Það er hægt að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur í dag sé fyrst og fremst markaðsdrifinn á meðan hann er enn auðlindadrifinn í flestum öðrum löndum. Á þessu er mikill munur og þetta skýrir árangur íslensks sjávarútvegs, hér vita menn að það verður að ná eins miklum verðmætum og unnt er úr hráefninu þar sem það er takmarkað. Því hefur áhersla á gæði hráefnisins og fullnýtingu fisksins orðið að lykilatriði í íslenskum sjávarútvegi.
Þessu til viðbótar kemur há framleiðni í íslenskum sjávarútvegi, sérstaklega í alþjóðlegu samhengi. Þessi mikla framleiðni er drifin áfram af tækninýjungum, skilvirku kvótakerfi og áherslu á verðmætasköpun fremur en magni. Samkvæmt rannsóknum dr. Ágústs Einarssonar, prófessors og höfundar bókarinnar Íslenskur sjávarútvegur í alþjóðlegu samhengi, er framleiðni í sjávarútvegi talsvert meiri en í öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Greinin skilar um 20% af landsframleiðslu þegar tengdar greinar, eins og vélbúnaðarframleiðsla og markaðsstarf, eru teknar með, og er næststærsta útflutningsgrein landsins á eftir ferðaþjónustu.
Auðlindadrifin umræða
Umræðan um sjávarútveg hér á landi byggist hins vegar á því að auðlindin skipti öllu og því er með réttu hægt að segja að við séum enn á ný að fá einhvers konar auðlindadrifna umræðu með slagorðakenndu ívafi í tengslum við nýtt veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Vandi slíkrar umræðu er sá að aðalatriðunum er vikið til hliðar og aukaatriðin látin ráða öllu.
Það gerir auðvitað starfsskilyrði sjávarútvegsins erfið ef stór hluti landsmanna lítur svo á að greinin sé fyrst og fremst einhvers konar skattandlag, ætlaður ofurhagnaður sjávarútvegsins kalli á ofurskattlagningu. Vitaskuld er það ekki svo. Sjávarútvegurinn berst við það eins og aðrar atvinnugreinar að framleiða vöru, markaðssetja hana á hörðum samkeppnismarkaði og að endingu reynir hann að ná arðsemi út úr fjárfestingum sínum.
Óhjákvæmilegur fylgifiskur þessarar auðlindadrifnu umræðu er sá að greinin fær ekki að þróast með eðlilegum hætti. Á meðan margir hafa talað fyrir því að auka verðmætasköpun sjávarfangs eins og unnt er og setja þannig nýjar stoðir undir efnahag landsins virðast aðrir telja að sjávarútvegurinn eigi ekki að fá að þróast áfram á eigin forsendum. Þess í stað beri honum að greiða auðlindaskatt af áður óþekktri stærðargráðu sem kemur ofan á aðra skatta sem sjávarútvegurinn greiðir, rétt eins og önnur fyrirtæki í landinu. Þeir sem tala fyrir slíku verða að koma með sterkari rök fyrir máli sínu en við höfum séð til þessa.
Framleiðnin er lykilatriði
Margir fræðimenn og rannsakendur hafa komið með mikilsverða sýn á sjávarútveginn. Þannig hefur Íslenski sjávarklasinn í gegnum tíðina sent frá sér áhugaverðar greiningar. Í skýrslu þeirra frá árinu 2014 mátti lesa eftirfarandi: „Sjávarútvegurinn er mikilvægasta atvinnugrein landsins að því leyti að hún stenst alþjóðlegan samanburð með tilliti til framleiðni og skilar þar að auki mjög miklum virðisauka til þjóðarbúsins í formi launa og hagnaðar.“ Þessi fullyrðing, sem verður ekki hafnað, er gríðarlega mikilvæg til að skilja mikilvægi sjávarútvegsins í íslenska hagkerfinu.
Á meðan margar atvinnugreinar og þá sérstaklega hið opinbera glímir við slaka framleiðni þá hefur sjávarútvegurinn náð umtalsverðum árangri, meðal annars vegna þess hve mikil áhersla hefur verið á að fjárfesta í greininni, há arðsemi kallar á miklar fjárfestingar og miklar fjárfestingar skapa svo aftur háa arðsemi. Lykilþáttur þar er geta sjávarútvegsins til að fjárfesta í nýjum framleiðslutækjum. Margir þeirra sem gagnrýna fyrirkomulag og þróun í veiðum og vinnslu hér á landi gagnrýna einnig skort á framleiðni hér á landi. Það hlýtur því að vera lærdómsríkt fyrir þá hina sömu að sjá hvernig sjávarútveginum hefur tekist að auka framleiðni sína jafnt og þétt. Halda menn að slíkt gerist af sjálfu sér?
Tæknibylting sjávarútvegsins
Það hefur sýnt sig að í þessari miklu fjárfestingaþörf sjávarútvegsins felst einnig mikilvægt viðskiptatækifæri fyrir fjölmörg tæknifyrirtæki sjávarklasans á Íslandi. Í áðurnefndri skýrslu var bent á að hægt væri að tala um tæknibyltingu í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða hér á landi. Með fjárfestingu er verið að senda jákvæð skilaboð um bætta hráefnanýtingu og aukna verðmætasköpun. Það hefur meðal annars birst í breyttum áherslum í vinnslu uppsjávarfisks til manneldis og aukinni ferskfiskvinnslu bolfisks. Allt hefur þetta sýnt getu íslensks sjávarútvegs til að bregðast við breyttum ytri aðstæðum og samkeppnisstöðu sinni á alþjóðlegum markaði.
Í áðurnefndri skýrslu var bent á að sögulega lág atvinnufjárfesting sé meiriháttar vandamál í fjölmörgum atvinnugreinum á Íslandi og bent á samhengi sem mikilvægt er að hafa í huga. „Þessi litla fjárfesting á sér vafalítið margar rætur, sú augljósasta er erfið eiginfjárstaða margra fyrirtækja. Önnur rót vandans er kerfislægur í íslenska hagkerfinu þar sem vinnuafl er í mörgum tilfellum einfaldlega ódýrara en fjármagn við núverandi aðstæður á Íslandi. […] Samkeppnisforskot Íslands í framleiðslu sjávarafurða liggur því nú að hluta í lágum framleiðslukostnaði í landi þar sem hægt er að fullvinna afurðir.“ Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar skoðað er samhengi milli mikilvægis fjárfestinga og framleiðniaukningar. Þar skiptir miklu að láta ekki annað, svo sem stjórnvaldsákvarðanir, rugla myndina.
Hóflegar arðgreiðslur
Arðsemi íslensks sjávarútvegs er breytileg milli ára og fyrirtækja, en gögn benda til þess að greinin hafi almennt verið arðbær, þó með lægri arðgreiðslum miðað við annað viðskiptahagkerfi. Samkvæmt Hagstofu Íslands voru arðgreiðslur í sjávarútvegi á árunum 2013 til 2022 að meðaltali 34% af hagnaði, samanborið við 41% í öðru viðskiptahagkerfi. Þetta gefur til kynna stöðuga en hóflega arðsemi, sem skýrist meðal annars af miklum fjárfestingum í tækni, skipum og vinnslu, auk áhættu vegna sveiflna í fiskistofnum og markaðsverði. Þetta er önnur mynd en dregin er upp í umræðunni núna þar sem sumir telja að háar arðgreiðslur réttlæti aukna skattheimtu.
Sjávarútvegurinn er burðarás í íslensku efnahagslífi, með um 40% af útflutningstekjum, en arðsemi er háð ytri þáttum eins og náttúruöflum, alþjóðlegri samkeppni og regluverki. Við getum ekki tekið því sem sjálfsögðum hlut að þetta verði svona í framtíðinni.