c

Pistlar:

8. maí 2025 kl. 14:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Opnir kranar ríkisins

Um það bil 46% af vergri landsframleiðslu fer í gegnum endurúthlutunarkerfi hins opinbera. Með öðrum orðum, nánast önnur hver króna sem verður til í hagkerfinu er sótt í gegnum skattkerfið og endurúthlutað aftur í gegnum fjárlög ríkis og sveitarfélaga. Það segir sig sjálft að þessari millifærslu fylgir nokkur kostnaður en getum við haft einhverja tryggingu fyrir því að þessum fjármunum sé betur varið í gegnum sameiginlega sjóði en ef eigendur peninganna væru að nota þá sjálfir? Nú gæti einhver sagt að ríki og sveitarfélög sinni ýmsum grunnþörfum samfélagsins, svo sem þegar kemur að menntun, heilbrigði og löggæslu. Vissulega, en fjármununum er einnig varið í ýmislegt annað sem getur verið umdeilanlegt. Á það erum við stöðugt minnt þegar Alþingi situr en það hefur fjárveitingavaldið.

Það er fróðlegt að fylgjast með rannsóknum á vegum Samtaka skattgreiðenda sem undanfarið hafa verið að framkvæma sjálfstæða skoðun á ríkisreikningi og bókhaldi ríkisins. Það verður að segjast eins og er að þar eru farnar að birtast sláandi niðurstöður sem í senn sýna litla virðingu fyrir skattpeningum eða lögbundnum verkferlum. Og í stað opinna reikninga er nær að tala um opna krana!alfrun

Einu sinni inn á fjárlög og leiðin er greið

Fyrir stuttu var ViðskiptaMogginn með viðtal við Álfrúnu Tryggva­dóttur, hag­fræðing hjá Efna­hags- og fram­fara­stofn­un Evr­ópu, OECD, þar sem hún ræddi meðal annars fjárlagagerð og þá sjálfvirkni sem þar er stundum að finna. Hagræðing í op­in­ber­um rekstri hef­ur verið Álfrúnu hug­leik­in síðastliðin fimmtán ár enda hefur hún komið að ýmsum verkefnum á því sviði, bæði hér heima og erlendis.

Vegna starfa sinna hefur Álfrún skoðað aðferðafræði við fjárlagagerð og sagði að við blasti að vand­inn við hana sé einkum sá að þar sé oft­ast verið að skoða viðbæt­ur við síðustu fjár­lög frek­ar en að skoða það fjár­magn sem er fyr­ir hendi og for­gangsraða og finna svig­rúm inn­an þeirra. „Menn hafa ekki verið að hætta einu verk­efni til að setja fé í annað, held­ur er verið að bæta við út­gjalda­grunn­inn. Þau verk­efni sem fara inn á fjár­lög fara sjaldn­ast aft­ur út af þeim. Það vant­ar sár­lega út­gjalda­grein­ingu í áætlana­gerðina á Íslandi, sem virðist oft vera á sjálf­stýr­ingu,“ sagði Álfrún og benti á að það sé heil­brigt fyr­ir hið op­in­bera að stunda út­gjalda­grein­ing­ar.

Opinn krani til kvikmyndagerðar

Spurð um dæmi úr vinnu henn­ar í fjár­málaráðuneyt­inu á sín­um tíma nefn­ir Álfrún end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. „Við greind­um end­ur­greiðslu­kerfið og fund­um hagræðing­ar­mögu­leika þar. End­ur­greiðslurn­ar sam­ræm­ast illa svo­kallaðri ramm­a­fjár­laga­gerð því það má segja að þar sé á ferðinni op­inn krani,“ út­skýr­ir Álfrún en met var slegið á síðasta ári í end­ur­greiðslum vegna kvik­mynda­gerðar þegar þær námu rúm­um sex millj­örðum króna.

Álfrún seg­ir að til­gang­ur laga um end­ur­greiðslurn­ar hafi verið að efla kvik­mynda­geir­ann á Íslandi. Einnig hafi verk­efn­in þótt góð land­kynn­ing. „Það var ör­ugg­lega mik­il þörf á þessu á sín­um tíma en ég held að brans­inn sé á miklu betri stað í dag. Og ekki virðist vanta ferðamenn. Þess vegna spurðum við okk­ur hvort enn væri þörf fyr­ir þetta fyr­ir­komu­lag í raun og veru,“ spyr Álfrún núna.

Hug­mynda­fræðin í þessu verk­efni var að ef það næðist hagræðing inn­an end­ur­greiðslu­kerf­is­ins gæti ráðherra ráðstafað pen­ing­un­um til annarra for­gangs­verk­efna í ráðuneyt­inu, að sögn Álfrún­ar. „Þarna yrðu sparaðir pen­ing­ar til að nota í aðra þarfari hluti,“ hefur Morgunblaðið eftir henni. Þess má geta að 60% af því sem ný ríkisstjórn ætlar að sækja í gegnum nýja skatta á útgerðina myndu fara til kvikmyndagerðar.

Agaleysi í áætlanagerð

Aðspurð seg­ir Álfrún að visst aga­leysi hafi ríkt á þessu sviði á Íslandi og stöðug­leika skorti. „Ef maður horf­ir á lönd eins og Dan­mörku, Svíþjóð og Hol­land þá er meiri agi þar í áætlana­gerðinni. Ef ráðuneyti til dæmis biður um fjár­magn sem rúm­ast ekki inn­an út­gjald­aramma er miklu frek­ar ætl­ast til þess hagrætt sé á móti og að fjár­heim­ild­ir sem eru til staðar séu nýtt­ar.“

Álfrún seg­ir mál­efnið of­ar­lega á baugi í flest­um lönd­um heims um þess­ar mund­ir. „Við erum að vinna með fjölda­mörg­um þjóðum. Það eru all­ir í þess­um pæl­ing­um núna. Op­in­ber út­gjöld hafa auk­ist mikið síðastliðin ár, og nú er verið að reyna að vinda ofan af því,“ seg­ir Álfrún í Morg­un­blaðsviðtalinu.

Hún seg­ir að marg­ar þjóðir noti í sam­starfi við OECD svo­kallaðar út­gjalda­grein­ing­ar (e. spend­ing review) til að ná tök­um á rík­is­fjár­mál­un­um. „Það var gerð til­raun til að inn­leiða þetta verklag á Íslandi á ár­un­um 2017 til 2019 þegar ég vann í fjár­málaráðuneyt­inu. Það hlaut ekki mik­inn hljóm­grunn, kannski vegna þess að efna­hags­ástandið var miklu betra þá og kallaði ekki eins mikið á hagræðingu og síðar varð. Hvat­inn til að spara var ekki eins sterk­ur.“Skjámynd 2025-01-03 131426

Vantar að forgangsraða

Álfrún seg­ir vand­ann við fjár­laga­gerð vera einkum þann að þar sé oft­ast verið að skoða viðbæt­ur við síðustu fjár­lög frek­ar en að skoða það fjár­magn sem er til staðar og for­gangsraða og finna svig­rúm inn­an þeirra. „Menn hafa ekki verið að hætta einu verk­efni til að setja fé í annað, held­ur er verið að bæta við út­gjalda­grunn­inn. Þau verk­efni sem fara inn á fjár­lög fara sjaldn­ast aft­ur út af þeim. Það vant­ar sár­lega út­gjalda­grein­ing­ar í áætlana­gerðina á Íslandi sem virðist oft vera á sjálf­stýr­ingu.“

Þegar verklag við út­gjalda­grein­ing­ar er inn­leitt er út­gjalda­grunn­ur­inn kerf­is­bundið skoðaður með það að mark­miði að finna hagræðingu sem kem­ur sér ekki illa fyr­ir sam­fé­lagið. Það er fróðlegt að setja vangaveltur Álfrúnar í samhengi við hagræðingarátak ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur sem reyndist því miður meiri sýndarmennska en að þar lægi að baki alvara.

OECD ger­ir reglu­leg­ar kann­an­ir meðal aðild­arþjóða þar sem lönd eru spurð hvar þau standi í hagræðing­ar­mál­um. Svar Íslands er að sögn Álfrún­ar jafn­an á þá lund að ein­hver vinna sé í gangi. „Ég veit ekki al­veg hver staðan er í dag. En auðvitað er ný­búið að segja frá hagræðing­ar­til­lög­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem þjóðin tók þátt í að móta. Ég hef ekki heyrt af neinu öðru ríki sem hef­ur beðið al­menn­ing um hagræðing­ar­til­lög­ur í rík­is­rekstri. Ég veit ekki hverju svona víðtækt sam­ráð skil­ar en ég vona að sjálf­sögðu að þetta leiði til hagræðing­ar sem skil­ar sér í áætlana­gerðina.“

Kerfisbundnar hagræðingar bestar

Álfrún seg­ir að Dan­mörk og Hol­land séu dæmi um lönd sem lengi hafa notað út­gjalda­grein­ing­ar með góðum ár­angri. „Ég er ekki að segja að þetta sé töfra­lausn en ef þetta er gert kerf­is­bundið þá færðu á end­an­um miklu hag­kvæm­ari rík­is­fjár­mál. Á Íslandi hef­ur sögu­lega séð verið svo­lítið hringl í út­gjalda­mál­un­um, þó svo að breyt­ing­ar á ramma um op­in­ber fjár­mál sem lög um op­in­ber fjár­mál höfðu í för með sér hafi haft góðar breyt­ing­ar í för með sér.“

Íslandi er þó ekki alls varnað að mati Álfrún­ar og margt er já­kvætt. „Þar má nefna að sam­ræðan er oft góð inn­an kerf­is­ins og milli ráðherra, kannski vegna smæðar lands­ins og styttri boðleiða. Þing­leg umræða um fjár­lög er einnig góð á Íslandi. Í Dan­mörku hafa for­sæt­is­ráðherra og fjár­málaráðherra verið úr sama flokki að mestu leyti síðan 1984 og það get­ur auðveldað sam­talið í kring­um hagræðing­ar­mál. Þetta hef­ur ekki verið raun­in á Íslandi und­an­far­in ár en það þarf að sjálf­sögðu að ríkja þver­póli­tísk­ur stuðning­ur um þessi mál.“

Eft­ir fjár­mála­hrunið 2008 var ráðist í snarp­an niður­skurð á Íslandi. „Það var hins veg­ar ekki mik­il grein­ing þar á bak við og þá get­ur verið hætta á að niður­skurður komi aft­an að fólki. Ef skýr­ar grein­ing­ar liggja að baki hagræðing­ar­til­lög­um er lík­legra að verið sé að skera niður á sviðum sem koma sér ekki illa fyr­ir grunn­innviði sam­fé­lags­ins,“ sagði Álfrún.