Margt í mannfjöldaþróun mun breyta Evrópu hratt á næstu áratugum. Sumt af því verður framhald á þeim breytingum sem hafa átt sér stað síðustu áratugina en nokkrir þættir standa upp úr. Fæðingartíðni hefur fallið hratt en um leið hefur innstreymi fólks annars staðar frá aukist. Fæðingartíðni meðal innflytjenda er há og það, ásamt meiri innflutningi fólks, mun hafa mest áhrif á þróun samfélaga. Innan Evrópu verður þróunin hins vegar nokkuð ólík ef fer sem horfir en lönd Austur-Evrópu taka við mjög fáum innflytjendum og munu því verða allt öðruvísi samansett en lönd Vestur-Evrópu þegar fram líða stundir og eru það reyndar nú þegar. Munurinn verður þó enn meira áberandi í framtíðinni.
Eitt af því sem margir velta fyrir sér er hvernig þjóðfélagsgerðin breytist. Hvert verður hlutfall fólks á vinnandi aldri í samanburði við þá sem eru komnir út af vinnumarkaði? Einnig hvernig samsetning vinnuafls verður en þó ekki síst hvernig trúarleg staða mun breytast. Við höfum fá dæmi í mannkynssögunni þar sem trúskipti ganga friðsamlega fyrir sig. Hugsanlega eru íslensku trúskiptin á Þingvöllum árið 1000 eina dæmið.
Íslam næst fjölmennasti trúarhópurinn
Hlutfall múslíma hækkar hratt í einstökum löndum Evrópu eins og hefur verið vikið að hér í pistlum. Í dag er íslam næstfjölmennasti trúarhópurinn, næst á eftir kristni. Hvaða áhrif mun það hafa þegar hlutfall þeirra verður enn hærra, jafnvel að fjórðungur landsmanna verði íslamstrúar? Munu slík skipti ganga friðsamlega fyrir sig og verða samskipti milli ólíkra trúarhópa friðsamleg í framhaldi breytinganna? Höfum við eitthvað í sögunni sem bendir til þess?
Frakkland er eitt þeirra landa þar sem múslímum hefur fjölgað hvað hraðast. Opinberar tölur um trúarlega samsetningu í Frakklandi eru takmarkaðar vegna laga um aðskilnað ríkis og trúar (laïcité), sem banna söfnun slíkra upplýsinga í manntölum. Hins vegar hefur Pew Research Center gefið út ítarlegar spár sem eru oft notaðar sem viðmið.
Í dag hefur Frakkland hæsta hlutfall múslímskra íbúa í Vestur-Evrópu. Talið er að hlutfall múslíma í Frakklandi núna, árið 2025, sé líklega á bilinu 10-12%, en nákvæm tala er óviss vegna skorts á opinberum og uppfærðum tölum. Þetta háa hlutfall kemur aðallega til vegna sögulegs innflutnings frá Norður-Afríku (Alsír, Marokkó, Túnis) og annarra múslímskra landa sem heyrðu undir franska heimsveldið. Þar má hafa í huga að Alsír var hluti Frakklands á sínum tíma en ekki nýlenda. Því voru íbúar Alsír franskir ríkisborgarar utan þess að í Alsír var rekin harðvítug aðskilnaðarstefna sem varð undirrótin að því borgarastríði sem þar braust út.
Samkvæmt Pew Research Center var hlutfall múslíma í Frakklandi áætlað um 8,8% árið 2016 (u.þ.b. 5,7 milljónir af 64,9 milljónum íbúa). Þetta byggir á gögnum um innflytjendur, fæðingartíðni og trúarlega afstöðu. Aðeins í Búlgaríu var hærra hlutfall múslíma, 11,1%.
En hvaða þættir skyldu hafa mest áhrif á þróunina? Ef fæðingartíðni er skoðuð þá sést að meðal múslíma í Frakklandi er hærri frjósemi en meðaltal þjóðarinnar. Meðan heildarfrjósemishlutfall (TFR) í Frakklandi er um 1,8 börn á konu, er TFR meðal múslíma oft áætlað á bilinu 2,5–3,0, þótt það lækki smám saman með kynslóðunum.
Þá hefur innflutningur frá múslímskum löndum verið umtalsverður, þótt stjórnvöld hafi hert stefnu síðustu ár. Stefnan þar fer eftir pólitískum ákvörðunum og alþjóðlegum straumum en almennt má segja að stjórnvöld í Vestur-Evrópu séu að herðast í landamæra- og innflytjendastefnu sinni. Þannig má segja að þau færist nær því sem er í Austur-Evrópu þar sem löndin hafa nálgast innflytjendamálin allt öðruvísi en löndin í Vestur-Evrópu.
Þrjár sviðsmyndir í Frakklandi
En hvað getum við sagt af vissu um þróun næstu áratuga? Franska hagstofan (INSEE) spáir því að heildarmannfjöldi Frakklands verði um 68 til 70 milljónir árið 2050, en sú spá tekur ekki beint tillit til trúarlegs samsetningar. Þar verðum við aftur að leita til Pew Research sem gaf út spá árið 2017 um vöxt múslíma í Evrópu fram til 2050, byggða á þremur sviðsmyndum:
Enginn frekari innflutningur: Ef innflytjendaflæði stöðvast, en fæðingartíðni og núverandi þróun haldast, gæti hlutfall múslíma orðið 12,7% (u.þ.b. 8,6 milljónir) árið 2050.
Miðlungs innflutningur: Með núverandi innflytjendamynstri (svipað og undanfarin ár) gæti hlutfallið náð 17,4% (u.þ.b. 11,8 milljónir) árið 2050.
Hár innflutningur: Ef innflutningur eykst verulega, gæti hlutfallið farið upp í 18% (u.þ.b. 12,7 milljónir).
Pew Research segir að miðlungssviðsmyndin (17,4%) sé raunhæfust miðað við þróun síðustu ára, þar sem innflytjendastefna Frakklands hefur sveiflast milli opnunar og takmarkana.
Miðað við núverandi mannfjölda- og íbúaþróun, og byggt á miðlungssviðsmynd Pew, er líklegt að hlutfall múslíma í Frakklandi árið 2050 verði nálægt 17 til 18% landsmanna. Þetta gæti þýtt 11,5–12,5 milljónir múslíma af áætluðum 68–70 milljónum íbúa. Hærri tölur (t.d. 20%+) sem stundum sjást á samfélagsmiðlum virðast ýktar miðað við gögn og varfærnar spár.
Óvissuþættir eins og framtíðarstefna í innflytjendamálum, fæðingartíðni og félagsleg aðlögun geta þó haft áhrif á endanlega niðurstöðu. Nú þegar upplifa frönsk yfirvöld mikla erfiðleika tengda innflytjendum eins og kom hér fram í umfjöllun um Marselle.