Mestöll samskipti við fólk af erlendum uppruna eru góð og ánægjuleg, rétt eins og á við um mannleg samskipti svona almennt. Líklega er það svo að flestir hafa einhver fjölskyldutengsl við fólk sem hingað hefur flutt og stór hópur Íslendinga á erlent ætterni ef farið er aftur í ættir og stundum þarf ekki að fara langt aftur. Lengst af voru þessi tengsl helst við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Fjölmargir Íslendingar hafa komið hingað vegna ættleiðingar og eiga hér sína fjölskyldu óháð blóðforeldrum. Allt eru þetta mikilvægar stoðir í íslensku samfélagi og móta það í dag, nú þegar um 20% landsmanna eru taldir af erlendum uppruna.
Heimurinn með sínum ferðalögum og samskiptum ýtir frekar undir tilflutning fólks milli landa og sum lönd gera ýmislegt til að laða til sín verðmætt erlent vinnuafl. Gott ef frjáls för vinnuafls var ekki ein af grunnstoðum fjórfrelsis Evrópusambandsins. Erlent vinnuafl leggur mikið til íslensks atvinnulífs og hagvaxtar. En því fylgja einnig ýmsar áskoranir. Sumir koma og vinna tarnavinnu og eiga fjölskyldu sína erlendis en aðrir ákveða að sækjast eftir því að verða íslenskir ríkisborgarar. Öllu þessu fylgir rót og áskoranir á stofnanakerfi landsins.
120 milljónir á flótta?
Síðasta árlega skýrsla Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) „Global Trends“, sem nær yfir árið 2022, greindi frá því að 108,4 milljónir manna voru á flótta vegna stríðs, ofsókna, ofbeldis og mannréttindabrota. Áætlað var að þessi tala hafi hækkað í um 110 milljónir í maí 2023 vegna nýrra átaka, sérstaklega í Súdan.
Frá þeim tíma hafa átök og kreppur, eins og í Úkraínu, Gaza, og öðrum svæðum, líklega hækkað þessa tölu enn frekar en UNHCR gefur út uppfærðar tölur árlega, oft um miðjan júní, svo nýrri upplýsingar fyrir 2024 og byrjun 2025 gætu orðið aðgengilegar síðar á þessu ári. Hvað varðar fjölda flóttamanna í dag, þá er öruggt að segja að talan er komin vel yfir 110 milljónir, mögulega nálægt 120 milljónum, miðað við áframhaldandi átök og hamfarir á heimsvísu.
Heimur á faraldsfæti
Augljóslega er því gríðarlegur fjöldi fólks á faraldsfæti eins og áður hefur verið fjallað um hér í pistlum. Því er það svo að flest þau kerfi sem hafa verið reist utan um aðstoð og meðhöndlun fólks á hreyfingu eru sprungin. Skiptir engu hvort það eru hin stóru alþjóðlegu samtök sem hreinlega eru stofnuð utan um flóttamannaaðstoð eða móttökur hinna einstöku landa. Flutningur fólks gerist einfaldlega mjög hratt núna.
Undanfarin ár hafa verið mjög erfið þegar kemur að móttöku flóttafólks hér á landi. Á árunum 2022 og 2023 samsvaraði fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd um 1,5 og 1,4 prósent af íbúum fæddum á Íslandi, þar með talið innflytjendum af annarri kynslóð en þessi hópur telur um 300.000 manns. Hærri er nú talan ekki og minnir á hve óskaplega fáir Íslendingar í raun eru. Þessar prósentutölur samsvara því að um ein milljón manna hefði sótt um hælisvist í Þýskalandi hvort árið. Móttaka flóttafólks er farin að móta þýsk stjórnmál en hér eru enn samtök sem beinlínis ástunda að sækja fólk til Íslands til að auka á vandann.
Á síðasta ári, þegar straumur hælisleitenda var mikill, hófu stjórnvöld í ýmsum Evrópuríkjum að loka landamærum sínum tímabundið þrátt fyrir að það stangaðist á við alþjóðlegar skuldbindingar þeirra. Pólland og Finnland samþykktu á síðasta ári lög sem heimiluðu landamæravörðum að neita hælisleitendum um landvist. Fleiri lög eru að íhuga það sama. Ríkisstjórn Suður-Afríku hefur einnig hugleitt að segja sig úr flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna til að ná betri tökum á þessum málaflokki. Hér á Íslandi hefur gengið furðu hægt að smíða löggjöf sem dugar til að stemma stigu við þessari þróun.
Hælisleitendakerfið hrunið
Í nýlegri grein í tímaritinu Foreign Affairs bendir Amy Pope, yfirmaður Fólksflutningastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UN International Organization for Migration), á að alþjóðlega hælisleitendakerfið sé hrunið. Fólk í atvinnuleit í þróunarríkjum noti þetta kerfi til að komast inn á vinnumarkað í iðnríkjunum þar sem aðrar leiðir eru ekki í boði. Alþjóðlegar reglur um sjálfkrafa rétt hælisleitenda til dvalar- og atvinnuleyfis, húsnæðis, menntunar, heilsugæslu og annarra hlunninda hafa skapað hvata fyrir hraðan vöxt slíkra fólksflutninga. Nú virðist hins vegar sem þolmörkum sé náð hjá mörgum Evrópuríkjum, benti Kristinn Sv. Helgason í aðsendri grein í Morgunblaðinu fyrir stuttu. Hann er með doktorsgráðu auk meistaragráðu í bæði opinberri stjórnsýslu og rekstrarhagfræði og hefur starfað víða erlendis á síðustu áratugum.
Kristinn rekur að í greininni í Foreign Affairs bendi yfirmaður ofangreindrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna á að rannsóknir sýni að nánast allir þeir sem sæki um hæli séu að flýja fátækt og smygl á fólki blómstri í þessum fólksflutningum. Ein skrifstofa Sameinuðu þjóðanna (e. UN Office for Drugs and Crime) áætlar að þremur milljónum manna sé árlega smyglað í þessum tilgangi og að erlendir glæpahringir fái tugi milljarða bandaríkjadala fyrir að reka slíka starfsemi. Í mörgum tilvikum séu viðkomandi einstaklingar sendir af fjölskyldum sínum eða nærsamfélagi til að afla tekna sem síðan séu sendar til baka að töluverðu leyti. Þetta eru ekki ný tíðindi en alþjóðlegar stofnanir hafa verið tregar til að viðurkenna þetta, segir Kristinn. Við Íslendingar virðumst furðu lítið á varðbergi gagnvart þessum þætti hælisleitendakerfisins.
Hvað dvelur íslensk stjórnvöld?
Kristinn setur þetta ástand í samhengi við ástandið á Íslandi og segir athyglisvert að stjórnvöld hér á landi hafi ekki gripið til sambærilegra skyndilokana á landamærunum með tilliti til sérstöðu okkar sem örþjóðar á hjara veraldar, sérstaklega á árunum 2022 og 2023, þegar vöxtur umsókna um alþjóðlega vernd var hlutfallslega langtum meiri hér en í öðrum Evrópuríkjum. Kristinn bendir á að á árunum 2022 og 2023 voru umsóknir um hælisvist hér á landi um 8.700 samtals. Á árinu 2024 bættust við um 2.000 umsóknir, þannig að heildarfjöldinn var orðinn 10.700 á þremur árum.
Kristinn bendir á að þegar lögin um útlendinga frá 2016 eru skoðuð vakni spurningar um af hverju forystumenn okkar settu ekki öflugri fyrirvara um innleiðingu alþjóðlegra skuldbindinga á þessu sviði, sérstaklega í ljósi sérstöðu okkar sem örþjóðar og í staðinn boðist til að auka aðstoð við flóttamenn á nærsvæðum átaka. Ein skýring kann að vera sú að lögin voru samin með þátttöku fólks úr öllum þingflokkum, sem hefur greinilega leitt til mikilla málamiðlana. Hinn mikli fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur haft í för með sér háan beinan og óbeinan kostnað fyrir ríkissjóð og sveitarfélög.