c

Pistlar:

2. maí 2025 kl. 11:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glóaldin í Silves

Fyrir einni öld eða svo fannst málhreinsunarmönnum rétt að íslenska sem flest og þá fæddist hið fallega orð glóaldin yfir appelsínur. Því miður náði orðið ekki að festa rætur en appelsínur eru einkennandi fyrir bæinn Silves í Portúgal. Það er vegna ríkrar sögu svæðisins í appelsínuræktun en þó ekki síður vegna þess hve gómsætar þær eru, sannkölluð glóaldin. Eiginlega rekur mann í rogastans yfir því hve safaríkar og bragðgóðar appelsínurnar eru og voru þær á borðum alla daga sem pistlaskrifari bjó í bænum. En öfugt við sítrónurnar á Amalfi-ströndinni (og sérstaklega í Sorento) þá eru þær ekki orðnar hluti af öllum minjagripavörum bæjarins. Þeim er þó gert ágætlega hátt undir höfði.silves1

Silves, sem er staðsett í Algarve-héraði, er þekkt fyrir frjósamt land og loftslag sem hentar vel fyrir sítrusávexti, sérstaklega appelsínur. Appelsínutré eru því til prýði í oft landslagi svæðisins, og ávöxturinn er hluti af staðbundinni matargerð og menningu. Þótt appelsínur séu ekki opinberlega tákn borgarinnar, tengjast þær sterklega svæðinu og eru stundum notaðar í kynningu á Silves, sérstaklega í tengslum við landbúnað og staðbundnar vörur. Silves er einnig þekkt fyrir árlega miðaldahátíð (Feira Medieval de Silves) og sögulegt mikilvægi, en appelsínur bæta við staðbundnum sjarma og auðkenni.silves5

Bær ríkur af sögu

Eins og vikið var að hér í pistli fyrir stuttu þá er Silves fyrrum höfuðborg Algarve og menningarleg miðstöð á miðöldum, rík af sögu og menningu. Ef fólk vill sneiða hjá ys og þys nútímaferðamennsku þá er ákjósanlegt að gista í bænum og nota svo Uber-þjónustuna til að skutlast á milli bæja í skoðunarferðir. Þjónusta Uber reyndist okkur frábær þann tíma sem við vorum í Silves og sparar fólki að taka sér bílaleigubíla.silves2

Miðbær Silves er látlaus en þar reyndust vera góðir matsölustaðir og ágætar verslanir og verðlag mun hagstæðara en á hefðbundnum ferðamannastöðum. Það er eitthvað sérstakt við það að ganga um götur portúgalskra bæja og alltaf getur maður undrast gatnakerfið. Þröngar göturnar urðu til á hestvagnatímum og rúma varla bíla en einstefnukerfi tryggir þó ásættanlegt flæði. Einn Uber-bílstjórinn var á nýjum og fínum bíl og maður fann að hann stressaðist allur upp í þrengslunum.

Á hverjum degi fann maður nýjar hliðargötur til að ráfa um og óvenjulegar byggingar til að skoða. Mörg falleg hús eru í Silves en einnig mátti undrast hve mörg hús þurftu standsetningar eða jafnvel allsherjaryfirhalningu. Breytti engu þó að húsin stæðu á verðmætum lóðum í miðbænum. Stórhýsi í nýlendustíl reyndust stundum ekki vera annað en skel en sumstaðar var verið að endurbyggja og bæta. Storkar eru áberandi á svæðinu og gaman að fylgjast með þeim í hreiðrum nánast innan seilingar. Þeir voru duglegir að nýta sér byggingar í niðurníðslu og njóta mikillar friðhelgi meðal heimamanna. Umgengni um þá lýtur ströngum reglum.silves3

Skáldið Ibn Ammar

Saga Silves er löng og merkileg og að sumu leyti er Silves tveggja heima bær, með rætur í menningu Máranna og styrkt af baráttu endurheimtarinnar „reconquista“. Þegar saga Silves er skoðuð rekur Ibn Ammar (1031–1086) óhjákvæmilega á fjörur þeirra en hann var arabískt skáld frá Al-Andalus tímabilinu en þá var Silves mikilvæg borg undir stjórn Máranna. Hann var þekktur sem „skáldið frá Silves“ og var einn af áhrifamestu ljóðskáldum á sínum tíma í Iberíuskaga. Ibn Ammar samdi ljóð á arabísku, oft um ást, náttúru og lof til valdhafa, og varð þekktur fyrir tengsl sín við Al-Mu'tamid, konunginn í Sevilla, en Ibn Ammar komst þar til nokkurra valda en Al-Mu'tamid útnefndi hann forsætisráðherra nokkru eftir dauða föður síns. Ibn Ammar var álitinn ósigrandi í skák og sögur eru um að það hafi sannfært Alfonso VI frá Kastilíu um að snúa frá Sevilla.silves4

Ibn Ammar fæddist í Silves og þó að hann væri af fátæku fólki er hann talinn einn af merkustu íbúum borgarinnar á þessum tíma og lagði mikið til menningarlegrar sögu hennar. Ljóð hans endurspegla menningarlega blöndun arabískra og íberískra áhrifa sem einkenndi Silves á þeim tíma og það er nokkuð sem maður verður áþreifanlega var við enn í dag.

Silves birtist í verkum portúgalskra rithöfunda nútímans sem sækja gjarnan innblástur í ríkulega sögu og menningu Algarve, en enginn áberandi höfundur nútímans er sérstaklega þekktur fyrir tengsl við borgina.