c

Pistlar:

10. apríl 2025 kl. 18:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ríkisstjórnin og skattalegur feluleikur

Það er viðkvæmt fyrir nýja ríkisstjórn að tala um skattahækkanir. Þess vegna er hækkun á auðlindaskatti kynnt sem „leiðrétting“ á gjaldi en ekki skattstofni og sú skattahækkun sem fjölskyldufólk fær með af­námi sam­skött­un­ar hjóna sögð vera „minni­ eftirgjöf“. Reyndar svo lítil að varla að það taki því að nefna það! Ferðaþjónustan í landinu er líka að upplifa nýjar álögur í formi frek­ari skatt­lagn­ingar og gjald­töku á grein­ina á sama tíma og hún glímir við dvínandi samkeppnishæfni og óvissu í efnahagsumhverfi og alþjóðasamskiptum.hanna katrín

Það má hafa skilning á því að ríkisstjórnin reyni að beita spunaher sínum í kringum þessar skattahækkanir enda koma þær illa heim og saman við gefin loforð og fyrirheit stjórnarflokkanna í síðustu kosningabaráttu. Það er hins vegar ástæða til að hafa áhyggjur af afleiðingum þessara skattahækkana sem ýmist ganga gegn fjölskyldunni eða grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Það er líka sérstakt áhyggjuefni hve illa undirbúnar þessar aðgerðir eru og á það sérstaklega við um hækkun auðlindaskatts en þar virðast engar greiningar eða sviðsmyndir hafa verið unnar eins og bent hefur verið á áður hér í pistlum. Hótanir atvinnuvegaráðherra um að keyra breytinguna í gegn með góðu eða illu staðfesta að pólitískur ásetningur tekur skynseminni fram á þessari vegferð ríkisstjórnarinnar.

Stjórnlind ríkisstjórn og hærri skattar

Miðað við útgjaldaþenslu hins opinbera má hafa skilning á því að stjórnlind ríkisstjórn telji sig þurfa að rukka borgara landsins um hærri skatta. Það þarf meira og sumir trúa því að það sé til nóg og meira frammi, eins og maðurinn sagði. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins minnti á það í dag að það getur verið túlk­un­ar­atriði hvað er mikið og hvað lítið, en mörgum fjölskyldum mun­ar um nokk­ur hundruð þúsund krón­ur á ári þó að ríkisstjórninni kunni að þykja slík fjár­hæð létt­væg.

Rík­is­stjórn­in hef­ur reynt að tala sig frá þess­ari skatta­hækk­un eins og öðrum slík­um með orðal­epp­um sem hafa enga þýðingu fyr­ir al­menn­ing og þau fyr­ir­tæki sem fyr­ir hækk­un­un­um verða. Ef við borgum meiri skatta eftir breytingu á sköttum þá er það skattahækkun ekki „minni eftirgjöf.“

Hið opinbera með 46,3% af landsframleiðslu

Hagstofa Íslands birti fyrir stuttu yfirlit yfir afkomu hins opinbera á árinu 2024. Samanlögð útgjöld ríkis og sveitarfélaga í fyrra námu 46,3% af vergri landsframleiðslu eða samtals 2.135 milljörðum króna. Tekjurnar voru öllu lægri, eða 1.974 milljarðar og munar tæplega 161 milljarði króna, en bilið þarf að brúa með lántökum. Því verður velt yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Hagfræðingar eins og Milton Friedman hafa talað um að ríkisskuldir færi byrðar yfir á komandi kynslóðir í formi hærri skatta („deficits today are tomorrow’s taxes“). Hallarekstur dagsins í dag verður að sköttum framtíðarinnar. Þessi vissa ætti að vera stjórnvöldum áskorun um að takast almennilega á við hagræðingu í stað þeirrar sýndarmennsku sem birtist í kjölfar sjónarspilsins um „hagræðinguna miklu“.hannakatr

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030 í síðustu viku. Helsta forgangsmál áætlunarinnar, og þar með ríkisstjórnarinnar er að stöðva hallarekstur ríkissjóðs. Fjármálaráðherrann sagði við þetta tilefni að fyrri áætlanir hefðu það sammerkt að hafa allar verið óraunhæfar. Það sé hins vegar raunhæft að reka ríkissjóð í jafnvægi árið 2027 eins og áætlanir ríkisstjórnarinnar segja til um.

En veldur hver á heldur. Að endingu er það spurning um hvaða leið er valin með það sameiginlega markmið að efla hag íslensks samfélags. Í dag er það svo að skattar og gjöld á íslensk fyrirtæki eru margþætt og eru oft mjög íþyngjandi. Vitað er að háir skattar draga úr samkeppnishæfni og þar með markaðshlutdeild, fjárfestingum, verðmætasköpun og að endingu fjölda starfa. Með því hins vegar að lækka skatta og gjöld er frekar hvatt til aukinnar verðmætasköpunar sem þá aftur skilar sér í hærri tekjum og fleiri störfum. Þetta er það sem valið stendur um.