyngja þá óánægðu, hata gamla kerfið og þrá breytingar. Vegna fyrirlitningar á eigin örlögum eru þeir tilbúnir að umbylta öllu. Áhyggjulausir nærast þeir á uppreisnum og uppþotum, því fátæktin er eign sem enginn þarf að hafa áhyggjur af að tapa.“