Einstaka sinnum kemur hlutabréfamarkaðurinn skemmtilega á óvart. Það sést best af því að þar hafa verið allnokkrar hækkanir undanfarið þrátt fyrir að margt bendi til þess að ástandið í hagkerfinu sé heldur að versna. Við sjáum vaxandi atvinnuleysi, óvissu með loðnuvertíð, jafnvel lækkun á eignaverði og almennt vaxandi óvissu. Allt þetta gæti þó haft í för með sér rækilega vaxtalækkun þegar Seðlabankinn birtir næstu ákvörðun sína í nóvember. Þar erum við líklega komin með skýringu á hausthækkunum í kauphöllinni. Sem eitt og sér segir okkur að það er ekki alltaf fullkomin samhljómur milli kauphallarinnar og raunhagkerfisins. Vinsælt er að skýra slíkt ferli með því að segja að hlutabréfaverð sé að leiðréttast!
Hagstofan hefur upplýst að árstíðaleiðrétt atvinnuleysi hafi tvöfaldast á milli mánaða, hlutfall starfandi hafi lækkað um 2,3 prósentustig og atvinnuþátttaka hafi nánast staðið í stað. Hvert prósent í atvinnuleysi kostar verulegar fjárhæðir eða um 10 milljarða yfir árið. Fátt er skýrara um slökun hagkerfisins en tölur um atvinnuleysi og atvinnuþátttaka. Það er því ekki að undra að sumir greinendur eru farnir að gæla við allt að 75 punkta lækkun vaxta við næstu stýrivaxtaákvörðun sem hugsanlega getur þá stýrt okkur inn í mjúka lendingu. Þegar rýnt er í hvað gerist þangað til má hafa í huga að markaðurinn var í raun búin að innleysa síðustu vaxtalækkun áður en hún kom. Viska markaðarins verður ekki dregin í efa hér eða þangað til annað kemur í ljós!
Bjargar ferðaþjónustan viðskiptajöfnuðinum?
Síðan uppgangur ferðaþjónustunnar hófst höfum við Íslendingar hætt að taka niðurstöðu vöruskiptajöfnuður alvarlega, einfaldlega vegna þess að við treystum á að ferðaþjónustan (þjónustujöfnuðurinn) skili okkur hagstæðum viðskiptajöfnuði. Vöruskiptajöfnuðurinn í september 2024 var 13,6 milljörðum króna óhagstæðari en á sama tíma fyrir ári. Vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánuði var óhagstæður um hvorki meira né minna en 377,7 milljarða króna sem er 2,4 milljörðum króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.
Af þessu leiðir að íslenskt hagkerfi treystir mjög á ferðaþjónustuna og gengi krónunnar ræðst af stöðu hennar. Því miður horfir ekki of vel fyrir íslensku flugfélögunum tveimur, Play og Icelandair en rekstur þeirra er erfiður, sérstaklega hjá Play sem hefur nú gjörbylt viðskiptamódeli sínu sem hefur meðal annars það í för með sér að sætaframboð til og frá Íslandi dregst saman. Vonandi duga þessar aðgerðir til að bjarga rekstri félagsins en staða íslensku flugfélaganna og sætaframboð til Íslands hefur eðlilega mikil áhrif á ferðaþjónustuna í heild sinni.
Það er freistandi að benda á það þegar talað er um gjaldeyrisskapandi greinar að fiskeldi hér á landi er að vaxa hratt og eru nú horfur á að útflutningstekjur þar vinni upp tapaða loðnuvertíð og gott betur.
Orkuiðnaðurinn í startholunum
En ef horft er á jákvæðari þætti má segja að ákveðin kyrrstaða í orkuframkvæmdum hafi verið rofin með útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá. Framkvæmdin ein og sér er upp á um 70 til 90 milljarða króna og virkar því sem innspýting í hagkerfið þó að framkvæmdatíminn og tilheyrandi fjárfestingar hafi neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Pistlaskrifari minnist þess að Eimskipsmenn sögðu einu sinni að það þyrfti að vera að minnsta kosti ein virkjun í gangi til þess að tryggja afkomu félagsins.
Fleiri eru að hugsa sér til hreyfings í orkugeiranum. Í fjárhagsspá Orkuveitunnar fyrir árin 2025 til og með 2029, sem var samþykkt af stjórn 28. október, er gert ráð fyrir að heildarfjárfestingar á þessu fimm ára tímabili, 2025-2029, nemi 227 milljörðum króna. Fram kemur í tilkynningu félagsins, að framlegð rekstursins fjármagni þetta að mestu leyti en gert sé ráð fyrir nettó lántöku sem nemi tæpum 37 milljörðum króna. Þá sé gert ráð fyrir að stærsta verkefni Carbfix, Coda Terminal kolefnisförgunarstöðin, verði fjármagnað að hluta með utanaðkomandi eiginfjármögnun, enda sé það forsenda þess að ráðist verði í verkefnið. Um þetta gildir því nokkur óvissa, rétt eins og á við um flest öll áform um vindorkuver.
Skynsamleg lendingaáætlun
Skemmst er að minnast þess að greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir 0,1% samdrætti á árinu 2024 en stöðugum hagvexti á bilinu 2,1-2,3% næstu þrjú ár í hagspá sinni sem birtist um miðjan mánuðinn. Samkvæmt spánni hjaðnar verðbólga nokkuð á spátímanum og verður komin í 3,3% árið 2027. Deildin er varfærin og spáir hægfara vaxtalækkunum nær allt spátímabilið.
Hér var vikið að spurningunni um hvort við næðum mjúkri lendingu í hagkerfinu í pólitískum ólgusjó. Við erum á niðurleiðinni en atvinnuástand ágætt, skuldastaðan góð, ríkisfjármálin ekkert svo slæm (ennþá), erlenda staðan vel vinnanleg, krónan nokkuð stöðug og verðbólga og vextir að koma niður. Íslendingum ætti að farnast vel ef þeir hafa gæfu til að taka skynsamar ákvarðanir.