c

Pistlar:

7. júní 2025 kl. 13:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump, Musk og skuldafjallið

Málsmetandi hagfræðingar innan Bandaríkjanna hafa um árabil haft áhyggjur af vaxandi skuldasöfnun ríkisins. Einn þeirra sem mælt hafa fram helstu varnaðarorðin er David M. Walker, sem var ríkisendurskoðandi Bandaríkjanna (Comptroller General of the United States) frá 1998 til 2008. Walker hefur ítrekað varað við skuldasöfnun Bandaríkjanna og efndi meira að segja á tímabili til fundaherferðar um Bandaríkin til að upplýsa almenning um vandann.musk trump

Walker hefur bent á að vaxandi ríkisskuldir og ósjálfbærar fjárhagslegar skuldbindingar, eins og í almannatryggingum og heilbrigðiskerfinu, ógni fjárhagslegri sjálfbærni landsins. Walker hefur talað um þetta í ýmsum viðtölum og birt um þetta greinar og skýrslur, bæði meðan hann gegndi embætti og eftir það. Hann er einn fjölmargra sem skrifuðu undir ákall til stjórnvalda nú 2. júní um að brugðist verði við.

Í gær viðraði Nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman áhyggjur sínar af alþjóðlegum og opinberum skuldum Bandaríkjanna þar sem hann benti á að viðvörunarmerki bærust í senn frá hlutabréfa-, skuldabréfa- og gjaldeyrismarkaði en Bandaríkjadalurinn hefur gefið talsvert eftir undanfarið og meðal annars lækkað um ríflega 10% gagnvart evrunni frá áramótum.

Samkvæmt fjölmörgum óháðum greiningum er gert ráð fyrir að frumvarpið, „One Big Beautiful Bill Act“ (OBBBA), sem samþykkt var af fulltrúadeildinni í maí 2025, muni auka verulega halla og skuldir alríkisstjórnarinnar á næsta áratug. Fjárlagaskrifstofa þingsins (CBO) áætlar að frumvarpið muni bæta 2,4 trilljónum dala við frumhalla til ársins 2034, þar sem heildarskuldir aukast um næstum 3 trilljónir dala þegar vaxtakostnaður er meðtalinn, eða allt að 5 trilljónir dala ef tímabundin ákvæði (eins og skattalækkanir) verða gerð varanlegar. Ekki er langt síðan fjallað var um þennan skuldavanda Bandaríkjanna hér í pistli.

Skuldahlutfallið í 134% af landsframleiðslu?

Aðrar áætlanir, eins og frá nefndinni um ábyrga alríkisfjárlagagerð (CRFB), gera ráð fyrir að halli aukist um 3,3 trilljónir dala í 5,3 trilljónir dala, sem gæti hugsanlega aukið skuldahlutfallið af landsframleiðslu úr 100% í 124 til 133% fyrir árið 2034. Skattalækkanir frumvarpsins, sem nema samtals 3,7 til 4,1 trilljón dala, vega þyngra en 1,3 til 1,7 trilljóna dala í útgjaldalækkunum. Þetta knýr áfram vöxt hallans. Walker sagði á samfélagsmiðlinum X að fullyrðingar stuðningsmanna, þar á meðal Hvíta hússins, um að frumvarpið dragi úr halla um 1,4 til 1,6 trilljónir Bandaríkjadala byggja á umdeildum forsendum, svo sem tekjum af tollum og kostnaði við að vega upp á móti hagvexti, sem óháðar greiningar vísa að mestu leyti á bug sem ófullnægjandi við að koma í veg fyrir aukningu hallans.

Öllum ber saman um að skuldastaða Bandaríkjanna sé komin á hættulegt stig og hefur þetta fyrst og fremst gengið upp vegna þess að Bandaríkjamenn hafa rekið heimsmyntina en sem kunnugt er getur fræðilega engin þjóð orðið gjaldþrota í eigin mynt. Ríkissjóður prentar bara meira af seðlum og uppsker að endingu verðbólgu sem hæfir efnahagsstjórninni.musk2 trump

Hagræðingarvonbrigði

Þetta er sá hagfræðilegi veruleiki sem Bandaríkin undir stjórn Donalds Trump búa við en frá því að hann tók við embætti hefur verið reynt að bregðast við þessu. Um leið hefur mikið verið fjallað um mis­notk­un á op­in­beru skatt­fé og frá upphafi ætlaði Trump að taka hressi­lega til í rík­is­fjár­mál­um. Þar ætlaði hann að njóta ráðgjafar og aðstoðar Elon Musk og teymis hans en sem kunnugt er þá eru þeir komnir í hár saman yfir framhaldi aðgerðanna. Vegna þess ríkir mikil þórðargleði meðal andstæðinga Trumps en margir fjölmiðlar, þar á meðal Ríkisútvarpið, fjalla aldrei um það sem er í húfi.

Upp­haf­lega var það ætlun Trumps að lækka rík­is­út­gjöld um 2.000 millj­arða doll­ara en fljótlega var sú tala lækkuð í 1.000 millj­arða doll­ara. Samkvæmt vefsíðu hagræðing­ar­verk­efn­is­ins D.O.G.E. (www.doge.gov) nem­ur áætlaður sparnaður ein­ung­is 175 millj­örðum doll­ara. Það eru örugglega gríðarleg vonbrigði fyrir Trump og Musk og hefur haft áhrif á vinskap þeirra. Walker og allir málsmetandi hagfræðingar hafa bent á að án raun­veru­legra aðhaldsaðgerða munu rík­is­út­gjöld halda áfram að aukast hraðar en tekj­ur rík­is­sjóðs. Banda­rík­in stefna áfram í að reka rík­is­sjóð með 6-7% halla. Þetta þýðir á manna­máli að fyr­ir hverja 100 doll­ara sem ríkið inn­heimt­ir í skatt­tekj­ur greiðir það 106 doll­ara út í hag­kerfið aft­ur eins og Guðlaug­ur Stein­arr Gísla­son, fjár­fest­inga­stjóri og meðstofn­andi Visku Digital As­sets ehf., benti á í ágætri grein í ViðskiptaMogganum í vikunni.

Hagkerfið er viðkvæmt

Hagkerfið getur verið viðkvæmt á margan hátt og eitt hefur yfirleitt áhrif á annað. Þannig getur skörp lækk­un rík­is­út­gjalda haft nei­kvæð áhrif þegar minnk­andi rík­is­út­gjöld leiða til minni neyslu, sem dreg­ur úr tekj­um fyr­ir­tækja og skatt­tekj­um rík­is­sjóðs. Þannig gæti niður­skurður jafn­vel ekki dregið úr halla rík­is­sjóðs til skamms tíma, því bæði skatt­tekj­ur og út­gjöld myndu drag­ast sam­an. Allar slíkar aðgerðir krefjast pólitískrar sýnar og stjórnmálalegs styrks.

Guðlaugur Steinar bendir á að hugsanlega geti hraður sam­drátt­ur rík­is­út­gjalda sett banda­rískt hag­kerfi í skarpa niður­sveiflu. Hann vitnar til Scott Bessent, fjár­málaráðherra í rík­is­stjórn Don­ald Trump, sem hefur tjáð sig um það. Þar kveður við nýj­an tón sem bend­ir sterk­lega til þess að þetta sterka sam­hengi rík­is­fjár­mála og hag­vaxt­ar hafi á end­an­um stór­lega dregið úr áætluðum niður­skurði.aaabudget

Ofan á annað þarf Don­ald Trump að huga að kosn­ing­um á næsta ári í full­trúa­deild­inni og það er aug­ljóst að það eyk­ur ekki vin­sæld­ir stjórn­mála­manna að skera niður rík­is­út­gjöld, þótt slík­ar aðgerðir væru heil­brigðar til lengri tíma. Þetta er þekkt­ur freistni­vandi í lýðræðis­ríkj­um þar sem skamm­tíma­hags­mun­ir og at­kvæðaveiðar vega oft­ar þyngra en lang­tíma­hags­mun­ir þjóðar­inn­ar.

Í dag er ávöxtunarkrafa á skuldabréf ríkissjóðs Bandaríkjanna komin á svipað stig og árið 2007, þegar dró að fjármálakreppunni 2008. Mikilvægur munur er hins vegar sá að skuldastaða ríkissjóðs Bandaríkjanna var þá um 60% af vergri landsframleiðslu en er nú um að nálgast 120% af vergri landsframleiðslu. Það þætti meira að segja skuldugum þjóðum Evrópu hátt.