c

Pistlar:

29. júní 2025 kl. 21:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistar allra landa, sundrist!

Sósíalistar boða að þeir séu byltingarafl í þjóðfélaginu en eftir tíðindi helgarinnar innan Sósíalistaflokks Íslands spyrja menn enn á ný: Étur byltingin börnin sín? Sósíalistaflokkurinn stendur nú ljósum logum og það er búið að skrúfa fyrir vatnið á Samstöðinni og smiðurinn Þorvaldur Þorvaldsson, sem alla jafnan var kallaður Albaníu-Valdi, er búin að negla fyrir einhverjar hurðir í húsakynnum sósíalista. Það er líklega táknrænt fyrir þau innanhússátök sem ríkja í félaginu sem ætlaði að skora sögu sósíalista á hólm og starfa í einingu og friði.sossi

Sósíalistaflokkurinn hefur stært sig af því að hafa flatan valdastrúktúr og engan formann. Fyrir vikið var flokkurinn skipulagður þannig að hann hefur nokkrar ólíkar stjórnir sem áttu að hafa jafnt umboð. Á heimasíðu flokksins stendur að þetta sé gert til að verjast klíkumyndun! Þrjár stjórnir störfuðu í flokknum: framkvæmdastjórn, kosningastjórn og málefnastjórn og í hverri þeirra voru níu meðlimir. Á tímabili var unnið að stofnun sérstakrar baráttustjórnar!

Skipta á milli sín ríkisframlaginu

Það var ekki fyrir alla að skilja þennan flata valdastrúktúr en Alþýðufélagið og Vorstjarnan skiptu á milli sín ríkisframlaginu sem getur numið um 120 til 130 milljónum króna yfir kjörtímabilið. Það finnst sumum ríflegt í ljósi þess að flokkurinn hefur aldrei náð manni á þing. Vorstjarnan er fjármögnuð með fjárframlögum Reykjavíkurborgar og ríkisins til Sósíalistaflokksins.

Í Alþýðufélaginu er 17 manna stjórn (var fjölgað um 5 nýlega). Meðal nýliða í stjórninni voru ýmsir þjóðþekktir einstaklingar. Má til dæmis nefna rithöfundana Vigdísi Grímsdóttur, Einar Má Guðmundsson og Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Þá eiga Solveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Þorvaldur Gylfason prófessor og Kristinn Sigmundsson óperusöngvari nú sæti í Alþýðufélaginu. 

Sagan og þingræðið

Í árdaga sósíalismans á Íslandi var tekist á um hvort hægt væri að ná völdum með þingræðislegum aðferðum. Segja má að þetta hafi birst í ólíkri nálgun þeirra Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar. Brynjólfur taldi byltingu einu lausnina. Hin leníníska aðferð er sú að harðsnúin framvarðasveit nái völdum og stjórni í nafni verkalýðsins, í nánast mystísku sambandi flokks og öreiga sem telst falla undir vísindi sögulegrar efnishyggju af sanntrúuðum. Brynjólfur taldi að leiðin fælist í algjöru afnámi lýðræðis og hundrað prósent flokksaga, því engin skoðun er leyfð nema flokkslínan. Þess má geta að það er stytta af Brynjólfi í húsakynnum Háskóla Íslands.

sossi2

Mikilvægi Samstöðvarinnar

Enginn skildi betur en Vladimir Lenin, skipuleggjandi og leiðtogi rússnesku byltingarinnar og stofnandi Sovétríkjanna, mikilvægi áróðurs réttu fjölmiðlanna enda er eftir honum haft að: „Blaðið er ekki einungis sameiginlegt áróðursgagn og sameinandi hvati, heldur einnig sameiginlegur skipuleggjandi.“ Eftir valdatöku bolsévíka árið 1917 tók ríkið yfir fjölmiðla og menningarstofnanir. Lenín skipulagði kerfisbundinn áróður í gegnum blöð, bækur, plaköt og kvikmyndir til að ná til almennings.


Hugmyndafræði Sósíalistaflokks Íslands var lengst af sú stefna sem hraut af vörum stofnanda flokksins, Gunnars Smára Egilssonar, sem er þeirra náttúru að geta endurorðað söguna í hvert sinn sem hann opnar munninn. Enginn núlifandi Íslendingur hefur stofnað fleiri fjölmiðla og því lá beint við að setja af stað Samstöðina sem rekur samnefnda útvarpsstöð. Stöðin fær fjármagn beint frá Sósíalistaflokknum í gegnum Alþýðufélagið. Um leið hefur Gunnar haldið utan um Rauða þráðinn, umræðuvettvang sósíalista á Facebook. Þennan þráð setti Gunnar Smári af stað þegar hann barðist fyrir því að Ísland yrði sameinað Noregi, hugmynd sem sett var fram í gríni og alvöru. Það er kannski gráglettni örlaganna að á Rauða þræðinum var byltingin gegn honum rekin áfram, að hluta til af hálfu liðsmanna Roðans, ungliðahreyfingar Sósíalistaflokksins. Gunnar Smári hefur verið ritstjóri Samstöðvarinnar og formaður framkvæmdastjórnar flokksins en hans helsti andstæðingur, Karl Héðinn Kristjánsson, hefur verið forseti Roðans.sossi3

Hin óvirka Samviska

Þá er ógetið félagsskaparins Samvisku, sem hefur það hlutverk með höndum að „efla umræðu og vitund um réttindi og skyldur félagsmanna í Sósíalistaflokknum, vanda starfshætti, góð samskipti, virðingu fyrir persónum og jafnrétti milli einstaklinga í starfi flokksins auk þess að skera úr um ágreiningsmál sem þar geta komið upp og falla utan verksviðs Framkvæmdastjórnar.“ Það urðu örlög Samvisku að deilt var um hvernig skyldi skipað í hana og eins og málin hafa þróast hefur Samviskan verið óvirk í flokknum, skilji hver eins og hann vill.

Það er kannski táknrænt að það komi í hlut Albaníu-Valda að negla fyrir hurðir Sósíalistaflokks Íslands. Íslendingar þekktu hann sem formann Alþýðufylkingarinnar en hann hefur einnig starfað í Menningartengslum Albaníu og Íslands, Baráttusamtökunum fyrir stofnun kommúnistaflokks, Rauðum vettvangi, Vinstrihreyfingunni - grænu framboði, Heimssýn og Samtökum hernaðarandstæðinga auk þess sem hann ritstýrði blaðinu Rödd byltingarinnar á níunda áratugnum. Þetta minnir á að sósíalistar bera iðulega marga hatta.