c

Pistlar:

18. júní 2024 kl. 19:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gleymdu stríðin í Jemen og Súdan

Stundum er talað um gleymd stríð sem eru þá stríð sem einhverra hluta vegna fá ekki athygli heimsins. Fyrst koma upp í hugann til þess að gera nýleg stríð í Jemen og Súdan en sjálfsagt eru þau fleiri. Í báðum þessum löndum hafa geisað mannskæð átök sem hafa haft í för með sér miklar hörmungar fyrir landsmenn. Í tilfelli Súdan er óhætt að segja að ástandið sé einstakt en í kjölfar endalausra átaka fylgir hungur sem ógnar heilsu og lífi milljóna manna. Ástandið var ekki beysið fyrir en nú hefur landið endanlega verið lagt í rúst vegna stríðs milli súdanska hersins og hernaðaraðgerðahóps, Rapid Support Forces (RSF) en stríð milli þessara hópa braust út í apríl á síðasta ári.sudan

Sameinuðu þjóðirnar segja að 25 milljónir manna, þar af 14 milljónir barna, þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Meira en níu milljónir manna hafa flúið heimili sín og allir í landinu hafa orðið fyrir áhrifum á einhvern hátt. Í nýlegri frétt BBC segir að ástandið eigi bara eftir að versna því lengi getur vont versnað á þessum slóðum eins og sagan sýnir.

En af hverju segjum við gleymdu stríðin, nógar eru hörmungarnar samt. Af hverju fylgist heimurinn ekki betur með því sem gerist í þessum löndum? Því er fyrst til að svara að við í Vestur-Evrópu búum við sérstaka heimsmynd og svo verður þessi mynd enn þrengri hér á Íslandi. Þannig gerðist það líka að stríðið í Úkraínu hvarf í skuggann af átökunum á Gasa eftir hryðjuverkaárásina 7. október síðastliðinn. Við getum ekki sagt að stríðið í Úkraínu hafi gleymst en athyglin minnkaði og stríðið á Gasa tók yfir fréttatímana. Það er líklega vegna þess að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafsins hefur sterka sögulega skírskotun og áhersla fréttastöðva á þetta svæði gríðarlegt meðal annars vegna þess að tveir trúarhópar eiga í hlut.

Súdan á ábyrgð heimamanna

En víkjum sögunni aftur að stöðu mála í Súdan, sem er eitt stærsta land Afríku en það er svipað að flatarmáli og Frakkland, Þýskaland, Spánn, Svíþjóð og Ísland samanlagt. Hér í grein í vetur var fjallað um ástandið og einstaka sinnum berast fréttir þaðan í íslenskum miðlum, líklega helst þá í Morgunblaðinu. Súdan hefur verið þjakað af borgarastyrjöld í meira en fimmtíu ár. Stríð braust út skömmu áður en landið fékk sjálfstæði árið 1956 og síðasta lota viðræðna lauk með friðarsamkomulagi snemma árs 2005 en friðurinn reyndist ótraustur. Stríðið hófst sem átök á milli tveggja ólíkra trúarbragða sem byggðu á ólíkri menningu. Íslömsk ríkisstjórn landsins setti trúarskoðanir sínar í stjórnarskrá og þröngvaði þeim upp á allt landið. Þetta vakti hörð viðbrögð kristinna og fólks af öðrum trúarbrögðum í suðurhluta landsins. Þessir hópar voru ekki tilbúnir til að fylgja ströngum lögmálum íslams og það skapar klofning í samfélaginu. Kristnir íbúar landsins hafa mátt þola miklar ofsóknir eins og víða í Afríku.sudan2

Það er eiginlega engin leið að lýsa þeim hörmungum sem hafa dunið yfir íbúa Súdan en verst hefur ástandið verið í Darfur héraði þar sem endurtekið er verið að fremja glæpi gegn mannkyninu. Enn er verið að fremja fjöldamorð þar. Það er áhrifaríkt að lesa bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali en hún dregur upp skýra mynd af afturhaldssinnuðu þjóðfélagi í höndum trúarofstækis og hindurvitna. Ástandið í Súdan er á ábyrgð hrottafenginnar herforingjastjórnar sem beitir fyrir sig trúarofstæki. Það má kenna Vesturveldunum um margt en tæpast verður það gert með ástandið í Súdan.

Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að ástandið versni enn frekar. „Ég býst við að í september séum við að horfa til þess að um 70% íbúanna séu mjög svöng,“ sagði Timmo Gaasbeek, sérfræðingur í matvælaöryggi við BBC en hann hefur lengi starfað í Súdan og bætir við. „Það gæti leitt til tveggja og hálfrar milljónar dauðsfalla, eða meira. Það gæti verið allt að fjórar milljónir. Það er bara ekki til nægur matur.“

Hjálparstarfsmenn, eins og Justin Brady, yfirmaður mannúðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (Ocha) í Súdan, segist vera orðinn örvæntingafullur vegna skorts á alþjóðlegri athygli á stríðinu í Súdan. Hann bendir á að alþjóðasamfélagið hafi einfaldlega ekki veitt það fjármagn sem þarf til að hjálpa fólki sem þarf á því að halda. Meira en 2 milljörðum dollara var lofað á ráðstefnu í París í apríl, en Brady sagði „það reynist svolítil blekking“.

Hungur sem vopn

„Báðir aðilar nota hungur sem vopn í stríðinu,“ hefur BBC eftir Alex de Waal frá World Peace Foundation. Hann hefur rannsakað hungursneyð og átök í Súdan síðan snemma á níunda áratugnum. RSF, sagði De Waal, er „í meginatriðum glæpasveit. Þeir ráfa um sveitir og bæi, stela öllu sem til er og þannig halda þeir sér uppi.“

Á meðan reynir súdanski herinn „að svelta svæðin undir stjórn RSF, til að auka þrýstinginn á keppinaut sinn. „Báðir aðilarnir,“ sagði De Waal, „sýna engin merki um neinn vilja til að afsala sér ódýru og mjög áhrifaríku vopni.“sudan3

Margar fjölskyldur, sem hafa leitað skjóls í nágrannaríkinu Tsjad, segja frá því að RSF hafi sérstaklega verið að leita að ungum mönnum og drengjum í Vestur-Darfur, neyða þá úr felum sínum og drepa þá. Fjölskyldur greina frá því að meðlimir samfélaga sem ekki eru arabískir hafi verið skotmark. Þeir lýsa því við fréttamenn BBC að þeir hafi verið stöðvaðir við eftirlitsstöðvar RSF og spurðar um þjóðerni þeirra. Ef upp kemst að þeir eru Massalitar eru þeir drepnir.

Í janúar lá fyrir að 12 þúsund konur, karlar og börn höfðu verið drepin í átökunum en ekkert lát hefur verið á drápum síðan. 14 af þeim 25 milljónum, sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda, eru börn. Nærri 5 miljónir Súdana eru einu skrefi frá hungursneyð. Um 5 milljónir barna, ófrískra kvenna eða með barn á brjósti, þjást af alvarlegri vannæringu. Svona lítur gleymda stríðið í Súdan út.