Forsætisráðherra heimsótti Vestfirði í síðustu viku í von um að slá á óánægju Vestfirðinga með fyrirhugaða hækkun á auðlindagjaldi sjávarútvegsins. Sumum kann að þykja þetta samráð heldur seint fram komið því stjórnarliðar hafa boðað að frumvarpinu verði ekki breytt og hafa dæmt alla umræðu um veiðigjöldin í þinginu sem málþóf. Þegar forsætisráðherra mætti vestur blöstu staðreyndir við henni. Efnahags- og menningarlíf á Vestfjörðum er í blóma. Íbúum fjölgar og nemendur á öllum skólastigum svæðisins hafa ekki verið fleiri í tugi ára. Rekstur fyrirtækja gengur ágætlega og huga mörg þeirra að auknu mannahaldi og fjárfestingum. Rekstur sveitarfélaganna gengur miklu betur en áður.
Af fréttum að ráða var ekki einn einasti maður á fundi forsætisráðherra sem studdi hækkun veiðigjalda eins og það liggur fyrir frá ríkisstjórninni. Skipti litlu að ráðherra lofaði að lagt yrði auðlindagjald á þá sem nytu náttúruauðlinda til húshitunar og raforku. Aðgerð sem virðist stefnt að þeim sem hafa aðgengi að hagkvæmri orku til húshitunar. Getur verið að forsætisráðherra hafi talið það vænlegt í veiðigjaldaumræðunni að lofa nýjum sköttum? Þar sem öll veitufyrirtæki landsins eru í opinberri eigu mun engir aðrir en neytendur verða að greiða þessa nýju hitaveituskatta, það segir sig sjálft.
Í framhaldi af vesturferð Kristrúnar hafa aðrir landsbyggðamenn óskað eftir samtali við forsætisráðherra um skattheimtuna sem er mjög tortryggð á landsbyggðinni eins og sést í nánast öllum innkomnum umsögnum frá sveitastjórnum þar. Sem fyrr óttast fólk úti á landi að þar með sé Reykjavíkurvaldið að soga til sín fjármagn úr atvinnustarfsemi á landsbyggðinni.
Atvinnustefna athafnamannsins
En staðan nú er sérlega þungbær fyrir Vestfirðinga sem um árabil áttu í hinum mestu vandræðum í kjölfar upptöku kvótakerfisins eins og rifjað var hér upp varðandi Suðureyri fyrir stuttu. Síðustu ár hefur hins vegar rofað til, meðal annars vegna fjárfestinga í fiskeldi og ferðaþjónustu. Einnig skiptir miklu velheppnuð uppbygging lækningafyrirtækisins Kerecis á Ísafirði undir stjórn Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar sem hefur barist fyrir að halda eftir sem mestu af starfsemi félagsins fyrir vestan þrátt fyrir sölu til erlends stórfyrirtækis. Í framhaldinu hefur hann orðið einn einbeittasti talsmaður atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum.
Velgengni Guðmundar Fertrams og rökfesta hefur skapað mikil vandræði fyrir áform ríkisstjórnarinnar. Það vakti því athygli að Heimir Már Pétursson, framkvæmdastjóri og upplýsingafulltrúi þingflokks Flokks fólksins, skyldi skrifa þetta innlegg um Guðmund Fertram á Facebook-vegg Oddnýjar Harðardóttur: „hann er maður sem skuldar útgerðinni greiða fyrir að hafa fjárfest í fyrirtæki hans sem gerði hann að milljarðamæringi. Útgerðin fyrir vestan þolir vel aðeins hærra veiðigjald og fær góðan afslátt af því.“ Þetta er hörð árás frá Vestfirðingnum Heimi Má á Guðmund sem einn og óstuddur hefur sett upp og haldið utan um Innviðafélag Vestfjarða.
„Efnahagslegt ævintýri“
Guðmundur Fertram fór nýlega yfir stöðu mála í Þjóðmálaþætti með Heiðari Guðjónssyni fjárfesti. Þar benti Guðmundur á að Vestfirðir gengu í gegnum niðurlægingarskeið upp úr 1980 þegar ofveiði hafði kallað yfir sjávarútveginn kvótakerfi. Það hafi tekið tímann að aðlagast því en núna séu Vestfirðirnir loksins búnir að ná vopnum sínum og þar sé nú uppsveifla, nokkuð sem Guðmundur kallaði „efnahagslegt ævintýri.“ Um leið vakti hann athygli á að nú sé mjög hátt atvinnustig á Vestfjörðum samfara fólksfjölgun. Þannig hafi aldrei verið fleiri í Menntaskólanum á Ísafirði en í vetur.
Guðmundur benti á að það gengi allt vel fyrir vestan, hátæknistörf, kafarar, dýralæknar og tölvunarfólk sem er að stýra róbótum sem skammta fæði fyrir laxinn. Með öðrum orðum, það gengur allt vel núna og þegar þessi efnahagslegi vöxtur er hafinn vegna undirliggjandi reksturs fyrirtækja. Um leið sé skattspor Vestfirðinga að stækka, landsmönnum öllum til ábata. Skattar séu að skila meiru að krónutölu en áður og ef litið sé fimm ár fram í tímann geti skattspor Vestfjarða tvöfaldast og orðið 60 milljarðar króna auk þeirra 40 milljarða sem Kerecis sé að fara að borga fyrir sölu á einkaleyfum til móðurfyrirtækisins. Guðmundur bendir á aðalatriði málsins. Nú séu horfur á allt að 100 milljarða skatttekjum fram í tímann en þessar tekjur hafi verið 30 milljarðar ef horft er aftur í tímann. Þessu er stefnt í hættu.
Veiðigjaldafrumvarpið sagði Guðmundur Fertram að það myndi snerta 11 fyrirtæki á Ísafirði en í umsögn sem hann sendi atvinnuveganefnd þingsins að frumvarpið muni með „einu pennastriki“ soga meira en hálfan milljarð króna árlega úr vestfirsku efnahagslífi til höfuðborgarsvæðisins.“