c

Pistlar:

28. júní 2025 kl. 14:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitísk áhætta og sjávarútvegurinn

Til að þurfa ekki að hefja þessa grein á skammstöfun má minna á að ekki er alltaf betra að flækja hlutina. Eins furðulegt og það er þá koma slíkar ábendingar oft frá erlendum skammstöfunum svo sem AGS og OECD, kannski þó síður NATO! En nú vorum við Íslendingar að fá niðurstöðu af úttekt OECD sem stendur fyrir Organisation for Economic Co-operation and Development á ensku, sem á íslensku þýðir Efnahags- og framfarastofnunin. Þeir eru sem sagt að horfa til þess sem telst til framfara. Bæði AGS og OECD sjá mikil tækifæri í íslensku efnahagslífi en víða má sjá hættumerki. Hugsanlega er mesta hættan sú pólitíska eins og sjávarútvegurinn er núna að upplifa þó að þessar stofnanir sneiði hjá því að orða slíkt með beinum hætti.alt2

Margt í ábendingum OECD er þarft og gott og minnir á hvaða hluti vert er að horfa til. Oftsinnis hefur verið bent á það hér í greinum að lengst af hafi Ísland verið einsleitt og fátækt þjóðfélag en hafi rambað á það í mörgum og misstórum skrefum að verða eitt þróaðasta og farsælasta þjóðfélag nútímans. Við Íslendingar erum verðugir þess að vera í félagsskap hinna Norðurlandanna sem reka farsælustu og bestu samfélög í heimi, eða hafa gert það lengst af, en þróun undanfarinna ára sýnir að ekkert er sjálfgefið og fámenn samfélög geta breyst hratt.

Velferðarkerfi byggð á markaðshagkerfi

Þessi þjóðfélagsgerð Norðurlandanna byggist á að vefja saman markaðshagkerfi með sterkri áherslu á velferðarkerfi. Jafnvægið þar á milli getur verið breytilegt eftir pólitískum áherslum hverju sinni þar sem vinstri menn fara stundum með samfélagið of langt til ríkisafskipta og sósíalisma og hægri menn reyna þá að rétta kúrsinn og færa einkaframtakinu ný tækifæri.

Sænskir jafnaðarmenn hafa í gegnum tíðina talað skýrt um að hagkerfið eigi að þjóna samfélaginu og tryggja jöfnuð, stöðugleika og velferð. Þekkt ummæli frá leiðtogum eins og Olof Palme, Per Albin Hansson og Stefan Löfven undirstrika þessa hugmyndafræði, þar sem hagkerfið er séð sem tæki til að ná félagslegum markmiðum. Eins og mál hafa þróast hafa sænskir jafnaðarmenn verið dyggir stuðningsmenn markaðsbúskapar, oft þó eftir samtal við hægrimenn um það.fiskvionnsla

Gegnumsneitt eru þessi samfélög að reka um 45 til 50% af landsframleiðslu sinni í gegnum samneyslu ríkisrekstrar. Grunnur að þessum velferðakerfum er að vélin virki! Hvað er átt við með því? Jú, það hefur verið víðtækur skilningur á því að forsenda alls sé að atvinnulífið (vélin) hafi tækifæri til að greiða laun og standa undir velferðakerfinu. Einkaframtakið hefur því lengst af verið í forgrunni og Norðurlöndin hafa fóstrað mörg áhugaverð fyrirtæki og reynst standa framarlega þegar kemur að nýsköpun og tækni. Það er þó síður en svo sjálfgefið og nokkuð góð sátt ríkir um það meðal stjórnmálanna á hinum Norðurlöndunum að þarna verði að ríkja gott jafnvægi.

Skilningsleysi á þörfum atvinnulífsins

Almennt ríkir mikill skilningur á þörfum atvinnulífsins á hinum Norðurlöndunum en Ísland sker sig þar úr. Lengi framan af áttu Íslendingar í erfiðleikum með að losa böndin, auka atvinnufrelsi og sátu fyrir vikið í helsi hafta, blokkamyndanna sem sóttu afl sitt til stjórnmálanna og einhæfs atvinnulífs.

Eftir hröð umskipti á áratugunum í kringum síðustu aldamót kom bakslag eftir bankahrunið og Jóhönnustjórnin var skýrt dæmi um að efnahagslegar framfarir eru ekki sjálfgefnar.

Nú er svo komið að launagreiðendur þurfa að hafa sig alla við til að verða ekki undir á hinu pólitíska sviði sem rekið er áfram af handhöfum hins menningarlega auðmagns eins og hefur verið rakið hér. Uppgangur flokks eins og Pírata var skýrt dæmi um það, eða hvernig eiga launþegar að geta þrifist í hagkerfi sem ætlar sér að greiða borgaralaun til þeirra sem eru ekki launþegar. Þetta var einmitt eitt af baráttumálum Pírata.Norðurlandafánaborg

Högg á fjárfesta í sjávarútvegi

Hin seinni misseri hafa einstakar atvinnugreinar og jafnvel atvinnulífið í heild þurft að taka inn pólitíska áhættugreiningu til að meta hvað framundan er. Aðstaða sjávarútvegsins nú verður ekki skilin öðruvísi en að þar hafi menn ekki séð fyrir hina pólitísku áhættu sem var að gerjast. Nú þegar veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar birtist er augljóst að sjávarútvegurinn er skekinn og fjárfestar illa leiknir. Þrjú sjávarútvegsfyrirtæki voru skráð í kauphöllina og hefur markaðsvirði þeirra lækkað verulega og fjárfestar eru órólegir. Sem dæmi um afleiðingar þess er að lífeyrissjóðirnir hafa tapað sem svarar 22 milljörðum króna samkvæmt útreikningum Samtaka skattgreiðenda. Gangi sjávarútveginum vel að laða til sín fjárfesta á næstunni.

Þetta ætti að vera varnaðarorð fyrir aðrar atvinnugreinar. Þær geta átt von á hverju sem er frá þessari ríkisstjórn sem nú hefur afhjúpað skilningsleysi sitt á forsendum og rekstri einnar atvinnugreinar. Hverjir verða næstir?