c

Pistlar:

26. júní 2025 kl. 15:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjórar eða fjórtán fjölskyldur?

Forsætisráðherra hélt því fram í Kastljósi á mánudagskvöldið að tvöföldun veiðigjalda hefði bara áhrif á fjórar til fimm fjölskyldur í landinu og hagsmunabaráttan í málinu snérist um þessar fjölskyldur. Ummælin eru athyglisverð en þarna má segja að Kristrún Frostadóttir hafi gengið inn í þekktan kenningaheim sem gengur út á að auðugar og áhrifamiklar fjölskyldur stýri stórum hluta auðs og valds í samfélögum. Þessar kenningar eru nokkuð vinsælar, bæði í almennri umræðu og innan ákveðinna fræðasviða og koma oft fram í tengslum við samsæriskenningar.

Sumir trúa því að ákveðnar fjölskyldur, eins og Rothschilds, Rockefellers eða aðrar „elítur“, stýri eða hafi stýrt alþjóðlegum fjármálum og pólitískum ákvörðunum lengst af á 20. öldinni. Þessar kenningar hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga á netinu en skortir oft haldbær gögn og geta stundum byggst á staðalímyndum og ófullkomnum gögnum.aafjöl

Ekki er langt síðan vinstra blaðið Heimildin birti langa umfjöllun af líkum toga og forsætisráðherra var að ræða en þar skrifaði blaðamaðurinn Aðalsteinn Kjartansson, sem var einu sinni í flokki forsætisráðherra, að inn­an við tíu fjöl­skyld­ur eigi og stýri stærstu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­um lands­ins. Segja má að þar taki Heimildin upp boltann þar sem tímaritið Þjóðlíf skyldi við hann fyrir svo sem 35 árum. Nú skrifar Heimildin: „Þau fyr­ir­tæki sem skráð hafa ver­ið á mark­að eru enn und­ir stjórn, og að uppi­stöðu í eigu, þeirra ein­stak­linga sem fengu gjafa­kvóta. Fjár­fest­ing­ar eig­enda út­gerð­anna í öðr­um og óskyld­um grein­um nema tug­um millj­arða og teygja sig í maj­ónes­fram­leiðslu, skyndi­bitastaði, trampólín­garða og inn­flutn­ing á bleyj­um og síga­rett­um.“ Þetta er marxísk hugsun en í raun er verið að ýta undir þá hugmynd að það sé eitthvað óhreint við að einhverjir efnist. Skipting kökunnar er aðalatriðið en ekki stærð hennar.

Ekki ný kenning

Hugmyndin um að fáar fjölskyldur eigi allt og stýri öllu bak við tjöldin er ekki ný. Sá er þetta skrifar fjallaði um tilvist slíkra kenninga og reyndi að grennslast fyrir um uppruna og áreiðanleika í blaðagrein í vikublaðinu Pressunni árið 1991. Þá var Gunnar Smári Egilsson, sem síðar stofnaði Sósíalistaflokk Íslands, ritstjóri blaðsins en segja má að tilgáta okkar sem skrifuðum þetta hafi snúist um að þeir stjórnmálamenn sem þetta ræddu væru í raun ekki með þróaðar kenningar þar um. Það kom á daginn en við ræddum við nokkra þjóðþekkta einstaklinga sem höfðu daðrað við slík hugtök. Margt í þeim samtölum var spaugilegt en vitaskuld var mjög á reiki hve margar fjölskyldurnar voru og einnig deildu menn um hver ætti heiðurinn af því að tala um „fjölskyldurnar fjórtán“, eða fimmtán eins og Indriði G. Þorsteinsson rithöfundur og ritstjóri taldi rétt að gera. Hér er stutt samtal við Ólaf Ragnar Grímsson úr umfjöllun Pressunnar:

Spurðu Jón Baldvin!

Hverjar eru fjölskyldurnar 14?
„Spurðu Jón Baldvin Hannibalsson.“
Hann er þá aðalhöfundurinn að þessu?
„Já.“
En hverjar eru þessar fjölskyldur?
„Ég ætla nú ekki að gera grein fyrir því í stuttu símtali við PRESSUNA. Það hafa verið skrifaðar ágætar greinar um þetta í ýmsum öðrum fjölmiðlum — Þjóðlífi meðal annars.“
En eru fjölskyldurnar 14 að tölu?
„Það fer náttúrlega eftir því hvað þú vilt draga stóran hring. Sumar þeirra eru svo tengdar innbyrðis að þær renna saman í eitt,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson 1991.

Össur Skarphéðinsson, lærisveinn Ólafs Ragnars, viðurkenndi að þessi skilgreining hefði verið notuð talsvert á Þjóðviljanum í hans tíð.kristrúnkast

Nýjar valda- og auðsfjölskyldur

Það er lærdómsríkt að fara yfir þessa gömlu umræðu en umræða um slíkar fjölskyldur er þekkt fyrirbæri í efnahagslífi og stjórnmálum. Er þá talið að auður safnist á fárra hendur oft og tíðum í skjóli einokunar eða jafnvel sérstakra pólitískra tengsla.

En fjölskyldurnar sem voru til umræðu 1991 eiga engin ítök í íslenskum sjávarútvegi í dag og margar þeirra eru reyndar ekki nema svipur hjá sjón. Það minnir okkur á Skarðsættina gömlu sem á tímabili var talin eiga um 20% jarðnæðis á landinu en á í vandræðum með að reka höfuðbólið Skarð í dag.

Það dylst engum að slík minni um fjölskylduveldi ferðast landa á milli og eiga sér stundum menningarlegar forsendur. Í sumum samfélögum er talað um „fjölskylduveldi“ í viðskiptum eða stjórnmálum, þar sem ákveðnar fjölskyldur eru taldar halda völdum. Það á ágætlega við um Ísland og Engeyjarættin svonefnda er skýrasta dæmið um það en hún á auðvitað enga aðkomu að sjávarútvegi í dag. Einnig getur umræða sem þessi komið fram þegar rætt er um tengslanet (nepotism) en slík umræða er algeng í litlum samfélögum.

Kom Sigurður Líndal kvótakerfinu á?

Það er erfitt að sjá af hverju Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra fer af stað með slíka umræðu um eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna og hún virðist ekki áhugasöm um að halda henni til streitu. Eins og hér hefur komið fram eru valda- og auðsfjölskyldur landsins breytingum undirorpnar. En umræðan er samt alltaf sjálfri sér lík þó að það sé nýmæli að forsætisráðherrar séu að taka undir slíkt.

Það má rifja hér upp að einn af hápunktum hinnar umdeildu bókar Þorvalds Logasonar um Eimreiðarelítuna sem kom út fyrir nokkrum árum er kaflinn „Veiðiheimildir að varanlegri séreign? Yfirráð og misnotkun lögskýringarvaldsins“(bls. 145-154). Þar leitar Þorvaldur í smiðju hjá norskum lagaprófessor, Fleischer að nafni, höfundi bókarinnar „Spillingarkúltúr, frændhygli og umboðssvik í Noregi“. Þorvaldur segir: „Í sölunni á kvótakerfinu til almennings lék Sigurður Líndal, þá leiðandi lagaprófessor við Háskóla Íslands, lykilhlutverk.“ Þorvaldur rekur lögskýringar Sigurðar lið fyrir lið og greinir þær eftir spillingarkenningu Fleischers, finnur skýra samsvörun og jafnar þeim m.a.s. til umboðssvika, jafnvel fjársvika.

Auðvitað rekur menn í rogastans þegar slíkt er lesið en undarlegra er að Þorvaldur Gylfason, prófessor emeritus, hefur í ræðu og riti tekið undir þetta. Þetta eru jaðarkenningar úr smiðju samsæriskenninga sem sýnir að forsætisráðherra ætti að vanda sig betur þegar hún sækir tilvitnanir sínar.