Sama dag og pistlahöfundur var að tygja sig heim frá skíðaferð í Austurríki var framin hroðaleg hnífsstunguárás í borginni Villach nálægt landamærum Slóvakíu. 14 ára gamall drengur var drepinn og fjórir aðrir særðir. Samkvæmt lýsingu lögreglunnar í Villach þá hóf hinn grunaði að ráðast á gangandi vegfarendur af handahófi. Það varð líklega mörgum til bjargar að sendill einn varð vitni að árásinni og keyrði árásarmanninn niður svo að hann lá eftir slasaður og var handtekinn í kjölfarið. Ómögulegt er að segja hve marga hann hefði ella getað slasað eða drepið.
Gerhard Karner innanríkisráðherra Austurríkis sagði samdægurs að um væri að ræða árás „íslamista“. Lögreglan upplýsti skjótt að hinn grunaði væri hælisleitandi með gilt búsetuleyfi og hreint sakavottorð. Við skoðun á íbúð hins grunaða fann lögreglan skýrar vísbendingar um að hann væri hallur undir róttækar skoðanir íslamista, en þar á meðal var fáni hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams á veggum íbúðarinnar.
Þetta er nærtækt dæmi um þau margvíslegu voðaverk sem nú eru framin víða í Evrópu. Þau eru að sjálfsögðu ekki öll á ábyrgð innflytjenda né íslamista en það er ekki hægt að horfa fram hjá augljósri þróun, dæmin eru einfaldlega of mörg. Evrópa er ekki sá öruggi staður sem hún var en hugsanlega er breytingin á Norðurlöndum, sérstaklega í Svíþjóð mest áberandi. Öll þessi atvik eru vatn á myllu þeirra sem vilja harðari stefnu gagnvart innflytjendum og það er nóg af þeim.
Árás afgansks manns í München
Tveimur dögum áður en atvikið varð í Villach ók annar hælisleitandi inn í hóp fólks í München í Þýskalandi og slasaði tugi manna, suma lífshættulega. Daginn eftir hófst hin árlega öryggismálaráðstefna í München og athygli heimsins því á borginni. Í árásinni í München særðust 39 manns, þar á meðal börn, og strax ljóst að margir voru alvarlega særðir. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi og skömmu seinna var greint frá því að um 24 ára gamlan karlmann frá Afganistan væri að ræða. Áverkarnir sem hann olli drógu dilk á eftir sér og tveggja ára stúlka og móðir hennar létust af sárum sínum daginn eftir.
Árásin á jólamarkaðinn í Magdeburg
Það tók Taleb Jawad al Abdulmohsen aðeins þrjár mínútur að drepa sex manns og særa 299 til viðbótar er hann ók svartri BMW-bifreið inn í mannfjölda á jólamarkaði í Magdeburg í Þýskalandi að kvöldi 20. desember síðastliðins. Allmargir Íslendingar búa í borginni og höfðu sumir verið á markaðinum sem er fjölsóttur. Af þeim sem slösuðust voru 41 taldir alvarlega slasaðir og einn hinna látnu var 9 ára barn.
Al Abdulmohsen nýtti sér flótta- og björgunarleiðir á jólamarkaðnum til þess að komast akandi að mannfjöldanum en ásetningur hans var að valda sem mestu manntjóni. Horst Nopens saksóknari sagði eftir árásina að Al Abdulmohsen hafi sagt ástæðu árásarinnar hafa verið óánægju hans með hvernig farið sé með sádí-arabíska flóttamenn í Þýskalandi.
Ásetningur og staða Al Abdulmohsen var full af mótsögnum. Nancy Faeser, innanríkisráðherra Þýskalands, sagði hann andvígan íslamstrú þrátt fyrir að vera alinn upp í trúnni. Þessi afstaða hans var gefin upp sem ástæða þegar hann sótti um stöðu hælisleitanda sem hann fékk 2016. Al Abdulmohsen skrifaði bók sem bar heitið Skapandi afneitun Íslams og var eftirlýstur í Sádi-Arabíu sem fyrir hryðjuverk. Þarlend yfirvöld höfðu varað þýsk yfirvöld og sagt Al Abdulmohsen hættulegan. Bókin var aldrei gefin út. Þá sagðist hann vera læknisfræðimenntaður en efasemdir komu upp um þekkingu hans á þeim heilbrigðisstofnunum sem hann starfaði á.
Hnífaárás á hátíð fjölbreytileikans í Solingen
Að kvöldi 23. ágúst 2024 átti sér stað hnífaárás á fjölda fólks í Solingen, 160 þúsund manna borg í Norður-Westfalen í Þýskalandi, þar sem var í gangi hátíð fjölbreytileikans. Þrír létust og átta særðust. Í kjölfar árásarinnar hófst mikil leit sem endaði með því að lögregla handtók hinn grunaða, 26 ára gamlan sýrlenskan flóttamann.
Þegar hann var ákærður sagði ríkissaksóknari hinn grunaða vera hvattan áfram af „róttækri sannfæringu íslamista“. Árásarmaðurinn er einnig grunaður um að vera meðlimur Ríkis íslams, sem lýsti yfir ábyrgð á árásinni. Hælisumsókn hans var synjað árið 2023 og þrátt fyrir að honum hafi verið vísað úr landi tókst yfirvöldum ekki að finna hann og dvaldi hann allan tímann í Þýskalandi.
Í kjölfar árásarinnar varð aukin umræða um fólksflutninga til Þýskalands og sumir stjórnmálamenn beittu sér fyrir hertu landamæraeftirliti og frestun á inngöngu flóttamanna. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lýsti árásinni sem „hryðjuverkum gegn okkur öllum“ og lagði áherslu á nauðsyn þess að ríkisstjórn hans flýtti fyrir heimsendingu og brottvísun.
Jólamarkaðsárásin í Berlín
Rétt eins og átti við um Taleb Jawad al Abdulmohsen þá ákvað 24 ára gamall hælisleitandi frá Túnis að nafni Anis Amri að nota annríki jólanna til að fremja ódæði sitt. Þann 20. desember ók hann vörubíl inn á jólamarkað í Breitscheidplatz í Berlín árið 2016. Aðkoman var hræðileg en tólf manns fórust og tugir særðust í árásinni. Skilríki Amri og fingraför fundust í vörubílnum og gerð var dauðaleit að honum sem náði suður til Ítalíu þar sem Anis Amri var skotin til bana þremur dögum seinna.
Þessi hryðjuverk og mörg önnur hafa gjörbreytt Þýskalandi. Nú er svo komið að rólegu hátíðarstundirnar sem þýskar fjölskyldur áttu áður á jólamörkuðum og álíka eru ekki lengur í boði nema að viðhafðri mikilli lögregluvernd og steinblokkum sem takmarka möguleika hryðjuverkafólks á því að aka inn í mannþröngina.
Allt síðan árið 2000 hefur jihadismi verið áberandi í Þýskalandi segir Wikipedía og bætir við: Þetta fyrirbæri einkennist af sterkum and-amerískum viðhorfum og víðtæku alþjóðlegu neti. Þýskættaðir jihadistar, oft róttækir og búsettir í þýskum borgum, ferðast oft til landa eins og Tyrklands, Tsjetsjníu, Pakistan, Afganistan og Miðausturlanda. Á þessum stöðum skiptast þeir á hugmyndafræði og mynda bandalög við ýmis öfgasamtök. Þetta innanmein skekur nú Þýskaland og mótar komandi þingkosningar.