c

Pistlar:

17. mars 2025 kl. 16:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Burðardýrin tekin en höfuðpaurarnir sleppa

Sumt er kannski of augljóst til að það þurfi að ræða það. Þegar tvær konur fengu fyrir stuttu þunga dóma fyrir fíkniefnainnflutning duldist engum að þær störfuðu ekki einar. Þær voru „burðadýr“, voru gripnar og hlutu sinn dóm. Þeir sem standa á bak við þær sleppa einu sinni sem oftar og í fréttum þykir ekki taka því að nefna það. Konurnar standa einar frammi fyrir dómaranum og fá sína refsingu en á meðan er verið að skipuleggja nýjar ferðir burðadýra. Til að ná höfuðpaurunum þarf að leggja í mikla og flókna rannsóknarvinnu og burðardýrin steinþegja enda liggur líf þeirra við. Samfélagið virðist smám saman verða ónæmt fyrir þessari réttlætisskekkju.aalögregla

Vikuritið Heimildin gerði það að umfjöllunarefni fyrir tæpum tveimur árum að þá hafði það gerst á tveggja mán­aða tíma­bili að átta burð­ar­dýr voru stöðv­uð á Kefla­vík­ur­flug­velli með fíkni­efni, allt útlendingar. Í sex til­fell­um gerði fólk­ið til­raun til að smygla kókaíni hing­að til lands. Öll nema eitt voru með hreint saka­vott­orð. Sam­an­lagt var fólk­ið sem um ræð­ir dæmt í ríf­lega sjö og hálfs árs fang­elsi eins og sagði í frétt Heimildarinnar. Í fréttinni var haft eftir Kolbrúnu Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara að ekki væri óalgengt að það komi hrinur af fíkniefnainnflutningsmálum á vorin og í byrjun sumars.

Allt segir þetta okkur að það er einfaldlega stöðugur straumur burðardýra inn í landið, sum eru tekin en önnur ekki. Enginn skortur virðist vera á fíkniefnum í landinu þannig að þó að einstaka burðardýr séu stöðvuð heldur streymið inn í landið áfram. Það má líka gefa sér að glæpaklíkurnar sem standa á bak við þetta séu til þess að gera ónæmar fyrir því að eitt og eitt burðardýr sé tekið.

Við vitum ekki mikið um skipulega brotastarfsemi, það er helst að við fáum eitthvað í tilfallandi ummælum lögregluþjóna eins og vitnað var til hér í grein fyrir stuttu, frekar en að úttektir séu gerðar á þessu. Þó er það svo að nokk­ur hundruð ein­stak­ling­ar tengj­ast skipu­lagðri brot­a­starf­semi á Íslandi með ein­um eða öðrum hætti. Þetta kom fram í skýrslu grein­ing­ar­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra frá ár­inu 2021 um skipu­lagða brot­a­starf­semi hér á landi. Gera má ráð fyr­ir að nú, fjórum árum síðar, sé þessi hóp­ur orðinn enn stærri. Það er margt sem bendir til þess að nauðsynlegt sé að uppfæra þessa skýrslu.aalogga

Hvað hefur breyst í íslenska glæpasamfélaginu?

En hvað hefur breyst í íslensku glæpasamfélagi? Hvað stýrir þróuninni og hvaða áhrif hefur það á samfélag okkar? Erum við að sjá raunverulegar breytingar í glæpasamfélaginu sem getur haft áhrif á samfélagsgerðina og þjóðfélagsþróunina? Það fór ekki hátt þegar rafbyssur voru leyfðar fyrir tveimur árum að undirrót þess var að lögreglan var að glíma við harðsvíraðri glæpamenn en áður, menn sem höfðu oft hlotið herþjálfun í heimalandi sínu áður en þeir komu til Íslands til að starfa sem glæpamenn. Íslenska lögreglan var ekki undirbúin undir þetta en hún var þá meðal annars upptekin við að auka hlutfall kvenna innan lögreglunnar. Lögreglan taldi sig vanmáttuga til að fást við aukna hörku og rafbyssurnar voru tilraun til að bæta stöðu lögreglunnar.

„Þessi ákvörðun er fyrst og fremst tekin á grundvelli þess að auka á öryggi lögreglumanna. Það er fullt tilefni til, virðulegur forseti. Staðan í þeirra störfum hefur orðið miklu alvarlegri á undanförnum fáum árum heldur en hún var fyrir nokkrum árum og afleiðingarnar eru augljósar. Það er mikið meira um slys á lögreglumönnum og meira um óhöpp gagnvart þeim sem þeir eru eiga við þar sem menn lenda í líkamlegum átökum,“ sagði Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra, þegar rafbyssurnar voru ræddar á Alþingi. Það má rifja upp að þingmenn Pírata voru mjög á móti rafbyssuvæðingu og yfirleitt öllu sem getur styrkt stöðu lögreglunnar í baráttu við skipulega glæpastarfsemi. Hugsanlega skýrir það af hverju kjósendur höfnuðu þeim í síðustu kosningum.aadrug

Þarf verulega fjölgun lögregluþjóna?

Það þarf ekki að taka fram að kostnaður samfélagsins af glæpum er mikill en nú stendur fyrir dyrum að reisa nýtt fangelsi sem kostar um 15 milljarða króna. Rekstrarkostnaður refsivörslukerfisins hefur aukist umtalsvert. Um leið þarf að fjölga lögregluþjónum verulega.

„Það þarf nátt­úru­lega að fjölga þeim miklu meira. Það þarf að fjölga lög­reglu­mönn­um á Íslandi um svona tvö hundruð, ef vel á að vera,“ seg­ir Fjöln­ir Sæ­munds­son, formaður Lands­sam­bands lög­reglu­manna, í Dag­mál­um Morgunblaðsins fyrir stuttu. Fjölnir var þar að svara spurn­ing­unni hvað þurfi að fjölga lög­regluþjón­um mikið. Hann er einnig spurður hvort að fjölgunin yrði að ger­ast strax?

„Já. Það þyrftu að vera tvö hundruð fleiri lög­reglu­menn á Íslandi. Þú trygg­ir ör­yggi lög­reglu­manna með fjöld­an­um. Ef það koma fjór­ir á vett­vang, í eitt­hvað þá er miklu minni hætta á að eitt­hvað komi fyr­ir. Þegar ég kem einn á vett­vang þá hef ég ekki stjórn á aðstæðum. Ég hef al­veg lent í því að þurfa að koma einn á vett­vang. Svo verð ég bara að bakka út," sagði Fjöln­ir í viðtalinu. Þetta er hinn nýi veruleiki, smápeðin eru handsömuð, glæpaklíkurnar eflast og lögreglan upplifir sig vanmáttuga.