c

Pistlar:

27. mars 2025 kl. 19:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Afkristnun Miðausturlanda

Staða kristinna manna í Sýrlandi er mjög erfið og flókin en eftir fall Bashar al-Assad-stjórnarinnar í desember 2024 og valdatöku uppreisnarhópa, þar á meðal Hayat Tahrir al-Sham (HTS) undir stjórn Ahmed al-Sharaa, hefur óvissa aukist um örlög minnihlutahópa, þar á meðal kristinna. Víða um Miðausturlönd má sjá hlutfall kristinna manna fara lækkandi.

Til dæmis voru kristnir um 20% af íbúum Tyrklands árið 1910 en ekki nema 0,8% árið 1980 og eru núna ekki nema 0,2%. Staðan í Líbanon er mest sláandi en kristnir voru 78% íbúa rétt fyrir heimsstyrjöldina fyrri en eru nú 25%. Loks voru 17% Sýrlendinga kristnir árið 1910 en eru í dag rétt innan við 1%. Við getum sagt að trúarleg skautun sé í eina átt, kristnum fækkar í múslímskum löndum en múslimum fjölgar hratt í kristnum löndum.aaaleppo

Hér til hliðar má sjá mynd af dómkirkjunni í St. Elía í Aleppo sem var eyðilögð í Sýrlandsstríðinu. Áður en borgarastyrjöldin hófst árið 2011 voru kristnir um 10% af íbúum Sýrlands, en sú tala hefur hrunið vegna flótta og átaka og í dag er talið að aðeins um 1-2% þjóðarinnar séu kristin. Undir Assad-stjórninni nutu kristnir ákveðinnar verndar, þótt hún væri oft háð pólitískum hagsmunum frekar en raunverulegri hollustu við trúfrelsi. Með valdatöku HTS, sem eru íslamistasamtök með rætur í öfgahreyfingum eins og al-Kaída, hefur ótti aukist um að trúarlegir minnihlutahópar, eins og kristnir, verði fyrir auknu ofbeldi og mismunun.

Allt frá því í desember síðastliðnum hafa fregnir borist af ofbeldisverkum gegn kristnum samfélögum, sérstaklega í vesturhluta landsins eins og Latakia- og Tartushéruðum, þar sem Alavíta-uppreisnarmenn og öryggissveitir nýju stjórnarinnar hafa átt í átökum. Sumar heimildir, þar á meðal færslur á samfélagsmiðlum, tala um fjöldaaftökur og þjóðernishreinsanir, en þessar fullyrðingar eru enn óstaðfestar af óháðum aðilum. Mannréttindasamtök eins og Syrian Observatory for Human Rights (SOHR) hafa þó greint frá aukinni ógn gegn minnihlutahópum, þar á meðal kristnum, og bent á að nýja stjórnin hafi ekki sýnt skýra skuldbindingu við að vernda trúfrelsi.

Þögn alþjóðasamtaka um ógnir gegn kristnum

Ahmed al-Sharaa, núverandi leiðtogi í bráðabirgðastjórn Sýrlands, hefur lofað að kristnir og aðrir minnihlutahópar fái að iðka trú sína án afskipta, en margir efast um þessi loforð vegna fyrri tengsla HTS við öfgahreyfingar. Að auki hefur notkun Tawhid-fána, sem tengist íslamskri baráttu, vakið áhyggjur af því að nýja stjórnin gæti stefnt að minna veraldlegu ríki en áður stóðu vonir til.

Kristnir íbúar í borgum eins og Damaskus hafa mótmælt, til dæmis vegna brennslu jólatrjáa í norðurhluta landsins, og krafist verndar réttinda sinna. Á sama tíma benda sumir til þess að staða kristinna sé verst á svæðum þar sem átök eru enn í gangi, og flóttamannabúðir eins og Al-Hol, þar sem öfgahugmyndir blómstra, auka enn á ógnina. Alþjóðasamfélagið, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, hefur verið gagnrýnt fyrir þögn sína um þessi mál, og fáar staðfestar tölur liggja fyrir um fjölda kristinna sem hafa orðið fyrir beinum árásum frá áramótum.

Í stuttu máli er staða kristinna í Sýrlandi núna mjög brothætt, einkennist af óvissu, auknum ótta við ofsóknir og skorti á skýrum upplýsingum.AleppoChristmas2_0

Kirkja við kirkju í Aleppo

Magnús Þorkell Bernhardsson prófessor rekur þessa þróun með ágætum í bók sinni um Miðausturlönd sem kom út árið 2018. Þar skrifar hann: „Vorið 1993 heimsótti ég sýrlenskan vin minn í Aleppo, stærstu borg Sýrlands, sem er í norðurhluta landsins. Hann tilheyrði sýrlensku rétttrúnaðarkirkjunni og þegar hann vakti mig á sunnudagsmorgni tilkynnti hann mér að við ætluðum á rúntinn. Þessi fyrirhugaði rúntur var ekki pöbbarölt heldur kirkjurölt. Vinurinn vildi endilega sýna mér hinar ólíku kirkjur og söfnuði í Aleppo. Á tveimur tímum þennan morgun fórum við úr einni messu í aðra og stoppuðum svo sem tíu til fimmtán mínútur á hverjum stað. Hver söfnuður var með mjög sérstöku sniði. Sums staðar voru kirkjurnar ríkulega skreyttar helgimyndum og stórum gylltum ljósakrónum. Annars staðar var nánast ekkert á veggjunum en í staðinn lagt mikið upp úr ræðupúltinu. Ólík tungumál voru notuð í helgihaldinu. Við heyrðum arabísku, latínu, grísku, arameísku og armensku. Stundum voru kynin aðskilin og konurnar voru með svört sjöl en annars staðar var engin aðgreining og fólk klæddist litríkum fötum. Nokkrir af þessum söfnuðum höfðu starfað þarna í næstum 2000 ár eða frá fyrstu öldum kristni. Sennilega voru þeir meðal elstu safnaða heims og eins nálægt frumkristni og hægt er að ímynda sér. Við gengum sennilega ekki nema kílómetra, ef til vill svipaða vegalengd og frá Alþingishúsinu upp að Hallgrímskirkju. Á þessum tiltölulega litla reit var því fjölbreytileikinn gífurlegur og gróskan töluverð. Svona hafði verið umhorfs á sunnudagsmorgnum í Aleppo í aldanna rás.“ (bls.321)aleppo

Ofsóknir gegn kristnum í Írak

Nú segir Magnús að öldin sé önnur. Þegar hann skrifar bók sína höfðu flestir meðlimir safnaðanna flúið land eða látið lífið í borgarastyrjöldinni. Margar kirknanna höfðu verið eyðilagðar og heyrðu sögunni til. Það er ekki bara í Sýrlandi sem þessi eyðilegging hefur átt sér stað. Í Mosul í norðurhluta Íraks voru til dæmis skráðar þrjátíu kirkjur árið 2000. Eftir að hið svokallaða Íslamska ríki (ISIS, Da’esh) náði völdum í borginni réðust liðsmenn samtakanna á allar kirkjur bæjarins. Þeir fóru ránshendi um allt sem þeir töldu verðmætt og ofsóttu og myrtu kristna Íraka, segir Magnús.

„Stór hluti hinna kristnu íbúa Mosul sá ekki annað fært í stöðunni en að flýja. Eins og í Aleppo eru sárafáir kristnir eftir í Mosul en þeir hafa þraukað í aldanna rás allt sem hefur dunið yfir þetta svæði,“ skrifar Magnús og bendir á að ástandið sé orðið svo slæmt að eftir 1800 ár séu kristnir Írakar að flýja. „Getur verið að staðan sé verri nú en þegar Genghis Khan réðist inn í Mosul?“ spyr Magnús (bls.322).

Magnús segir að margvíslegar ástæður séu fyrir því að tala kristinna Miðausturlandabúa fari smám saman lækkandi. Í fyrsta lagi eru náttúrulegar aðstæður þar sem kristnir hafa eignast hlutfallslega færri börn á síðastliðnum fimmtíu árum. Í mörgum löndum, til dæmis Egyptalandi og í Írak, hafa kristnu íbúarnir oftast tilheyrt millistéttinni sem eignast yfirleitt færri börn en þeir sem eru í lægri þrepum samfélagsins. Í öðru lagi hafa nauðungaflutningar á kristnu fólki átt sér stað. Dæmi um það eru flutningarnir á Grikkjum frá Tyrklandi til Grikklands við lok heimsstyrjaldarinnar fyrri. Í þriðja lagi hafa stríðin og hið óstöðuga ástand síðastliðna áratugi bitnað á stöðu hinna kristnu og því hafa margir hugsað sér til hreyfings.

Að lokum hefur uppgangur róttækra jihadista á svæðinu gert það að verkum að kristnir sjá margir hverjir ekki mikla framtíð fyrir sér í Miðausturlöndum. Þeir hafa orðið vitni að árásum á kirkjur og kirkjugarða. Því finnst þeim þeir ekki eiga nema einn valkost í stöðunni og það er að yfirgefa svæðið.