c

Pistlar:

4. maí 2025 kl. 20:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sundabraut og ómöguleikinn

Í um það bil þrjá áratugi hafa íbúar höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands beðið eftir að eitthvað miði áfram við Sundabraut. Um þetta hefur verið fjallað hér í pistlum með reglulegu millibili og alltaf er hægt að undrast framkvæmdaleysi yfirvalda og skammsýni í málinu. Sundabraut hefur afhjúpað getuleysi yfirvalda þegar kemur að takast á við stórar og kostnaðarfrekar framkvæmdir, rétt eins og urðu örlög nýs Landspítala sem að endingu var byggður á röngum stað fyrir offjár og er þá ekki verið að ræða um þann samfélagslega kostnað sem hlýst af því að hafa ekki aðgang að hentugu og nýju sjúkrahúsi fyrr en eftir 2030.aaaasund

Sundabrautin er í sömu öngstrætum og það afhjúpast hvað eftir annað, nú síðast á Alþingi þegar Eyj­ólf­ur Ármanns­son innviðaráðherra lét athyglisverð ummæli falla. „Það er búið að tefja málið al­veg gríðarlega, bara til þess að þjóna Reykja­vík­ur­borg, til að skoða jarðgöng, sagði ráðherra síðastliðinn miðviku­dag, þegar hann svaraði óund­ir­bú­inni fyr­ir­spurn frá Guðlaugi Þór Þórðar­syni um Sunda­braut og sam­göng­ur eins og Morgunblaðið gerði grein fyrir.

Fyrirhyggjuleysið er alsráðandi

En það eru næstu ummæli ráðherra sem eru hvað athyglisverðust: „Ég fór fram á það strax í upp­hafi að það væri ekki hægt að Reykja­vík­ur­borg væri að tefja þetta mat leng­ur. Þeir eru bún­ir að finna þarna fugla­björg og guð má vita hvað ekki sem þarf að skoða aft­ur og aft­ur. Alltaf kem­ur upp eitt­hvað meira að skoða og nán­ast er verið að reyna að finna þann síðasta sem er á móti þessu til að fá að tala við hann og skoða eitt­hvað hvað það varðar.“

Auðvitað er undarlegt að hlusta á ráðherra segja þetta en furðulegast er að þetta er dagsatt. Fyrirhyggjuleysi borgarstjórnar Reykjavíkur í þessu máli er mikið og mun að endingu kosta skattgreiðendur mikla fjármuni. Framkvæmd eins og Sundabraut hefði þurft að vera komin fyrir löngu inn á skipulag því við höfum glatað bestu kostunum og enn er Reykjavíkurborg að spilla málinu. Það þarf til dæmis ekki mikið verkvit til að átta sig á því að það er mun betra að leggja Sundabraut áður en gerð Sæbrautarstokks hefst eða hvernig halda menn að það gangi að búa til framhjáleiðir fyrir alla þá umferð sem um Sæbrautina fer? Það væri til mikilla bóta ef Sundabraut væri komin áður.

Verður umferðin vanmetin?

Guðlaug­ur Þór nefndi síðan annað alvarlegt atriði í umræðunni, nefnilega það að nú­ver­andi hug­mynd­ir og það sem er verið að skoða varðandi Sunda­braut eyk­ur ekki um­ferðarflæði af því að við enda­stöð sé ekki gert ráð fyr­ir auk­inni um­ferðarrýmd. Flæðið færi í gegn­um hverfi borg­ar­inn­ar, fjór­ar ak­rein­ar á tveim­ur stöðum, benti Guðlaugur á.aasunda

„Það verður inni í bíl­lausu hverfi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og Viðreisn­ar sem er að vísu ekki bíl­laus­ara en svo að það er ekk­ert strætó­skýli þar þannig að menn þurfa að fá leigu­bíl á kostnað borg­ar­inn­ar til að kom­ast í strætó­skýli og þetta er ekki grín. Þetta kall­ar á flutn­ing Sam­skipa með til­heyr­andi kostnaði,“ sagði Guðlaug­ur Þór meðal ann­ars í fyr­ir­spurn­ar­ræðu sinni. Enn afhjúpast fyrirhyggjuleysið.

Sundabraut er mjög umfangsmikil og kostnaðarsöm framkvæmd sem mun hafa mikil áhrif á samgöngur og byggðaþróun á höfuðborgarsvæðinu um langa framtíð eins og kom fram í Aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árið 2040.

Ekki bara vegur

Þar er bent á að gert hafi verið ráð fyrir Sundabraut, sem nýrri stofnbraut í skipulagi Reykjavíkur og sem þjóðvegi um höfuðborgarsvæðið, í skipulagsáætlunum um árabil. „Í samræmi við viljayfirlýsingu samgönguráðherra og borgarstjóra frá júlí 2021 sé nú í gangi undirbúningur skipulagsferlis, umhverfismats, mótun valkosta um útfærslur og forhönnun gatnamannvirkja. Þó að hér sé um gatnaframkvæmd að ræða sem er hluti gildandi aðalskipulags, þarf í umhverfismati breytinga að leggja áherslu á hvernig framkvæmdin samræmist megin markmiðum aðalskipulags, svo sem um breyttar ferðavenjur og kolefnishlutleysi (sic!). Ennfremur þarf að meta samræmi hennar við megi markmið samgöngusáttmálans, svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2040 og önnur opinber stefnuskjöl,“ segir í aðalskipulaginu.

Höfuðgallinn við nálgun Vegagerðar og Reykjavíkurborgar er að hvorugur aðilinn skilur hve mikið tækifæri felst í verkefninu annað en að byggja nýjan veg. Það er nefnilega mikilvægt að horfa til þeirra miklu tækifæra sem felast í að þróa byggð meðfram ströndinni eins og vikið hefur verið að hér í pistlum. Það er einn stærsti ávinningur af verkefninu.