Við erum vön að trúa því að Bandaríkin séu upphaf og endir hlutabréfaviðskipta í heiminum en hlutabréfamarkaðir þar eiga rætur sínar að rekja til seinni hluta 18. aldar. Elsti formlegi hlutabréfamarkaðurinn er oft talinn New York Stock Exchange (NYSE), sem var stofnaður árið 1792, þegar kaupmenn samþykktu að versla með verðbréf undir tré á Wall Street. Þetta markar upphaf skipulagðs hlutabréfamarkaðar í Bandaríkjunum, þó að óformleg viðskipti með hlutabréf og skuldabréf hafi átt sér stað fyrr, eða allt aftur til nýlendutímans. Kauphallir í Amsterdam, Frankfurt, Antwerpen og London eru þó talsvert eldri. Það er síðan árið 1971 sem NASDAQ-markaðurinn er stofnaður, fyrsti rafræni hlutabréfamarkaðurinn.
Heildarmarkaðsvirði bandaríska hlutabréfamarkaðarins var um 59,1 trilljón bandaríkjadala (59.100 milljarðar dollara) í lok árs 2023, samkvæmt gögnum frá S&P Global og öðrum markaðsgreiningum. Þetta breytist daglega vegna markaðssveiflna og hafa um 10 trilljónir þurrkast út síðan um áramót. Til að setja stærð bandaríska hlutabréfamarkaðarins í samhengi þá var landsframleiðsla (GDP) Bandaríkjanna árið 2023 um 25,5 trilljónir dala. Þetta þýðir að hlutabréfamarkaðurinn er rúmlega 2,3 sinnum stærri en landsframleiðslan. Svo má hugsa þessa tölu öðru vísi en ef verðmæti bandarískra hlutabréfamarkaða væri deilt út til jarðarbúa myndi það jafngilda því að gefa hverjum einstaklingi á jörðinni (um 8 milljarðar manns) um 7.387 dali!
54% af heimsveltu hlutabréfa
Heildarmarkaðsvirði allra hlutabréfamarkaða í heiminum var um 109 trilljónir Bandaríkjadala árið 2023. Bandaríski markaðurinn nemur því um 54% af heimsmarkaðnum en kínverski markaðurinn (Shanghai og Shenzhen) kom næstur með um 15% af bandaríska markaðnum. Japanski hlutabréfamarkaðurinn hefur löngum verið sá næststærsti í heimi en er nú innan við 11% af bandaríska markaðnum.
Þessi stærð endurspeglar gríðarlegt vægi bandarískra fyrirtækja og væntingar fjárfesta til þeirra, eins og Apple, Microsoft, Amazon, Alphabet (Google), NVIDIA og Meta sem hvert um sig er metið á yfir 1 til 3 trilljónir dala. Markaðurinn sveiflast þó daglega, svo tölurnar geta breyst hratt.
Fjárfestir fjárfestanna
Fjárfestirinn Warren Buffett hefur löngum verið andlit hlutabréfaviðskipta í Bandaríkjunum en fjárfestingafélag hans Berkshire Hathaway er metið á 1,1 trilljón dala. Félagið náði trilljón dollara marki í ágúst 2024 og er eina félagið utan tækni- og olíugeirans á listanum. Samkvæmt Bloomberg Billionaires Index í maí 2025 er nettóauður Warren Buffett metinn á um 168 milljarða dollara. Um Buffett hefur verið fjallað nokkrum sinnum hér í pistlum en þó að auður hans sé gríðarlegur er aðeins um 0,28% af heildarmarkaðsvirði bandaríska hlutabréfamarkaðarins. Með öðrum orðum, bandaríski hlutabréfamarkaðurinn er um 350 sinnum stærri en persónulegur auður Buffett nú þegar hann hefur ákveðið að stíga af sviðinu, orðinn 94 ára.
Megnið af auði Buffetts kemur frá eignarhlut hans í Berkshire Hathaway. Þó að Buffett sé einn af ríkustu mönnum heims (5. sæti á Forbes lista 2025) er auður hans aðeins um 44% af auði Elon Musk, sem er metinn á um 379,9 milljarða dala og er nú ríkasti maður heims.
Eins og áður sagði þá er bandaríski hlutabréfamarkaðurinn um 54% af heimsmarkaðnum, sem sýnir yfirburði hans en bandaríska hagkerfið er ekki nema 15% af heimshagkerfinu. Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn vegur því miklu þyngra en efnahagur Bandaríkjanna enda sækja fyrirtæki alls staðar að úr heiminum um að skrá sig þangað inn. Bandaríski markaðurinn er skilvirkur og menn treysta honum. Þá er viðskiptakostnaður þar miklu lægri en annars staðar sem eykur seljanleika skráðra bréfa.
Kauphallir og fjárfestar um allan heim geta lært mikið af því hvernig Bandaríkjamenn stunda kauphallarviðskipti og ekki síður hvernig Warren Buffett hefur stundað þau enda sækja margir í ráðleggingar hans.