c

Pistlar:

9. mars 2025 kl. 21:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er best að búa í Síerra Leóne?

Glöggt er gest augað og samanburður við erlend lönd getur fært okkur athyglisverð sjónarhorn, frætt okkur um fjarlæg lönd en ekki síður fært okkur nýjan skilning á okkar eigin landi. Stöð 2 hefur undanfarin ár sýnt þáttaröð sem Lóa Pind Aldísardóttir fer fyrir og ber beinskeytt heiti: Hvar er best að búa? Í þáttum sínum heimsækir Lóa Pind Íslendinga í fjarlægum löndum og kynnist daglegu lífi þeirra. Þetta er oft skemmtileg umfjöllun, Lóa er lífleg og dramatísk en blandar auðveldlega geði við fólk og vekur áhuga á viðkomandi landi.leone1

Í 3. þætti af fimmtu seríu af Hvar er best að búa? heimsótti Lóa Pind þau Henry Alexander Henrysson og Regínu Bjarnadóttur sem þá bjuggu ásamt börnum sínum tveimur í einu fátækasta ríki veraldar, Síerra Leóne, nánar tiltekið í höfuðborginni Freetown. Í kynningu þáttarins, sem var sýndur fyrir ári síðan, segir að Regína hafi fengið draumastarfið, sem framkvæmdastjóri Auroru Velgjörðarsjóðs í Síerra Leóne. Regína er þróunarhagfræðingur að mennt og vann áður sem forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Í Síerra Leóne vann hún við fjölmörg verkefni sem snúa að því skapa til útflutningsmarkað og er þannig reynt að skapa raunverulegar tekjur fyrir handverksfólk í landinu og styðja frumkvöðla með öflugum hætti til að stofna og reka fyrirtæki. Sumar af vörunum þaðan hefur mátt finna í Kokku og Epal. Það kom reyndar ekki fram í þættinum að Aur­ora vel­gerðarsjóður var stofnaður að frum­kvæði hjón­anna Ingi­bjarg­ar Kristjáns­dótt­ur lands­lags­arki­tekts og Ólafs Ólafs­son­ar, stjórn­ar­for­manns Sam­skipa, árið 2007. Meg­in­til­gang­ur Aur­oru hefur verið sá að stuðla að og styrkja menn­ing­ar- og góðgerðar­starf­semi á Íslandi og er­lend­is.

Íslenskt og afrískt siðferði

Síerra Leóne er eitt fátækasta land heims með um 1,7 milljón íbúa á landsvæði sem er um þrír fjórðu af flatarmáli Íslands. Samkvæmt nýjustu gögnum frá Alþjóðabankanum og öðrum stofnunum lifir stór hluti þjóðarinnar (yfir 50%) undir fátæktarmörkum. Tekjuójöfnuður er mikill, og atvinnuleysi, sérstaklega meðal ungs fólks, er útbreitt. En hamingjan getur verið afstæði og heimspekingurinn Henry Alexander segir að þó að Ísland sé án efa besta land til að búa í þá séu þau hamingjusamari í Síerra Leóne.

Það er eftirtektarvert að sjá Lóu Pind skipta peningum þar sem seðlabúntin ganga á milli fólks undir augum lögreglunnar. Gjaldmiðillinn, leónið (SLL), hefur glímt við verðbólgu og gengisfall, sem gerir innflutning dýran enda sýnir innkaupaleiðangur furðulegt verðlag þarna í fátæktinni.
Henry Alexander er velþekktur heimspekingur og birtist gjarnan í íslenskum fjölmiðlum þegar þarf að ræða siðferði á Íslandi, sérstaklega hjá hægri mönnum!leone2

Samanburður Síerra Leóne og Íslands verður þó hálfhjákátlegur og þó að litadýrðin sé mikil og fólkið virki oft lífsglatt þá er ofbeldi og spilling allstaðar. Það er ekki á neitt að treysta og yfirleitt þarf að vera með verði með sér og þegar vestrænt fólk er á ferð úti við. Merkilegt var þó að hlusta á samanburð við íslenska skólakerfið sem var furðulegt nokk ekki því íslenska í hag. En auðvitað ganga íslensk börn þarna í sérstaka skóla fyrir erlend börn.

Sjávarútvegsverkefnum aflýst vegna spillingar

Síerra Leóne er þess vegna erfitt land og fyrir tveimur árum var viðtal við Regínu þegar ofbeldisbylgja gekk yfir landið og tilraun var gerð til byltingar. Þá var ekki óhætt að vera úti við. Stjórnarfar er veiklað og spilling og óstjórn viðvarandi, svo mjög að sumir gætu freistast til að segja að landsmönnum sé ekki viðbjargandi. Það á við um ansi mörg Afríkuríki og virðist manni stundum lítið þokast áleiðis í álfunni.

Sjávarútvegsverkefni Aurora-velgjörðarsjóðs í Sierra Leone í Afríku strandaði til dæmis á spillingu eins og kom fram í nýlegri umfjöllun Ríkisútvarpsins. Ráða- og áhrifamenn í landinu vildu fá greitt undir borðið svo verkefni sjóðsins gætu orðið að veruleika sagði Regína og upplýsti um leið að Aurora hafi ekki viljað taka þátt í spillingunni í landinu. Það er hins vegar erfitt eins og þátturinn hennar Lóu Pindar sýndi glögglega því hún er alltumlykjandi í landinu. Þá er rétt að hafa í huga að þó að þarna hafi spilling stöðvað samstarf þá er spilling allt um lykjandi og fólk kemst lítið áleiðis án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Það dugar að flytja til landa eins og Sierra Leone og þá eru viðkomandi farnir að taka þátt í þeim vinnubrögðum sem þar tíðkast, í stóru sem smáu.leone3

Þrælaverslun og nýlendustjórn

Síerra Leóne er í Vestur-Afríku með ríka og flókna sögu sem spannar margar aldir. Áður en Evrópubúar komu til Síerra Leóne bjuggu ýmsar þjóðir og ættbálkar á svæðinu, sem stunduðu landbúnað, veiðar og verslun. Á 15. öld hófu portúgalskir kaupmenn að koma að ströndinni, og landið fékk nafnið „Serra Lyoa“ (Ljónafjöll) vegna fjallahæðanna sem minntu á ljón. Síðar urðu Hollendingar, Frakkar og Bretar virkir í verslun, sérstaklega þrælaverslun, á svæðinu.

Frá 16. til 19. aldar var Síerra Leóne miðpunktur Atlantshafsþrælaverslunarinnar. Milljónir Afríkubúa voru fluttar þaðan til Ameríku. Árið 1787 stofnuðu breskir mannréttindasinnar Freetown sem griðastað fyrir frelsaða þræla, aðallega frá Bretlandi og Ameríku. Þetta varð upphafið að breskri nýlendustjórn. Árið 1808 varð Freetown opinberlega bresk nýlenda og Bretar notuðu svæðið til að stöðva þrælaverslun og endurheimta frelsaða þræla.

Sjálfstæði og erfiðleikar

Þess má geta að rithöfundurinn Graham Greene dvaldi í Síerra Leóne á meðan hann starfaði fyrir bresku leyniþjónustuna í Seinni heimsstyrjöldinni. Hann notaði reynslu sína þaðan sem innblástur í skáldsögunni The Heart of the Matter (1948), sem gerist einmitt í Freetown.

Síerra Leóne fékk sjálfstæði frá Bretlandi 1961 og varð lýðveldi árið 1971 undir forystu Sir Milton Margai. Erfitt er að segja að betra hafi tekið við eftir sjálfstæðið en þá glímdu landsmenn við pólitískan óstöðugleika, spillingu og efnahagslega erfiðleika. Árið 1991 braust út borgarastyrjöld sem stóð til 2002. Stríðið, sem einkenndist af grimmd og notkun barnahermanna, var knúið áfram af átökum um demantaauðlindir (oft kallaðir „blóðdemantar“). Yfir 50.000 manns létust og milljónir flýðu.

Eftir stríð og nútíminn

Eftir borgarastyrjöldina hefur Síerra Leóne unnið að endurreisn með stuðningi alþjóðasamfélagsins, þar á meðal Sameinuðu þjóðanna. Landið hefur haldið lýðræðislegar kosningar og reynt að bæta innviði og efnahag. Hins vegar glímir það enn við fátækt, heilbrigðisvandamál (eins og Ebola-faraldurinn 2014-2016) og endalausa spillingu. Meirihluti íbúa (um 60-70%) lifir af landbúnaði, aðallega sjálfsþurftarlandbúnaði. Helstu nytjajurtir eru hrísgrjón, kassava, kakó, kaffi og pálmaolía. Kakó og kaffi eru einnig flutt út, en framleiðslan er oft takmörkuð af skorti á nútímalegum búnaði og innviðum
Síerra Leóne er ríkt demöntum, gulli, járngrýti og bauxíti.

Demantar eru enn mikilvægur hluti útflutnings, þótt landið hafi unnið að því að draga úr ólöglegri námuvinnslu í kjölfar og „blóðdemanta“-vandamálsins frá borgarastyrjaldartímanum. Námuvinnsla stendur undir stórum hluta gjaldeyristekna, en geirinn er viðkvæmur fyrir sveiflum á heimsmarkaði.