c

Pistlar:

19. júní 2025 kl. 17:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin arabíska Evrópa

Mörg teikn eru um að yfirstandandi mannfjöldaþróun muni breyta Evrópu hratt á næstu áratugum. Sumt af því verður framhald af þeim breytingum sem hafa átt sér stað síðustu áratugina en nokkrir þættir standa upp úr. Fæðingartíðni heimamanna hefur fallið hratt en um leið hefur innstreymi fólks annars staðar frá aukist. Fæðingartíðni meðal innflytjenda er há og það, ásamt meiri innflutningi fólks, mun hafa mest áhrif á þróun samfélaga. Innan Evrópu verður þróunin hins vegar nokkuð ólík ef fer sem horfir en lönd Austur-Evrópu taka við mjög fáum innflytjendum og munu fyrir vikið verða allt öðruvísi samansett en lönd Vestur-Evrópu þegar fram líða stundir og eru það reyndar nú þegar. Munurinn verður þó enn meira áberandi í framtíðinni.aaislam2

Eitt af því sem margir velta fyrir sér er hvernig þjóðfélagsgerðin breytist. Hvert verður hlutfall fólks á vinnandi aldri í samanburði við þá sem eru komnir út af vinnumarkaði? Einnig hvernig samsetning vinnuafls verður en þó ekki síst hvernig trúarleg staða mun breytast en múslímum fjölgar nú hratt í mörgum löndum Vestur-Evrópu. Í Frakklandi eru um 10-12% íbúa múslímar, aðallega vegna innflytjenda frá Norður-Afríku. Hlutfallið er hærra í sumum borgum eins og Marseille, þar sem um 25% íbúa eru múslímar. Í Svíþjóð er sömuleiðis talið að um 10-12% íbúa séu múslímar, sérstaklega í borgum eins og Malmö þar sem þeir eru 26% íbúa. Í Belgíu er áætlað að um 10-11% íbúa séu múslímar en hærra hlutfall í borgum eins og Brussel (um 25%) og Antwerpen (um 17%). Spár gera ráð fyrir að þetta hlutfall hækki nokkuð skarpt í öllum þessum löndum en veruleg aukning múslíma hefur einnig orðið í Englandi og Hollandi, svo dæmi sé tekið.

Afkristnun Evrópu

Sagnfræðingurinn kunni Niall Ferguson ræðir gjarnan lýðfræði, fólksfækkun og menningarlegar breytingar í Evrópu, þar á meðal í Bretlandi en hann er fæddur í Skotlandi. Hann hefur lýst yfir áhyggjum af lýðfræðilegum breytingum í Evrópu, sérstaklega í tengslum við fækkun fæðinga meðal innfæddra Evrópubúa og aukinn straum innflytjenda sem hann tengir við hugmyndir um „Eurabi“ og breytingar á menningarlegri samsetningu álfunnar. Í grein sinni „Eurabia?“ (2004) ræðir hann um afkristnun (de-Christianization) Evrópu og lækkandi fæðingartíðni sem hann taldi veikja álfuna gagnvart vaxandi áhrifum íslams. Segja má að hann hafi verið þar nokkuð framsýnn um þróun mála en augljóslega var hann að vísa í og nota hugmyndir rithöfundarins Bat Ye'or sem ganga út á að áhrif múslíma í Evrópu muni fara vaxandi vegna lýðfræðilegra breytinga. Meðfylgjandi mynd er frá bænakalli múslíma á Ítalíu en þar er íslam ekki viðurkennt sem trúfélag.aaislam

Gisèle Littman, sem síðar tók sér nafnið Bat Ye'or (dóttir Nílar), er egypskur rithöfundur af gyðingaættum. Hún flúði Egyptaland með fjölskyldu sinni í kringum Suez-deiluna og settist að í Englandi og Sviss og hefur gefið út nokkrar bækur sem eru umdeildar en hafa vakið athygli vegna þess að áhrif múslíma í Evrópu hafa vaxið stöðugt síðustu áratugi. Þó að margt sem Bat Ye'or hefur skrifað hafi verið afgreitt sem samsæriskenningar hafa þær hugmyndir sem hún setti fram í bókinni Eurabia: The Euro-Arab Axis (2005) verið lífseigar og stutt við hugtakið „Eurabia“ sem vísar til kenningar hennar um að Evrópa sé að ganga í gegnum lýðfræðilega og menningarlega umbreytingu vegna aukins innflæðis múslíma, lækkandi fæðingartíðni meðal innfæddra Evrópubúa og þó ekki síst stefnu evrópskra stjórnvalda sem hún telur stuðla að vaxandi áhrifum íslams. Allt þetta lítur hún á sem ógn við evrópska menningu og sjálfsmynd.

Hún varar við að Evrópa sé að missa kristna arfleifð sína og menningarlega samheldni vegna veraldarhyggju og vaxandi áhrifa íslams, sem hún telur ósamrýmanlegt vestrænum gildum í núverandi formi.aaislam3

Undirgefni evrópskra samfélaga

Bat Ye'or hefur einnig notað hugtakið „dhimmitude“ til að lýsa því sem hún sér sem undirgefni evrópskra samfélaga gagnvart íslömskum áhrifum og horfir þá til áhrifa trúarlegra minnihlutahópa múslímaríkjum. Hún telur að evrópsk stjórnvöld sýni veikleika með því að laga sig að kröfum múslíma um menningarlega sérstöðu. Þar tekur hún undir það sem Ayaan Hirsi Ali, fyrrverandi þingmaður og eiginkona áðurnefnds Nialls Fergusons, segir og oft hefur verið vitnað til hér í pistlum.

Báðar eru þær Bat Ye' og Ayaan Hirsi Ali ómyrkar í máli og vara ítrekað við því að Evrópa gæti orðið „Eurabia“ þar sem íslömsk menning og lög (t.d. sjaríalög) verði ríkjandi. Það telja þær stöllur að ógni lýðræði, frelsi og vestrænum gildum.

Það er engum blöðum um það að fletta að kenning Bat Ye' hefur verið umdeild og hefur sætt gagnrýni fyrir að ýkja lýðfræðilegar breytingar, stuðla að íslamsfóbíu og einfalda flókin félagsleg og pólitísk ferli. Þó er það svo að áhrifamikill sagnfræðingur eins og Niall Ferguson styður sumar af þessum hugmyndum í skrifum sínum, til dæmis í áðurnefndri grein frá 2004. Hann fjallar þar eins og áður segir um lýðfræðilegar áskoranir Evrópu en sneiðir fram hjá samsæriskenningum um skipulagt samstarf og einblínir meira á menningarlegar og efnahagslegar afleiðingar. Meðfylgjandi mynd er frá Danmörku.getto

Fræðimenn og átök menningaheima

Hér gæti verið freistandi að nefna til fleiri fræðimenn sem hafa reynt að skoða þessi menningarátök. Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Samuel P. Huntington (1927-2008) lagði þar talsvert til málanna en hann gerði tilraun til að varpa nýju ljósi á skipan mála innan alþjóðakerfisins. Huntington taldi miklar líkur á að íslamski menningarheimurinn yrði annar aðilinn af tveimur í staðbundnum átökum menningarheima. Að sumu leyti tóna kenningar Huntingtons ágætlega við það hvernig vestræn nútímavæðing hefur stuðlað að upprisu menningarheimanna. Kenningar hans gætu einnig hæglega átt við þá þróun sem hefur átt sér stað í Mið-Austurlöndum þar sem íslömsk hryðjuverkasamtök voru lengst af í sífelldum vexti eins og fjallað hefur verið um í pistlum en lögleysuríki hafa víða tekið yfir sem stjórnað er af stríðsherrum jihadista.

Einn fræðimaður í viðbót hefur verið nefndur á þessum vettvangi en það er sagnfræðingurinn Bernard Lewis (1916-2018) sem var doktor í íslömskum fræðum og skrifaði fjölmargar bækur um íslam og sögu þess. Lewis var mjög gagnrýninn á íslam og taldi erfiðleika í stjórnarfari Arabalandanna að mestu hugmyndafræði íslam að kenna. Hann hafði miklar efasemdir um getu Vesturlanda til að berjast gegn áhrifum íslamista sem hafa skotið djúpum rótum í vestrænni menningu. Þar horfir hann til lýðfræði og mikils og aukins innflutnings múslíma til Vesturlanda.