Við getum sagt að við séum í miðju auga stormsins. Eftir að hafa rekið ráðaleysislega landamærastefnu og opnað allt upp á gátt þegar kom að hælisleitendum bíður næstu ára að vinna úr vandanum. Í fyrsta lagi þarf að ná utan um það fólk sem hingað streymdi og fara með það í gegnum skriffinnsku hælisleitendakerfisins. Nú þegar heyrast sögur af því að fólk sé einfaldlega týnt, finnist hvergi og það eigi meira að segja við um barnafjölskyldur.
Það er óheyrilega tímafrekt að fara með einstök mál hælisleitenda og útlendinga í gegnum skriffinnskukerfi sem í grunninn miðast við að fólk taki sjálfviljugt þátt í því. Það segir sig sjálft að ef lögreglan þarf að elta uppi hvern og einn, sem á að vísa úr landi, og það margsinnis þá mun slíkt ferli ganga hægt og kosta skattgreiðendur óheyrilega fjármuni. Um þetta hefur verið fjallað áður hér í pistlum en fyrir stuttu lá beint við að spyrja hvort það væri hrunið? Fréttir dagsins staðfest að svo er.
Það getur verið fróðlegt að rekja sig í gegnum einn fréttadag af þessum málum til að sjá umfangið. Morgunblaðið greindi frá því í dag að alls hafi fallið fimm úrskurðir í Landsrétti undanfarna daga þar sem útlendingum er vísað af landi brott. Í þremur þessara tilvika er um að ræða hælisleitendur sem dvalið hafa ólöglega hér á landi, en í einu er um að ræða litháískan mann sem fallist var á að framseldur yrði til síns heimalands á grundvelli evrópskrar handtökuskipunar. Gengu tveir úrskurðir í Landsrétti um þann mann.
Maðurinn hefur verið búsettur hér á landi undanfarin ár, en dómari í Vilníus í Litháen gaf út handtökuskipun honum á hendur í febrúar síðastliðnum en maðurinn hafði verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir þrjú kynferðisbrot gegn barni. Átti hann eftir að afplána fjögur ár og sex mánuði af dóminum. Viðkomandi var svo í öðru máli hnepptur í gæsluvarðhald svo hann yrði tiltækur þegar til brottflutnings kæmi.
Ítrekaður brotaferill
Í hinum þremur tilvikunum voru útlendingarnir hnepptir í gæsluvarðhald svo þeir hlypust ekki á brott áður en þeir yrðu fluttir burt af landinu. Ekki fylgdi sögunni hve lengi þeir þurfa að vera í gæsluvarðhaldi áður en þeir fara úr landi, sjálfsagt veit það enginn.
Morgunblaðið sagði frá því að í einu þessara tilvika hafi verið um að ræða mann sem nefndur er X í úrskurðinum og á að baki sér nokkurn brotaferil hér á landi og hefur áður gengið undir nöfnunum X1, Xw2 og X3 í dómsskjölum. Þjóðerni viðkomandi kemur ekki fram. Honum hefur ítrekað verið gert að yfirgefa landið og hann hefur ekki virt endurkomubann á Schengen-svæðið. Hann hefur nokkurn brotaferil að baki sér, hefur verið dæmdur fyrir brot á umferðarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og almennum hegningarlögum.
Ólöglega í sex ár í landinu
Morgunblaðið sagði líka frá því að Landsréttur hefði staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að Alsíringur, sem dvalið hefur ólöglega hér á landi í sex ár, skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. maí næstkomandi en í bígerð er að senda manninn til síns heimalands á morgun, 30. apríl, að öllu óbreyttu.
Það er ótrúlegt að hugsa til þess að maðurinn skuli enn vera á landinu eftir að hafa komið óboðinn hingað til lands í maí 2017. Umsókn hans um alþjóðlega vernd var synjað af Útlendingastofnun í júní 2018 og staðfesti kærunefnd útlendingamála þá niðurstöðu í október sama ár. Sama dag barst heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra beiðni frá Útlendingastofnun um að manninum yrði komið af landi brott, en ekki virðist hafa verið orðið við því. Það var síðan ekki fyrr en í lok janúar 2024 sem manninum var kunngjört að honum bæri að tilkynna sig daglega á lögreglustöð. Hann sinnti því ekki og lét sig hverfa.
Nú í mars mætti maðurinn í viðtal hjá sérfræðingi heimferða- og fylgdadeildar og var honum gerð kunnug sú ákvörðun að hann skyldi tilkynna sig daglega hjá lögreglunni næstu 28 daga. Það gerði maðurinn í 13 skipti, en síðan ekki söguna meir. Þegar hann svo loks mætti á lögreglustöð 8. apríl síðastliðinn var hann handtekinn.
Í úrskurði héraðsdóms kemur meðal annars fram að Alsíringurinn hafi ekki verið samstarfsfús við að upplýsa um hver hann væri, en sendiráð Alsír í Stokkhólmi hafi þó lýst sig reiðubúið til að gefa út ferðaskilríki til bráðabirgða honum til handa, svo unnt væri að koma honum af landi brott. Kostnaður við málsvörn mannsins í héraði og Landsrétti nemur tæpum 310 þúsund krónum og er greiddur úr ríkissjóði. Þá hefur manni frá Gíneu verið vísað brott og öðrum frá Alsír.
Gíneumaður í felum
Annar hælisleitandi sem gerir grín að íslenska kerfinu, kemur frá Gíneu, og hefur dvalið ólöglega hér á landi í nær hálft fjórða ár. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. apríl síðastliðinn en Landsréttur kvað upp úrskurð þess efnis þann 11. apríl og staðfesti þar með héraðsdóm. Gíneumaðurinn hafði óskað eftir alþjóðlegri vernd hér á landi en var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar í september 2021 og staðfesti kærunefnd útlendingamála þá niðurstöðu í desember sama ár.
Morgunblaðið upplýsir að brösuglega hafi gengið að koma manninum úr landi þar sem hann var ekki með gild ferðaskilríki og sýndi engan vilja til samstarfs við útvegun þeirra. Sló hann úr og í með það, þóttist stundum vilja sýna samstarf en hafnaði því svo síðan. Send var beiðni til sendiráðs Gíneu í London um miðjan febrúar 2022 og óskað eftir ferðaskilríkjum fyrir viðkomandi, en sendiráðið svaraði engu. Var því ekki unnt að flytja manninn af landi brott vegna skorts á skilríkjum.
Var þá gripið á það ráð að heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra óskaði eftir að taka þátt í alþjóðlegu auðkenningarverkefni á vegum Frontex og var sérstök sendinefnd frá Gíneu væntanleg hingað til lands 14. apríl sl. til að ræða við samlanda sinn og finna út hver hann væri og gefa síðan út ferðaskilríki honum til handa. Þann 3. apríl sl. var Gíneumanninum birt sú ákvörðun að hann skyldi tilkynna sig á lögreglustöð daglega næstu 28 daga, en hann sinnti því í engu. Meðfylgjandi úrklippa sýnir hvernig staðan var 2004!
Gæsluvarðhald nauðsynlegt
Þegar hér var komið sögu var það mat lögreglunnar að nauðsynlegt væri að úrskurða Gíneumanninn í gæsluvarðhald til að tryggja að unnt væri að færa hann fyrir sendinefndina ofangreindan dag og vægara úrræði væri ekki tækt þar sem maðurinn hefði ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni.
Morgunblaðið sendi ríkislögreglustjóra fyrirspurn þann 22. apríl sl. varðandi Gíneumanninn og spurði hvort viðkomandi væri enn hér á landi. Einnig var spurt um hvað komið hefði út úr fundi sendinefndarinnar frá Gíneu með manninum sem og hvort algengt væri að sendinefndir væru gerðar út af örkinni til að ræða við fólk sem synjað hefði verið um hæli hér á landi.
Þegar Morgunblaðið gekk eftir því gat heimferða- og fylgdadeild ríkislögreglustjóra ekki sagt hvort maðurinn sé hér enn. Kostnaður vegna málareksturs Gíneumannsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness og Landsrétti var greiddur úr ríkissjóði, en manninum var skipaður sami verjandi á báðum dómstigum. Fékk lögmaður hans greiddar 100.440 krónur fyrir málsvörnina í héraði en 66.950 krónur fyrir vörnina í Landsrétti. Samtals nam því kostnaður vegna málarekstursins 167.390 krónum.
Einföldun verkferla
Í enn einni frétt í dag upplýsir dómsmálaráðherra að hún vilji „nýta til fulls“ lagaheimildir sem gera stjórnvöldum kleift að láta erlenda fanga á Íslandi afplána dóm í sínu heimalandi og segir að ráðuneytið sé að einfalda verkferla með það fyrir augum. Einnig kemur „vel til greina“ að semja við önnur ríki um flutning erlendra fanga. Þetta kemur fram í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Diljár Mistar Einarsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Í svari ráðherra er vísað í samning Evrópuráðs um flutning dæmdra manna, sem gerir það mögulegt að flytja fanga til síns heimalands, í sumum tilfellum í óþökk fangans. Stór hluti fanga sem eru í fangelsum núna falli undir þann samning. „Að mati ráðherra er mikilvægt að nýta þessar heimildir til fulls,“ segir í svari Þorbjargar. Vinna standi yfir við að einfalda verkferla og virkja alþjóðasamstarf með það fyrir augum.
Diljá Mist segist í samtali við Morgunblaðið taka vel í afstöðu ráðherrans. Að hennar mati væri með þessu hægt að draga úr þeim kostnaði sem fylgi því að láta erlenda fanga afplána hér á landi. „Þetta er gríðarlega mikilvægt,“ segir Diljá.
Allt þetta sýnir hve þunglamalegt og seinvirkt kerfi hefur verið byggt upp hér í kringum þennan málaflokk en allar tafir kosta skattgreiðendur óheyrilegar fjárhæðir. Höfum hugfast að nágrannar okkar, Færeyingar, hafa engan kostnað af hælisleitendum. Hvernig skyldu þeir fara að því?