c

Pistlar:

28. febrúar 2025 kl. 16:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump og Musk glíma við fjárlagahallann

Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur greint frá halla á alríkisfjárlögum upp á 838 milljarða Bandaríkjadala fyrstu fjóra mánuði reikningsársins 2025 (október 2024 til janúar 2025). Þetta má sjá í mánaðarlegri yfirlýsingu þess. Fyrir allt fjárhagsárið 2024, sem lauk 30. september 2024, var hallinn 1.833 billjónir dala, eða sem nemur 1,8 trilljónum dala, sem er þriðji mesti fjárlagahalli í sögu Bandaríkjanna. Þessi halli var að mestu knúinn áfram af 29% aukningu á vaxtakostnaði sem fór yfir 1 trilljón dala í fyrsta skipti.aaaamusk

Hallinn í janúar 2025 einum var 129 milljarðar dala sem er umtalsverð aukning frá 22 milljörðum dala sama mánuð í fyrra. Hafa verður þó í huga að þessi aukning var að hluta til vegna tímasetningar á tilteknum greiðslum. Ef leiðrétt er fyrir þeim þá er vöxtur hallans á milli ára minni en samt þó nokkur. Áætlanir frá fjárlagaskrifstofu þingsins (CBO) gera ráð fyrir að halli á fjárlagaárinu 2025 muni ná 1,9 trilljónum Bandaríkjadala, að því gefnu að núverandi lög og efnahagsaðstæður haldist að mestu óbreyttar.

Stefna Donald Trump varðandi fjárlagahallann, eins og hún birtist í nýlegum yfirlýsingum hans og forgangsröðun, virðist ganga út á að blanda saman umtalsverðum skattalækkunum og viðleitni til að draga úr ríkisútgjöldum. Nálgun hans byggir á loforðum þeim sem hann gaf í kosningabaráttu sinni, fyrri aðgerðum og þeirri efnahagsáætlun sem hann er nú að móta fyrir sitt annað kjörtímabil.

Skattalækkanir geta aukið á fjárlagahallann

Trump hefur stöðugt þrýst á um að framlengja og auka skattalækkanir, byggt á lögum frá 2017 eða lögum um skattalækkanir og störf (Tax Cuts and Jobs Act/TCJA), sem eiga að renna út í lok þessa árs. Hann hefur lagt til að þessar skattalækkanir einstaklinga og fyrirtækja verði varanlegar og lækki þannig skatthlutfall fyrirtækja enn frekar (hugsanlega í 15% fyrir innlenda framleiðslu). Um leið vill hann bæta við nýjum skattalækkunum og draga úr álögum á laun. Til dæmis afnema skatta á þjórfé en þar voru þau Kamila Harris sammála. Þó að þessar aðgerðir miði að því að efla hagvöxt og tekjur heimilanna spá sumir því að þær auki halla ríkisins verulega. Áætlanir frá hópum eins og Nefndinni um ábyrg alríkisfjárlög (Committee for a Responsible Federal Budget) benda þar að auki til viðbótar 5 til 11 trilljónum dala halla á fjárlög á næsta áratug. Allt fer það þó eftir umfangi niðurskurðarins.

Til að vega upp á móti þessum skattalækkunum hefur Trump lagt áherslu á að draga úr ríkisútgjöldum, þó að áætlanir hans hafi fyrirfram ekki verið svo ítarlegar á því sviði. Hann hefur falið milljarðamæringnum og frumkvöðlinum Elon Musk að leiða „Department of Government Efficiency“ (DOGE), ráðgjafahóp sem miðar að því að draga úr útgjöldum, koma upp um svik og þjófnaði og minnka skrifræði. Trump hefur haldið því fram að þetta gæti sparað allt að 1 trilljón dala.

Þar er gjarnan vísað til fjárframlaga til stofnana eins og Alþjóðlegu þróunarstofnun Bandaríkjanna (U.S. Agency for International Development) og ýmis „menningar- og mannúðarverkefni“ sem hafa verið fjármögnuð en segja má að það hafi skollið á skæðadrífu upplýsinga sem virðast afhjúpa allskonar óþarfa verkefni og sum beinlínis furðuleg. Þá hefur einnig komið í ljós að á bak við fögur heiti hjálparstofnana var á tíðum hrein pólitík að baki sem snerist um að hafa pólitísk áhrif í viðkomandi löndum. Ýmsir greinendur og sérfræðingar af vinstri vængnum eru ekki eins trúaðir á að þetta eitt og sér muni skapa nógar tekjur til að vinna upp tekjutap ríkisins vegna skattalækkana. Sérstaklega í ljósi þess að næstum helmingur alríkisútgjalda fer til almannatrygginga, heilbrigðisútgjalda og varnarmála, allt málaflokkar sem Trump hefur í gegnum tíðina forðast að skera harkalega niður. Hann hefur þó gefið það út að öll fjármál varnarmálaráðuneytisins verði tekin til skoðunar.aaaamusk

Erfitt að meta tekjur af tollum

Donald Trump hefur stungið upp á því að nota þessa afstemmingu fjárlaga til að ýta útgjaldalækkunum í gegnum þingið með einföldum meirihluta, aðferð sem virkar þar sem repúblikanar eru nú í meirihluta í báðum deildum. Annað áhersluatriði hjá Trump er að treysta á tolla. Rætt er um að leggja til 10% almennan tolla á innflutning og hærri gjöld (allt að 60%) á kínverskar vörur, allt í þeim tilgangi að auka tekjur og bæði vernda og efla innlenda framleiðslu. Áætlanir benda til þess að þetta gæti skilað 2,7 til 4 trilljónum dala á tíu árum. Sá fyrirvari er þó hafður að eftirspurn eftir innflutningi haldist stöðug þrátt fyrir hærra verð. Heldur erfið forsenda í ljósi hugsanlegra viðbragða annarra þjóða og staðgönguáhrifa. Trump setur tolla fram sem tæki til að fjármagna skattalækkanir, en hann hefur talað um að afnema tekjuskatt einstaklinga og draga úr trausti á erlendum vörum, þó að nettóáhrif slíkra aðgerða séu enn til umræðu meðal hagfræðinga. Í raun er erfitt að segja til um hvaða áhrif tollahækkanir hafa að endingu enda dregur Trump úr og í með umfang tollabreytinga. Rétt er þó að taka fram að hann hefur í einhverum tilvikum boðið að fella niður tolla séu aðrar þjóðir til í að fella niður tolla á bandarískar vörur.aaabudget

Vaxa út úr vandanum

Orðræða Trumps gengur út á að endingu vinni aukinn hagvöxtur á auknum halla. Hann er ekki einn um slíka orðræðu. Hér heima á Íslandi tala menn gjarnan um að „vaxa út úr vandanum.“ Þetta er kjarnaröksemd hans, að skattalækkanir og afnám hafta muni að endingu „borga sig“ með því að örva tekjur í blómstrandi hagkerfi. Hann hefur bent á mikilvægi þess að ráðast í „endureinkavæðingu“ hluta hagkerfisins, sem leiðir til að ná þessum vaxtarmarkmiðum. Breytir engu þó að spár frá fyrsta kjörtímabili hans og núverandi greiningar (eins og frá Penn Wharton-fjárhagsáætlunarlíkaninu) bendi til þess að vöxtur einn og sér hafi í gegnum tíðina ekki vegið upp á móti hallaaukningu eins og birtist í stefnu hans. Um þetta deila hagfræðingar og framtíðin ein sker úr um það.