c

Pistlar:

11. mars 2025 kl. 10:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ræður lögreglan við ástandið?

Um 70% þeirra sem sitja í gæsluvarðhaldi hér á landi eru af erlendu bergi brotnir. Þegar dagskrá dómstóla er skoðuð sést að erlend nöfn eru furðu algeng í ljósi þess að þrátt fyrir allt eru ekki nema um 20% landsmanna fæddir erlendis. Með því að benda á þetta er ekki verið að segja að Íslendingar brjóti ekki lög eða fremji glæpi. Þetta þýðir það einfaldlega að þjóðerni þeirra sem fremja glæpi hér á landi er að breytast og það hefur um leið í för með sér allt aðra tegund glæpa, annað viðhorf til yfirvalda og þó sérstaklega lögreglunnar. Vinnuskilyrði og ástandið innan lögreglunnar segja okkur margt um ástandið í hinum íslenska afbrotaheimi.eggert

Þetta kom ágætlega fram í spjalli við Fjöln­i Sæ­munds­son, formann Lands­sam­bands lög­reglu­manna, í Dagmálum Morgunblaðsins í gær. Þar sagði Fjölnir að hót­an­ir í garð lög­reglu­manna hefðu færst í vöxt síðustu ár. Skemmd­ir hafa verið unn­ar á bif­reiðum þeirra og eitt grófasta dæmið er þegar kveikt var í bíl lög­reglu­konu fyr­ir utan fjöl­býl­is­hús sem hún býr í. Fjölnir sagði þessa þróun eiga sér stað á öll­um Norður­lönd­un­um. Um leið beinist kastljósið að getu lögreglunnar til að vernda borgara landsins fyrir skipulegum glæpasamtökum.

Fjöln­ir var gest­ur Eggerts Skúlasonar, eins umsjónarmanna Dag­mála, og ræddi þann veru­leika sem lög­reglu­menn búa við í harðnandi heimi. „Fyrsta hót­un­in þegar verið er að hóta mér sem lög­reglu­manni er að hóta börn­un­um mín­um eða fjöl­skyld­unni. Það er hót­un­in sem fer inn þó að maður þyk­ist vera harður. Ég segi oft að það er ekk­ert mál að hóta mér, en ég er varn­ar­laus­ari þegar fjöl­skyldu minni, börn­um eða barna­börn­um er hótað,“ upp­lýs­ir Fjöln­ir í viðtal­inu. Auðvitað rekur fólk í rogastans þegar hlustað er á svona ummæli frá manni í stöðu Fjölnis.

Fá lög­reglu­menn á heil­ann

Það er ekki nýtt af nál­inni að lög­reglu­mönn­um sé hótað en í viðtalinu kom fram að þessar hótanir eru orðnar viðvarandi vandamál. Áður fyrr var það frek­ar í formi þess að ein­stak­ling­ur var með stór­yrði þegar hon­um var stungið í fanga­klefa og var svo gjarn­an beðist af­sök­un­ar á um­mæl­un­um dag­inn eft­ir og því borið við að viðkom­andi hefði verið full­ur. Fjöln­ir segir þessar hót­an­ir ann­ars eðlis og al­geng­ari í dag. „Þetta er að ger­ast í dag. Þetta er mikið að ger­ast á net­inu og það er fólk sem fær lög­reglu­menn á heil­ann. Ég veit að sum­ir þeirra hafa verið framar­lega í mót­mæl­un­um. Þar er fólk búið að fá þá á heil­ann og er að ofsækja þá á In­ter­net­inu og senda á þá óhróður og senda þeim hót­un­ar­bréf.“

Fjöln­ir grein­ir frá því í viðtal­inu við Eggert að sveit þeirra lög­reglu­manna sem er kölluð út þegar mót­mæli eru telji níu manns. Liðsauki er svo kallaður til úr öðrum deild­um. Fjöln­ir bend­ir á að fólk sem hef­ur fengið lög­reglu­menn á heil­ann hef­ur fengið dóma fyr­ir hót­an­ir. Hann nefn­ir sem dæmi að Íslend­ing­ur sem nú sit­ur í fang­elsi grunaður um morð hafi fengið dóm fyr­ir að ofsækja lög­reglu­kon­ur.lögreglan

Ekki innantómar hótanir

Þetta séu því ekki allt innatómar hótanir drukkinna manna. „Svo erum við kom­in með ein­stak­linga sem þú trú­ir að fram­kvæmi hót­an­ir,“ segir Fjölnir og bætir við. „Í þeim mál­um þar sem bíl­ar lög­reglu­manna hafa verið skemmd­ir þá vit­um við að það kem­ur bara fólk frá öðru landi, frá Svíþjóð. Kem­ur hérna inn og skemm­ir eitt­hvað og er svo bara farið aft­ur. Þannig að við erum að fást við glæpa­sam­tök líka,“ upp­lýs­ir Fjöln­ir.

Flestir þekkja þær ofsóknir og líflátshótanir sem Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari þurfti að líða frá Mohamad Kourani árum sam­an. Kourani hef­ur tví­veg­is hlotið dóm fyr­ir hót­an­ir í garð Helga. Á tíu daga tíma­bili í janú­ar árið 2021 sendi hann Helga sex tölvu­pósta með líf­láts­hót­un­um í garð hans og í sum­um til­vik­um einnig fjöl­skyldu hans. Seinna hótaði hann Helga ít­rekað líf­láti í af­greiðslu­rými rík­is­sak­sókn­ara. Fólk undrar sig á svona atburðum en hvað er gert af hálfu yfirvalda?

Sænska ástandið breiðist út

Eins sérkennilegt og það er þá er nú í afbrotafræðum talað um hið „sænska ástand“ og er þá verið að vísa til ástands­ins í Svíþjóð þar sem gengja­stríð, spreng­ing­ar og skotárás­ir eru nán­ast orðið dag­legt brauð. Um þetta hefur margoft verið fjallað í pistlum hér. Þetta ástand hef­ur breiðst út til Norðurland­anna og Ísland virðist stefna í sömu átt. Fjöln­ir nefn­ir sem dæmi í viðtalinu að hann hafi heyrt frá konu sem ætlaði að leita til manns í ís­lensku und­ir­heim­un­um til að taka á máli sem hún var að glíma við. Að sögn Fjöln­is ræddi hún við mann sem hef­ur verið álit­inn áhrifa­mik­ill á þessu sviði. Hann sagðist ekki hafa nein völd leng­ur og benti henni á að hún yrði að tala við ein­hverja Alb­ana. Hann gæti ekki gert neitt leng­ur. Sumum finnst spaugilegt að búið sé að afvopna íslenskar glæpaklíkur en þetta er staðreynd eins og sást í hinni sérkennilegu atburðarás í Rauðagerðismálinu svokallaða þegar Armando Beqirai var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í febrúar 2021.bangsaknúsHér fylgir með mynd af lögreglunni bjóða upp á bangsaknús!

Erlendar glæpaklíkur taka yfir

Fylgifiskur þess þegar glæpaklíkur ná völdum er að allir verða að lokum að sitja og standa eins og þeim líkar. Þannig heyrast frásagnir af því að morðingi Armando Beqirai hafi trausta stöðu í fangelsinu, nokkurn veginn allir verði að sitja og standa eins og honum hentar. Það kemur til af því að glæpaklíka hans ræður öllu fyrir utan fangelsið. Þetta er umhverfi sem við þekkjum vel úr heimi glæpamynda. Áhrif glæpaklíkunnar eru jafn mikil innan og utan fangelsisveggjanna. Þetta er ástand sem virðist vera komið hingað.

Fyrir um það bil 15 árum lögðu íslensk yfirvöld talsvert á sig við að hindra að erlend mótorhjólasamtök næðu fótfestu hér. „Ekkert land þar sem klúbbur hefur fengið fulla aðild hefur náð að losna við samtökin aftur,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum og núverandi ríkislögreglustjóri, við fjölmiðla á þeim tíma. Sagði hún að lögregluyfirvöld myndu leita allra löglegra leiða til að hindra inngöngu MC Iceland í Hells Angels-samtökin. Það tókst en síðan virðast yfirvöld hafa sofnað á verðinum gagnvart öðrum vágestum.